Guðrún Þórarinsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 14. nóvember 1940. Hún lést á Vífilsstöðum 12. maí 2024.

Foreldrar hennar voru þau Þórarinn Jónsson verkstjóri, f. 5. maí 1905, d. 8. ágúst 1958, og Sigrún Ágústsdóttir húsmóðir, f. 14. nóvember 1910, d. 23. október 2005. Bræður hennar eru þeir Ingólfur, f. 1935, d. 2023, Einar, f. 1937, drengur, f. 1938, d. 1939, drengur, f. 1942, d. 1942, Ágúst Ingvi, f. 1943, Andrés, f. 1945, d. 1993.

Eiginmaður hennar var Gísli Bergsveinn Ólafur Lárusson, f. 11. júní 1940, d. 2. febrúar 2014. Börn þeirra eru þrjú: 1) Þórarinn, f. 31. júlí 1962, d. 12. desember 2023. Eiginkona hans var Karen Dagmar Guðmundsdóttir, f. 19. október 1978, synir þeirra eru: a) Guðmundur Gísli, f. 1. október 2012, b) Þórarinn Rúnar, f. 22. nóvember 2013, c) Matthías Hrafn, f. 15. apríl 2018, fósturdóttir hans er Ragnheiður Tara Dagmar Þórarinsdóttir f. 17. september 1997. Fyrri eiginkona var Kristín Valgeirsdóttir f. 27. febrúar 1962, þau voru barnlaus. Sambýliskona og barnsmóðir var Bryndís Ann Brynjarsdóttir, f. 3. ágúst 1963, synir þeirra eru: a) Brynjar Þór, f. 7. september 1986, eiginkona hans er Ágústa Ýr Sigurðardóttir, þau eiga tvær dætur. b) Gunnar Már, f. 12. júní 1992, sambýliskona hans er Nelly Carolina Millian Hoyos. 2) Jóna Bryndís, f. 24. október 1967, hún er gift Vilhjálmi Sveini Björnssyni, f. 3. nóvember 1968, börn þeirra eru: a) Guðrún Lilja, f. 29. desember 1987, sambýlismaður Róbert Már Blöndal, þau eiga þrjá drengi, b) Gísli Lárus, f. 4. desember 1990, eiginkona hans er Rebekka Gottskálksdóttir McGetrick, þau eiga tvö börn en sonur þeirra lést nýfæddur árið 2020. Áður átti Gísli son með Lenu Björgu Daðadóttur, c) Fannar Pál, f. 25. maí 1994, eiginkona hans er Alda Björk Arnardóttir, þau eiga dóttur. 3) Sigrún, f. 31. júlí 1969, gift Bjarna Þór Hjaltasyni, f. 7. apríl 1970, dætur þeirra eru: a) Ásdís Rún, f. 14. janúar 1994, sambýlismaður Arnór Freyr Sigþórsson og eiga þau dóttur, b) Ólöf Lilja, f. 20. ágúst 1997, c) Sandra Björk, f. 25. október 1999, sambýlismaður Tómas Páll Pálsson, þau eiga son.

Guðrún og Gísli hófu búskap í Vestmannaeyjum árið 1961, þau fluttu í Kópavog 1967 og bjuggu þar alla sína tíð fyrir utan eitt ár á Álftanesi. Guðrún vann margs konar vinnu á lífsleiðinni en lengst af sem bókari hjá Sýslumannsembætti Kópavogs. Hún var sjálfstæð og vildi ætíð láta gott af sér leiða og gerði það meðal annars í gegnum Lionsklúbbinn Ýr þar sem hún var stofnfélagi, en félagið átti 40 ára afmæli 29. mars síðastliðinn. Gegndi hún flestum stjórnarstörfum í klúbbnum og var handhafi æðstu viðurkenningar Lionshreyfingarinnar, „Melvin Jones“, fyrir störf sín í þágu klúbbsins. Eftir að hún missti eiginmann sinn starfaði hún með mæðrastyrksnefnd í Kópavogi.

Jarðarför hennar fer fram frá Lindakirkju í dag, 29. maí 2024, klukkan 13.

Nú hefur mín elskulega mamma kvatt okkur í hinsta sinn. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið þig sem mína mömmu. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig og mína. Við töluðum saman á hverjum degi og hittumst flesta daga og það er erfitt að venja sig af því að hafa samband við þig til að segja þér nýjustu fréttir af fjölskyldunni.

Þið pabbi voruð alltaf sem eitt og það var því mikill missir þegar pabbi lést fyrir 10 árum. Þú áttir mjög erfitt með að sætta þig við það en eins og sá baráttujaxl sem þú ávallt varst þá var aldrei í myndinni að gefast upp og þú fannst leið til að halda áfram án hans vitandi það að hann myndi taka á móti þér þegar þín stund kæmi.

Þú varst mikil fjölskyldukona og mikil félagsvera og lést þig ekki vanta í gleðskap og hitting nema eitthvað mikið væri að. Þú fagnaðir hverju nýju barnabarni og elskaðir að vera í kringum þau. Einnig naustu þess að vera í kringum hunda og þá átti hún Nala mín alveg sérstakan stað í hjarta þínu enda voruð þið sem eitt. Hún fékk ósjaldan að fara með þér upp í bústað og þá fylgdi hún þér eins og skugginn hvert fótmál.

Í gegnum tíðina hefurðu ekki vílað fyrir þér að flytja heim til mín og passa ýmist börn eða hund eða hvort tveggja. Enda áttirðu í frábæru sambandi við allar dætur mínar sem þekkja ekkert annað en að hafa elskandi og umhyggjusama ömmu á kantinum sem vildi allt fyrir þær gera. Ef það þurfti að laga eitthvað þá var alltaf viðkvæðið „ég hringi bara í ömmu“.

Bústaðurinn sem þið pabbi byggðuð upp hefur verið dýrmætt athvarf fyrir fjölskylduna og þú vissir fátt betra en að koma þangað.

Síðastliðið ár hefur verið mjög erfitt enda röð áfalla gengið yfir okkur fjölskylduna í formi mikilla veikinda og dauðsfalls. Þá hrakaði heilsu þinni sífellt í vetur og maður fann að þú varst í raun búin að fá nóg. Enda sagðirðu við mig daginn áður en þú lést að þú gætir nú ekki verið mikið lengur hér. Svo ég veit að þú varst hvíldinni fegin og það ætla ég að hafa mér til huggunar og að þú ert nú aftur með mínum dásamlega pabba.

Takk fyrir allt, elsku mamma.

Þín

Sigrún.

Elsku mamma, ég er búin að vera í vandræðum með að skrifa eitthvað niður, það er hægt að skrifa um svo margt gott.

Kærleikurinn sem þú veittir mér, stuðningurinn þegar þú sagðir mér að þegar erfiðleikarnir væru miklir skyldi ég sjá fyrir mér ramma, þó að hann væri svartur skyldi ég skoða hann vel, því að í honum væri örlítill bjartur blettur og ef ég einbeitti mér að honum þá myndi hann stækka og það stóðst. Ég man svo vel fjölskylduferðirnar okkar á Þingvöll þar sem við borðuðum nesti. Ég á ekki nægilega stór lýsingarorð til að lýsa þeim tilfinningum sem ég ber til þín, kannski er það vegna þess sem við töluðum oft um að naflastrengurinn var aldrei klipptur milli okkar, þú fannst alltaf þegar mér leið illa og ég þér.

Það verður svo erfitt að heyra ekki rödd þína aftur, við heyrðumst í síma á hverjum degi og nú er tómleikinn svo mikill. Hún og pabbi voru óþreytandi í að hjálpa mér með börnin mín, þar sem ég var mikið ein með þau fyrstu árin vegna vinnuaðstæðna Villa. Þau buðu mér að taka þau með sér bústaðinn og ekki þótti krökkunum það leiðinlegt, og ég er þeim svo þakklát. Það var svo gaman að vera með þeim að byggja upp bústaðinn sinn þar sem þau ætluðu að eyða síðustu árunum saman en náðu ekki nema hluta af þeim þar sem pabbi féll frá 2014. Eftir að missa hann fór hún samt þangað ein eða í félagsskap Hrundar systur minnar sem veitti henni ómælda gleði á þeim erfiða tíma. En þetta segir margt um mömmu að þrátt fyrir að missa pabba hætti hún ekki að fara. Hún hélt áfram að reyna að sinna sínum hlutum, vera í garðinum sínum og takast á við að vera orðin ein.

Veikindi mömmu hafa verið lengi en hún glímdi við erfiðan lungnasjúkdóm, hún gerði allt til að halda honum í skefjum, synti sjálf eins lengi og hún gat, fór í sundleikfimi, prufaði óhefðbundna hluti, hún vildi bara reyna, því hún mat sjálfstæði sitt ofar flestu. Það versta sem hún gat hugsað sér var að vera háð öðrum. Hún var svo mikil fyrirmynd að seiglu, gefast aldrei upp þótt á móti blási, eins og ég sagði stundum við hana, þú gerir þér enga grein fyrir því sem þú skilur eftir þig í því að vera fyrirmynd fyrir barnabörnin þín.

Hún naut þess að eiga stóran hóp af yndislegum vinkonum. Kaffihúsahittingar sem haldnir voru reglulega voru þannig að það þurfti að sópa þeim út af kaffihúsinu þegar átti að loka því þær skemmtu sér svo vel. Þegar hún var orðin mjög veik og á spítala núna síðustu mánuði tók sig saman hópur af vinkonum hennar og flutti kaffihúsahitting á spítalann, mikið gladdi þetta hana og henni fannst bara hægt að útskrifa sig eftir hvert skipti því henni leið svo vel. Ég gat ekki verið mikið til staðar síðustu tvö ár vegna veikinda og föst á spítala sjálf, ég syrgi þessi ár, hefði svo mikið vilja hlífa þér við öllu sem þeim fylgdi, en verkefnin sem við fáum eru víst ekki valin af okkur og ég get engu breytt, bara þakkað fyrir allt hitt sem ég á gott, allar góðu minningarnar, þakklætið yfir að eiga móður eins og þig.

Hvíldu í friði, elsku mamma mín, elska þig.

Þín

Jóna Bryndís (Nanna).

Elsku tengdamamma. Að lokum fór sem fór. Það rennur margt um hugann þegar stundin er runnin upp. Það fylgdi þér falleg ára sem var umvefjandi. Mikil hlýja og ást sem tók utan um allt og alla í návist þinni. Kraftur og eljusemi sem er ekki öllum gefin. Samband þitt við breiðan vinahóp, með Gísla þínum, í m.a. Lions og síðar fjölbreyttu starfi eldri borgara í Kópavogi, var fyrirferðarmikið alla tíð. Sterkur vilji þinn sást best síðustu árin þegar hugurinn hafði getu umfram líkamsstyrk.

Síðustu árin einkenndust af óbilandi baráttuþreki sem vakti ávallt aðdáun mína. Baráttukonan þú munt ávallt eiga þinn sérstaka stað í mínu hjarta.

Takk fyrir allt sem þú gafst mér. Minning þín lifir með mér, mína leið.

Þinn andi svífur víða vega,

vorsól skín af öldungs brá.

Sigrar lífið laus við trega,

ljóssins vita stefnir á.

(Ragnar S. Helgason)

Þinn

Bjarni Þór Hjaltason.

Elsku amma.

Ég get ekki lýst því hvað ég sakna þín mikið. Við vorum bestu vinkonur og gat ég leitað til þín með hvað sem er. Þú kenndir mér svo ótal margt að ég gæti ekki einu sinni talið það upp. Þér fannst svo gaman að segja mér sögur um barnæsku þína og hvernig lífið var þegar þú varst að alast upp, enda áttum við mörg svoleiðis kvöld uppi í sumarbústað.

Það er svo undarleg tilfinning að vita að ég mun aldrei upplifa svona tíma aftur með þér. Sumarbústaðurinn Mjölnir var okkar staður saman þar sem við komum okkur í hin ótrúlegustu ævintýri. Þú kenndir mér allt sem þú kunnir um garðyrkju og hvernig best væri að hugsa um tré og gróður, enda var það okkar sameiginlega áhugamál og gátum við endalaust talað og spáð hvaða tré myndi henta hverjum stað. Nú þegar við höfum keypt annan sumarbústað og ég byrjuð að gróðursetja þar, finn ég fyrir svo stóru tómarúmi þar sem þú ert ekki með mér. En ég á svo ótal góðar minningar með þér að þær hlýja mér og get ég fundið fyrir þér þegar ég hugsa um þig. Þú varst mín stoð og stytta alveg frá því að ég var lítil, þú studdir mig í öllu sem ég tók mér fyrir hendur og varst minn helsti stuðningsmaður. Þó að ég hefði svo mikið viljað hafa þig lengur með okkur veit ég að þú ert komin á staðinn sem þig hefur langað í langan tíma, til hans afa. Ég hugsa til ykkar og vona að þið séuð saman í lautarferð, enda margt sem hefur gerst á tíu árum og þið hafið nóg um að tala. Hlakka til að sjá þig aftur elsku amma, hvíldu í friði, elska þig svo mikið.

Þitt barnabarn,

Guðrún Lilja
Vilhjálmsdóttir.