Eva Bryndís Magnúsdóttir fæddist 19. apríl 1956 á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Hún lést í faðmi fjölskyldu sinnar 10. maí 2024.

Foreldrar hennar eru Magnús Brynjólfsson, f. 1923, d. 1976, og Kristbjörg Halldórsdóttir, f. 1930, d. 2014. Systkini Evu Bryndísar eru Erna, f. 1952, Brynjólfur, f. 1960, d. 2021, Sigrún, f. 1964, d. 1966, og Rúnar, f. 1967, d. 2022.

Eva giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Jóhannesi Árnasyni, 26. desember 1979 í Bægisárkirkju. Synir þeirra eru: 1) Árni Rúnar, f. 1979, giftur Sigurbjörgu Níelsdóttur, f. 1974, börn þeirra eru Níels Birkir, Steinar Ingi og Ásthildur Eva. 2) Andri Már, f. 1983, giftur Agnesi Dögg Hemmert Gunnarsdóttur, f. 1985, börn þeirra eru Indiana María, Andrea Dögg og Árný Fönn.

Eva Bryndís ólst upp í Lækjargötu 7 en var mikið hjá Sigrúnu ömmu sinni í Lækjargötu 9 og var sannkallaður innbæingur. Eva sinnti margvíslegum störfum á sinni ævi og vann meðal annars í frystihúsi ÚA, rak fataverslunina Essið og sólbaðsstofuna Hawaii. Hún vann sem móttökuritari og fasteignasali auk annarra starfa.

Árið 1990 flutti Eva með fjölskyldu sinni til Dalvíkur. Þar sinnti hún ýmsum félagsstörfum meðfram sinni vinnu, til dæmis fyrir Skíðafélag Dalvíkur, Golfklúbbinn Hamar, Sinawik og var í hinum ýmsu skólanefndum. Þau hjónin fluttust aftur til Akureyrar árið 2003. Þar lét hún til sín taka í félagsstöfum, var formaður Félags eldri borgara á Akureyri og var virkur félagsmaður í Golfklúbbi Akureyrar.

Þau hjónin ferðuðust mikið bæði innanlands og erlendis. Oftar en ekki var barnabörnunum boðið með í hjólhýsaferð eða í sumarbústað og ef ferðinni var heitið til útlanda voru Erna systir og Gunna vinkona gjarnan fengnar með.

Síðustu ár ævi sinnar var Eva virk í starfi Krabbameinsfélags Akureyrar en sú starfsemi stóð henni nærri og sótti hún styrk í sínum veikindum til félagsins.

Eva hugsaði ávallt hlýtt til Krabbameinsfélags Akureyrar, Heimahlynningar Akureyrar og starfsfólks göngudeildar lyflækninga SAK og mat starf þeirra mikils.

Útför hennar fer fram frá Glerárkirkju í dag, 29. maí 2024, klukkan 13.

Elsku mamma, það verður hálfundarlegt að fá ekki fleiri símtöl á morgnana þar sem þú býður mér að koma í kaffibolla, þær stundir eru nú dýrmæt minning. Það var alltaf töluð íslenska við eldhúsborðið þá morgna með rjúkandi heitan kaffibolla í hendi. Við fórum um víðan völl í þeim samtölum og þú varst alltaf svo áhugasöm um hvað við fjölskyldan værum að gera og hugsa. Hvernig gengi á sjónum og hvort Sibba og krakkarnir væru ekki örugglega að njóta þess að vera til og hvort þau nytu sín ekki í daglegu amstri.

Þegar maður hugsar til baka alveg frá því ég var barn þá eru þrjú orð sem mér finnst eiga svo vel við þig; dugnaður, ástúð og gleði. Það sem þú varst ekki búin að brasa með manni en þú varst líka ákveðin við mann og það var ekki til í þinni orðabók að gefast upp eða vera með einhverja vorkunnsemi þegar kom að því að þurfa að gera hlutina, bara láta vaða í verkið.

Útilegurnar voru ófáar sem við fórum í og hálendisferðin á Lödu Sport sem amma og afi á Bægisá áttu er minnisstæð og svo í seinni tíð við fjölskyldan með ykkur pabba á hjólhýsaferðalögum okkar um landið. Eftir að við fluttum á Dalvík og ég byrjaði að æfa skíði kom ekkert annað til greina hjá þér en að kaupa skíðabúnað og fara á skíðanámskeið svo þú gætir fylgt mér eftir. Það lýsir þér vel. En ég gæti skrifað fleiri en þúsund orð um það sem þú tókst að þér tengt mínum áhugamálum.

Amma varstu frábær, alltaf boðin og búin að hlaupa í skarðið, sækja og skutla, fæða og klæða. Ömmubörnin þín hænd að þér og þau eiga öll eftir að sakna silkimjúka faðmlagsins frá þér og allrar þeirrar væntumþykju sem þú gafst þeim.

Það var þér mikilvægt að við afkomendur þínir myndum mennta okkur, hvort sem væri á bóklegan hátt eða í lífsins skóla, gera samfélaginu gagn og þú varst áhugasöm um hvernig gengi í okkar ótal verkefnum.

Eftir að þú svo greindist með ólæknandi krabbamein fyrir sex árum var ekki til umræðu að gefast upp. Þú tvíefldist í baráttu þinni við meinið og eftir á að hyggja þá er með ólíkindum hvernig þér tókst að lifa með þessu. Þú varst aldrei veik og sjúklingur varstu aldrei í þínum huga og máli.

Þú stóðst upprétt fram til síðasta dags og þar á líka pabbi stóran þátt og hann stóð sannarlega með þér í blíðu og stríðu. Það var eiginlega ekki fyrr en í ársbyrjun á þessu ári sem maður fór að átta sig á að lífið er ekki endalaust og hinn 10. maí kvaddir þú okkur, friðsæl og sátt með okkur fjölskylduna með þér.

Hún móðir mín talaði ávallt vel um og hugsaði hlýtt til allra á göngudeild lyflækninga hér á Akureyri, allra í Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis og þær sem önnuðust hana frá heimahjúkrun Akureyrar. Þið eigið allar mínar þakkir fyrir ykkar starf og kynni.

Við hittumst í kaffi síðar, elsku mamma, takk fyrir allt.

Hversu þreytt sem þú varst,

hvað sem þrautin var sár.

þá var hugur þinn samt

eins og himinninn blár:

eins og birta og dögg

voru bros þín og tár.

Og nú ljómar þín sól

bak við lokaðar brár.

(Jóhannes út Kötlum)

Árni Rúnar Jóhannesson.

Elsku mamma.

Þó svo að við höfum vitað að þessi dagur kæmi þá átti ég ekki von á að hann kæmi svona fljótt. Þegar við töluðum saman í síma stuttu áður en þú kvaddir þá grunaði mig ekki að það yrði okkar síðasta samtal. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig og gekkst í málin þegar ég var á sjó og græjaðir hlutina. Þú ert ástæðan fyrir því hvaða mann ég hef að geyma í dag og kenndir mér þau gildi sem ég fer eftir.

Þær voru ófáar stundirnar sem þú sast yfir mér í grunnskóla og bókstaflega neyddir mig til að klára að læra. Þú tróðst mér í allar þær íþróttir sem voru í boði þó svo að ég hefði lítinn áhuga á því. Allt þetta stapp var til þess að auka líkur mínar á góðri menntun og heilsu.

Þú varst með puttana í því þegar ég fór á sjó sem þróaðist í að ég ákvað að það yrði mitt starfssvið. Það var svo löngu seinna þegar ég ákvað að mennta mig í skipstjórn sem ég fann hvað þú varst stolt af mér. Ég náði því miður ekki að klára áður en þú kvaddir en það mun ég gera og ég veit að þú hvetur mig áfram.

Þú varst alltaf svo stór hluti af öllu því sem skiptir mestu máli í lífi mínu og nú þegar þú ert farin verður risastórt tómarúm sem ég verð að fylla, en með þig sem fyrirmynd mun ég gera mitt besta í að vera þessi drifkraftur sem þú varst. Ég mun alltaf sakna þín og það eiga eftir að koma ótal stundir þar sem mig vantar að fá ráð frá þér en þá verð ég svo heppinn að vita innst inni nákvæmlega hvað þú myndir segja.

Takk fyrir að vera mamma mín, elska þig.

Andri Már Jóhannesson.

Elsku tengdamamma er fallin frá. Við vissum öll að sú stund kæmi innan tíðar en það var samt svo margt sem hún ætlaði sér að gera áður en hún kveddi okkur. Það verður bara að bíða betri tíma.

Ekki datt mér í hug, þegar ég fór til St. John's árið 2000 ásamt samstarfsfólki mínu hjá FMN, að þessi öðlingshjón frá Dalvík ættu eftir að verða tengdaforeldrar mínir. Þar datt ég sko aldeilis í lukkupottinn. Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar Árni minn fór með mig í fyrsta sinn í Hjarðarslóðina heim til foreldra sinna. Ég var mjög stressuð að hitta þau sem kærasta Árna en þau tóku mér strax opnum örmum og tóku okkur Níels minn strax inn í sína fjölskyldu.

Ég á Evu minni margt að þakka. Hún var stoð mín og stytta að svo mörgu leyti og gat ég alltaf leitað til hennar með aðstoð með börnin þegar Árni var á sjó. Þau Jói voru alltaf klár í að passa og tóku barnabörnin oft með í hjólhýsið í Mörkinni. Eftir að krakkarnir stækkuðu og gátu farið að vera ein heima ef við Árni brugðum okkur af bæ þá var samt alltaf skilyrði að krakkarnir kæmu í mat, Eva tók ekki annað í mál. Núna síðast 27. apríl þegar Steinar Ingi varð tvítugur og við foreldrarnir ekki heima, amma Eva ætlaði að bjóða afmælisstráknum sínum út að borða í hádeginu en treysti sér svo ekki til að fara út úr húsi. Þá var bara pöntuð steik frá Bautanum og þau Steinar áttu yndislegan tíma saman heima í Fannagilinu að fagna afmælinu hans. Börnin okkar eiga margar yndislegar minningar um frábæra ömmu sem þau munu geyma með sér um ókomna tíð. Ásthildur Eva erfði án efa skvísutaktana frá ömmu sinni. Hún minnist ófárra skipta þar sem þær frænkur, hún og Andrea Dögg, fengu að leika sér í bílskúrnum með hælaskó og kjóla af öllum stærðum og gerðum og var gólfið orðið fínpússað eftir þær þar sem þær drógu síðkjólana á eftir sér um allan skúr.

Elsku Eva, þú fórst allt of snemma frá okkur en ég veit að þú ert núna umvafin foreldrum þínum og systkinum sem líka fóru allt of snemma. Það á eftir að taka tíma að venjast því að þú ert ekki lengur með okkur og að við getum ekki lengur komið og fengið að smakka eitthvað gómsætt sem þú varst að gera tilraun með eftir einhverri uppskrift sem þú fannst á netinu og bara varðst að prófa og gefa okkur smakk.

Hvíl í friði elsku Eva mín, og við munum passa Jóa þinn fyrir þig.

Takk fyrir allt og þangað til næst.

Þín tengdadóttir,

Sigurbjörg Níelsdóttir.

Elsku Eva Bryndís.

Það er komið að leiðarlokum mun fyrr en við kærum okkur um.

Þegar ég hugsa um þig þá kemur upp í huga minn kona sem er kraftmikil, sterk, ákveðin og með mjög ákveðnar skoðanir, „það er bara þannig“ var þitt orðatiltæki sem þú settir gjarnan aftan við setningar þegar þú varst búin að tjá skoðanir þínar á ákveðinn hátt eins og þér einni var lagið. Þú varst líka mjög hjartahlý og sérstaklega verndandi þegar kom að þínu besta fólki. Þú hafðir líka gaman af lífinu, elskaðir að ferðast, vera í góðum félagsskap og fá þér smá rauðvín.

Það eru margar góðar minningar sem við eigum saman úr ferðalögum í gegnum árin, úr matarklúbbnum okkar og svo bara í kaffispjalli. Ég man þegar ég hitt ykkur Jóa fyrst þegar þið bjugguð á Dalvík, sú heimsókn hefur nú stundum verið rifjuð upp. Strax þar sá ég hvaða konu þú hafðir að geyma, reyndir margítrekað í gegnum árin að ala Inga Rúnar upp, hvort það tókst svo er annað mál.

Ég er þakklát fyrir gott spjall sem við áttum þegar ég kom við hjá þér um daginn, það var var bara svo notalegt.

Heimurinn er fátækari án þín, Eva mín, því þú varst svo sannarlega litríkur og skemmtilegur karakter, en missirinn er mestur hjá þínu besta fólki.

Takk fyrir samfylgdina, elsku Eva.

Kærleikskveðja,

Hildur Salína.

Það var erfitt að lesa skilaboðin frá Jóa um andlát Evu vinkonu minnar. Eftir erfiðan tíma og mikinn baráttuvilja hennar í rúm sex ár, þar sem Eva lét aldrei bilbug á sér finna en fór brosandi og bjartsýn í gegnum veikindi sín alveg til loka, hafði vágesturinn betur. Eftir standa minningarnar sem vert er að þakka.

Jæja Halldóra, eigum við ekki að fara að gera eitthvað? Eigum við ekki að fara að kalla hópinn saman og gera eitthvað? Helgarferð til Húsavíkur eða í Mývatnssveit, fara í skógarböðin, út að borða saman? Já svona var hún Eva, alltaf til í að njóta samvista með öðrum og átti oftar en ekki frumkvæði að því að hittast, ekkert síður meðan hún var veik. Ógleymanlegar árshátíðarferðir til Reykjavíkur, öll þorrablótin, spilakvöldin, utanlandsferðirnar með STEFNI, kaffihúsahittingar, „happy hour“-stundir og styttri ferðir eftir að við hættum að vinna. Takk fyrir allar frábæru samverustundirnar elsku Eva, ekki síst dásamlegar stundir í klefanum á Stjörnusól. Þar áttum við oft gott spjall og góðan tíma saman.

Elsku Jói, Árni Rúnar og Andri, innilegar samúðarkveðjur til ykkar og fjölskyldunnar allrar.

Þetta er hinsta kveðjan frá okkur hinum Gömlu góðu til þín elsku Eva, hvíl þú í friði.

Halldóra Guðrún
Sævarsdóttir.