Kosningar Cyril Ramaphosa, leiðtogi Afríska þjóðarráðsins og forseti Suður-Afríku (2 f.h.), var bjartsýnn þegar hann kaus í Soweto, heimabæ sínum.
Kosningar Cyril Ramaphosa, leiðtogi Afríska þjóðarráðsins og forseti Suður-Afríku (2 f.h.), var bjartsýnn þegar hann kaus í Soweto, heimabæ sínum. — AFP/Phill Magakoe
Þingkosningar í Suður-Afríku hófust í gær. Rúmlega 27 milljónir manna eru á kjörskrá, en búist er við því að þær verði mikilvægustu kosningarnar í landinu síðan árið 1994, þegar Afríska þjóðarráðið, ANC, fékk hreinan meirihluta og leiddi Suður-Afríku út úr aðskilnaðarstefnunni

Valgerður Laufey Guðmundsdóttir

vally@mbl.is

Þingkosningar í Suður-Afríku hófust í gær. Rúmlega 27 milljónir manna eru á kjörskrá, en búist er við því að þær verði mikilvægustu kosningarnar í landinu síðan árið 1994, þegar Afríska þjóðarráðið, ANC, fékk hreinan meirihluta og leiddi Suður-Afríku út úr aðskilnaðarstefnunni.

Skoðanakannanir síðustu mánuði hafa hins vegar bent til þess að ANC geti tapað meirihluta sínum í fyrsta sinn í 30 ár og telja sérfræðingar í málefnum landsins að ANC standi frammi fyrir einni erfiðustu áskorun sem komið hefur fram á þeim þremur áratugum sem þeir hafa stjórnað landinu.

Þannig séu kjósendur mjög svekktir yfir þeim ójöfnuði sem ríki í landinu, en það er plagað af miklu atvinnuleysi og hárri glæpatíðni, auk þess sem fátækt ríkir víða. Þá hafi þessir þættir hlutfallslega meiri áhrif á svart fólk en hvítt. Skoðanakannanir sýna að Afríska þjóðarráðið gæti fengið um 40% atkvæða að þessu sinni, en flokkurinn fékk 57% atkvæða í síðustu kosningum árið 2019. Verði það niðurstaðan gæti ANC neyðst til að mynda samsteypustjórn með stjórnarandstöðuflokkum og óháðum þingmönnum til að halda völdum.

John Steenhuisen, leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Lýðræðisfylkingarinnar (DA), sagði í gær að nú væri í fyrsta sinn í 30 ár möguleiki á að koma á breytingum í Suður-Afríku. Hefur flokkurinn heitið því að „bjarga Suður-Afríku“ með hreinum stjórnarháttum, einkavæðingu og afnámi hafta. Flokkurinn hefur hins vegar átt í erfiðleikum með að losa sig við ímynd sína sem flokkur hvíta minnihlutans og mælist hann með um 25% fylgi.

Kosið er um 400 þingsæti, en þingheimur kemur svo saman og kýs forseta Suður-Afríku úr hópi þingmanna. Kosningarnar eru þær sjöundu í Suður-Afríku þar sem fólk af öllum kynþáttum má kjósa, og hefur ANC unnið hinar sex. Leiðtogi ANC og núverandi forseti Suður-Afríku, Cyril Ramaphosa, sagðist ekki efast um það að fólkið myndi enn og aftur treysta Afríska þjóðarráðinu til að halda áfram að leiða landið og veita því öruggan meirihluta.