Guðbjörg Snót Jónsdóttir
Guðbjörg Snót Jónsdóttir
Ég kæri mig ekkert um að kjósa það fólk, sem væri líklegt til þess að færa þeim land og þjóð á silfurfati.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir

Þessari spurningu hef ég orðið að svara þó nokkrum sinnum, eins og ég býst við að fleiri hafi gert, þegar úrslitastundin nálgast.

Þegar ég segi, að það hafi ég gert strax, og nefni þann frambjóðandann, sem þessi áróðursfyrirtæki í skoðanakannanalíki hafa alltaf haft neðst á listanum og varla viljað vita af, Arnar Þór Jónsson, þá hef ég oftar en ekki mætt glotti og þeirri spurningu, hvort ég treysti honum eða geti gert það, og nefna í leiðinni, að þeir ætli að styðja einhvern af þeim fjórum eða fimm, sem þessi fyrirtæki hafa haft efst á listanum hjá sér, oftar en ekki Katrínu Jakobsdóttur.

Ég hef alltaf sagt, að ég ég treysti engu af þessu fólki. Ég sé lýðveldissinni og kæri mig ekkert um fólk, sem er í slíkum tengslum við erlend fyrirtæki og stofnanir, sem vitað er, að ásælist auðlindir okkar og vilji ræna okkur fullveldinu og sjálfstjórninni. Þótt Katrín hafi ekki verið sem verst í forsætisráðherrastólnum, þá er ekki þar með sagt, að forsetaembættið henti henni endilega, og hinum treysti ég alls ekki, hvað sem þau segja til þess að fá sem flest atkvæðin.

Foreldrar mínir fæddust á fyrsta áratug síðustu aldar í landi Danakonungs, og voru bæði á lýðveldishátíðinni fyrir áttatíu árum. Þau sögðu alltaf, að engin þjóð væri ofhaldin í slíku ríkjasambandi. Maður sér það líka á nágrönnum okkar hér í norðri, Grænlendingum og Færeyingum, sem oft hafa talað um það, að stefnan væri að fara sömu leiðina og við eða að slíta alveg tengslunum við Dani. Hinum megin á hnettinum eru svo Ástralir að huga að því að slíta sambandinu við Breta og gerast sjálfstæð þjóð. En margir hér innanlands vilja endilega gera okkur að sambandsríki í ESB eða tengja okkur einhverjum fyrirtækjum, sem ásælast auðlindir okkar og ráðskast bæði með þær og okkur sem þjóð. Ég kæri mig ekkert um að kjósa það fólk, sem væri líklegt til þess að færa þeim land og þjóð á silfurfati, hvað sem þau segja og lofa í kosningabaráttu. Ég treysti engu, sem þau segja. Þeir, sem vilja fylgja þeim, ættu að lesa þann kafla Íslandssögunnar, sem fjallar um það tímabil, sem við vorum undir stjórn Dana og ekkert ofhaldin í því sambandi.

Faðir minn var verkalýðsforingi og einn úr framvarðarsveit Alþýðuflokksins á sinni tíð, var þó alltaf í andstöðu við flokkinn í ESB-málunum, einkum vegna fiskimiðanna, sem hann eins og fleiri vildu, að væri í eigu og yfirráðum Íslendinga einna. Ég vandist snemma á að fylgjast með kosningabaráttu flokka, sveitarstjórnarfólks og forsetaefna, og lærði snemma að meta gildi skoðanakannana, og hef fylgst með þessu gegnum ár og öld, og ég sé fljótt, hvort það er mikið að marka þær skoðanakannanir, sem koma fram. Það þýðir lítið fyrir forsvarsmenn þeirra fyrirtækja að koma fram fyrir mig með einhverjar engilásjónur og sakleysissvip og segja að allt sé eftir bókinni hjá þeim, þegar sjá má, að svo er ekki alfarið, eins og þessar svokölluðu skoðanakannanir hafa verið á þessum tíma. Ég sé í gegnum þær og tek ekki mark á þeim, enda hef ég aldrei látið þær ráða því, hvað ég kýs á kjördag, og ég vona, að fleiri séu svoleiðis líka, enda erum við ein í kjörklefanum og enginn fylgist með, hvað við kjósum. Ég styð og kýs þann frambjóðandann, sem ég treysti best til að gæta og varðveita lýðveldið, frelsið og fullveldið. Ég kýs Arnar Þór Jónsson fyrir landið og þjóðina, lýðveldið, fullveldið og frelsið, og skora á fólk að veita honum glæsilegan sigur á kjördag.

Höfundur er guðfræðingur og fræðimaður.

Höf.: Guðbjörg Snót Jónsdóttir