Daníel Sigurðsson
Daníel Sigurðsson
Ég treysti Höllu Hrund betur en öðrum til að varðveita þetta fjöregg þjóðarinnar sem náttúruauðlindirnar eru, til framfara og hagsældar.

Daníel Sigurðsson

Sem véltæknifræðingur hjá þýska túrbínuframleiðandanum AEG-Kanis í Nürnberg í Þýskalandi um margra ára skeið átti ég því láni að fagna að koma að hönnun og markaðssetningu fyrstu jarðgufutúrbínanna í Svartsengi. Síðan hef ég ætíð fylgst af áhuga með íslenska orkubúskapnum og fengið tækifæri til að leggja honum lið.

Ég átti nýlega samtal við forsetaframbjóðandann Höllu Hrund Logadóttur (orkumálastjóra) um hennar sýn á nýtingu okkar auðlinda til bættra lífskjara.

Hún greindi hugfangin frá reynslunni af ferðalagi sínu um landið þar sem henni bárust m.a. til eyrna frásagnir af framtakssemi margra einstaklinga í sveitum landsins, fyrr á tíð, að beisla náttúruöflin. Þar sem margir hagleiksmenn, við þröngan kost, glímdu við hönnun og smíði túrbína í smávirkjanir sem voru undanfarar stórvirkjana á Íslandi.

Mun langafi minn hafa verið einn af þeim fyrstu til að koma upp slíkri virkjun á Eiði á Langanesi.

Eftir að hafa að auki hlustað á málflutning Höllu Hrundar í fjölmiðlaviðtölum sýnist mér ekki fara á milli mála að hún hafi víðtæka og góða þekkingu á gangverki orkubúskapar þjóðarinnar.

Hún hefur sterka sýn á orkumálin og hefur lýst því opinberlega yfir í viðtali varðandi málskotsrétt forseta að hún myndi mögulega nýta þann rétt til að vísa málinu til þjóðarinnar ef Alþingi samþykkti sölu Landsvirkjunar.

Ég treysti Höllu Hrund betur en öðrum til að varðveita þetta fjöregg þjóðarinnar sem náttúruauðlindirnar eru og tala máli þeirra sem vilja nýta þær, innan skynsamlegra marka, til framfara og hagsældar fyrir almenning.

Sem orkumálastjóri lét hún verkin tala og sýndi að hún er ófeimin við að taka frumkvæði til að styðja við og skapa ný tækifæri.

Það var verðugt framtak af hennar hálfu að ná fundi með sjálfum utanríkisráðherra Argentínu, eins öflugasta ríkis Suður-Ameríku, um viljayfirlýsingu um samstarf í orkumálum. Slíkur samningur felur ekki í sér neinar skuldbindingar. Þrátt fyrir það urðu einhverjir steigurlátir embættismenn íslenska utanríkisráðuneytinu móðgaðir og fannst fram hjá sér gengið. Þeim hefði verið nær að óska þessari snjöllu ungu valkyrju til hamingju með árangurinn.

Jón Bjarnason fyrrverandi ráðherra hefur staðhæft að hingað til hafi ekki tíðkast að aðkomu ráðuneytis þyrfti til þegar um viljayfirlýsingu er að ræða.

Þess má geta að fyrir nokkrum árum náðu Íslendingar slíkri viljayfirlýsingu og skuldbindandi samningi í kjölfarið við Kínverja sem hefur skilað miklum ávinningi fyrir báðar þjóðir.

En hvers megum við vænta af Katrínu Jakobsdóttur í forsetastóli?

Í orði hefur hún verið hlynnt svokölluðum orkuskiptum, þ.e.a.s. að raforka leysi jarðefnaeldsneyti af hólmi. Í reynd hefur hún og hennar flokkur sett fótinn fyrir nýjar virkjanir hvar sem því verður við komið þannig að mörg framleiðslufyrirtæki búa við orkuskömmtun og sum þeirra hafa orðið að grípa til brennslu á dýrri dísilolíu í stórum stíl en slíkt er þó ekki alltaf í boði.

Þannig hefur Katrín sem forsætisráðherra hamlað því að gjöfular náttúruauðlindir landsins auki lífsgæðin í landinu.

Hún hefur lýst yfir velþóknun sinni á vindmyllugörðum. Reynsla Svía af slíku ævintýri er skuggaleg. Vindmylluraforkufyrirtækin þar eru rekin með gífurlegu tapi. Það sama virðist stefna í hjá fleiri þjóðum sem hafa veðjað á vindorkuna.

Hafa ber í huga að orkuverð til almennings á Íslandi er miklu lægra en gerist hjá nágrannaþjóðunum. Hætt er við að sá munur myndi gufa upp með tímanum ef framleiðslan færðist yfir í vindmyllugarða.

Á Katrín erindi í æðsta valdastól landsins?

Í raun er þarna um drambsaman forystusauð að ræða á hlaupum frá óvinsælli ríkisstjórn og eigin flokki í útrýmingarhættu.

Formaður stjórnmálaflokks sem pendlar í kringum lágmarksfylgi 5% í skoðanakönnunum getur varla verið trúverðugur fulltrúi heillar þjóðar eins og hennar nýjasta slagorð gengur þó út á.

Hún er ein af málpípum kreddunnar um kynlaust tungumál og verið fullupptekin af transmálum að mínu mati.

Eru kandídatar frá fyrri framboðum, sem hafnað var, vænlegri kostir nú en þá? Nei, ég held ekki.

Hleypum að nýrri rödd þar sem ferskir vindar blása.

Halla Hrund hefur mjög fágaða framkomu sem sæmir þjóðhöfðingja og ekki sakar að hún spilar ljúfa tóna á harmóniku.

Ég vil líkja Höllu Hrund til orðs og æðis við íslensku fjallkonuna fríðu, holdi klædda, sem mun vaka yfir þjóðinni veiti hún henni brautargengi að æðstu valdastofnun landsins, Bessastöðum.

Höfundur er véltæknifræðingur.