Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Húmor var eitt útbreiddasta form pólitískra mótmæla gegn harðstjórn kommúnista í Sovétríkjunum. Skopið varpaði ljósi á hugmyndafræði örbirgðar.

Óli Björn Kárason

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti hélt sérstaklega mikið upp á skopsögur frá Sovétríkjunum sálugu, þar sem stjórnkerfi kommúnistaflokksins var haft að háði og spotti. Reagan gerði sér alltaf grein fyrir áhrifamætti húmorsins í pólitískri hugmyndabaráttu – baráttu frelsis gegn ófrelsi, átökum hins góða við hið illa. Vladimír Búkovskí, einn þekktasti andófsmaður Sovétríkjanna, sagði í blaðaviðtali skömmu áður en hann lést árið 2019, að í hvert sinn sem hann hefði hitt forsetann hefði hann alltaf spurt: „Ertu með einhverja nýja brandara?“

Saga um manninn sem stóð í biðröð á bílasölu í Moskvu var í sérstöku uppáhaldi hjá Reagan. Þegar loks kom að manninum rétti hann sölumanninum umslag troðfullt af peningum til að greiða fyrir bílinn.

„Takk fyrir, félagi,“ sagði sölumaðurinn. „Þú getur komið eftir tíu ár til að ná í nýja bílinn.“

Kaupandinn spurði brosandi: „Fyrir eða eftir hádegi?“

„Hvaða máli skiptir það?“

„Jú sjáðu til, píparinn ætlar að koma fyrir hádegi.“

Búkovskí, sem var 12 ár í sovéska Gúlaginu, á sjálfur sinn uppáhaldsbrandara. Leoníd Brésnef, sem var aðalritari kommúnistaflokks Sovétríkjanna 1964 til 1982, var aldrei talinn vera skarpasti hnífurinn í skúffunni. Snemma á fallegum sumarmorgni fer Brésnef út á svalir og horfir til himins þar sem sólin skín: „Góðan daginn, sól!“

Sólin segir: „Góðan daginn, félagi Brésnef, aðalritari Kommúnistaflokks hinna dýrlegu Sovétríkja!“

Eftir hádegismat fer Brésnef aftur út á svalir sínar og segir: „Gleðilegan eftirmiðdag, sól!“

Sólin svarar: „Gleðilegan eftirmiðdag, félagi Brésnef, aðalritari Kommúnistaflokks hinna miklu og sögulegu Sovétríkja!“

Seinna, þegar sólin er að setjast, segir Brésnef: „Gott kvöld, sól!“

Sólin segir: „Farðu í rassgat. Ég er komin til Vesturlanda.“

Vitsmunalegur veikleiki Brésnefs var uppspretta margra brandara á áttunda áratugnum í Sovétríkjunum. Eldri maður stóð á Rauða torginu og hrópar hástöfum: „Brésnef er hálfviti. Brésnef er hálfviti.“ Hann var handtekinn og dæmdur í 15 ára fangelsi – fimm ár fyrir að móðga leiðtoga Sovétríkjanna og 10 ár fyrir að upplýsa um ríkisleyndarmál.

Hárbeitt háð

Óendanlegur fjöldi er til af bröndurum um það ófrelsi sem almenningur í Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra í Austur-Evrópu bjó við. Húmorinn var hárbeittur, veitti fólki örlita birtu í grámyglu sem umlék öll samfélögin en var um leið vopn almennings í baráttunni gegn kúgun kommúnista.

Erich Honecker var aðalritari kommúnistaflokks Austur-Þýskalands frá 1971 og þar til Berlínarmúrinn féll árið 1989. Berlínarmúrinn var merki um kúgun, lítilsvirðingu gagnvart réttindum einstaklinga og mannréttindum. Múrinn var örvæntingarfull tilraun til að koma í veg fyrir að fólk gæti tekið til fótanna og yfirgefið landið – komist undan eymd og ógnarstjórn. Um 3,5 milljónir Austur-Þjóðverja höfðu flúið land. Múrnum, sem var reistur árið 1961, var ætlað að stöðva blóðtökuna.

Honecker var yfir sig ástfanginn af nýju ástkonunni og sagðist gera hvað sem er fyrir hana.

„Hvað sem er?“ spurði ástkonan.

„Já hvað sem er, bara nefndu það.“

Ástkonan horfði beint í augun á aðalritaranum og sagði: „Allt í lagi. Ég vil að þú rífir Berlínarmúrinn.“

Honecker hugsar sig um nokkra stund og svo kviknar ljósið og hann brosir út að eyrum: „Ó, ég skil. Þú vilt vera ein með mér!“

Stalín týndi uppáhaldspípunni sinni. Nokkrum dögum síðar kom Bería, yfirmaður öryggislögreglunnar og náinn samverkamaður Stalíns, til aðalritarans. „Hefur pípan fundist?“

Stalín var kátur og svaraði: „Já, ég fann hana undir sófanum.“

„Ég trúi þessu ekki,“ segir Bería forviða. „Við erum búnir að handtaka þrjá menn og þeir eru allir búnir að játa á sig þjófnað!“

Fimm rússnesk boðorð:

Ekki hugsa.

Ef þú hugsar, ekki tala.

Ef þú hugsar og talar, ekki skrifa.

Ef þú hugsar, talar og skrifar, ekki skrifa undir.

Ef þú hugsar, talar, skrifar og skrifar undir, ekki vera hissa þegar öryggislögreglan bankar upp á.

Endurnýjun lífdaga

Húmor var án efa eitt útbreiddasta form pólitískra mótmæla gegn harðstjórn kommúnista í Sovétríkjunum og í Austur-Evrópu. Stuttir brandarar – skopsögur – voru mótvægi gegn áróðri yfirvalda og harðneskjulegum aðferðum til að skapa samfélag ótta og undirgefni. Skopið varpaði ljósi á hugmyndafræði sem leiddi af sér örbirgð og skort þar sem líf einstaklinga var einskis virði. Um leið voru ráðamenn tættir sundur og saman í háði.

Sagan um manninn sem kom inn í búð og spurði afgreiðslumanninn hvort hann ætti kíló af nautakjöti lýsir ágætlega þjóðfélagi skorts og biðraða. „Nei því miður, félagi: Þetta er fiskbúð og hér fæst ekki fiskur. En hinum megin við götuna er kjötbúð þar sem ekki er til kjöt,“ svaraði kaupmaðurinn.

Nú eru það ekki lengur Lenín, Stalín og Brésnef sem eru í skotlínunni heldur Vladímír Pútín forseti Rússlands, sem greinilega er „verðugur“ arftaki fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna. Brandararnir eru margir tímalausir og ganga í endurnýjun lífdaga í Rússlandi Pútíns.

Stalín birtist Pútín í draumi. „Ég ætla að gefa þér tvö ráð. Þú átt að koma öllum pólitískum andstæðingum fyrir kattarnef og þú átt að mála Kremlín bláa.“

Pútín spyr hissa: „Af hverju bláa?“

„Ég vissi að þú hefðir ekkert við fyrra ráðið að athuga,“ sagði Stalín.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.