Ómar G. Jónsson
Ómar G. Jónsson
Lögreglumenn í B-sjóði LSR fá hvorki eftirlaun af yfirvinnu né bakvöktum sem þeir hafa þurft að sinna um helgar og nætur áratugum saman.

Ómar G. Jónsson

Kjarasamningur lögreglumanna er runninn út á tíma sem víðar hjá því opinbera og ýmsar áherslur í gangi eins og gengur á milli starfsstétta.

Æskilegt er að lögreglumenn og Landssamband lögreglumanna leggi áherslu á hækkun grunnlauna í stað þess að lögreglumenn byggi afkomu sína mikið á yfirvinnu.

Breyttur tíðarandi og krafa almennt í vinnuumhverfinu kallar jafnframt á slíkt.

Óljóst er með hvaða hætti nýgerðir kjarasamningar, t.d. ríkisframlag, skili sér til millitekjuhópa.

Það er slæmt þegar lögreglumenn eru lengi að vinna sig upp í greiðsluhæfi eftir sumarleyfi vegna almennra greiðsluskuldbindinga með mikilli yfirvinnu vikum saman um nætur og helgar. Með réttu ætti það opinbera/ríkið almennt að leggja áherslu á ásættanleg grunnlaun í stað greiðslu á verulegri yfirvinnu eins og víða er í kerfinu, með fastlaunasamningum þar inn á milli, sem getur jafnframt kallað á launamisvægi fyrir sams konar störf. Stofnanasamningar virðast skila sér með misjöfnum hætti í opinbera kerfinu, kerfi sem þarf þá að endurskoða ef slíkir samningar eiga að gilda áfram. Grunnlaun hjá því opinbera þarf að vera hægt að hækka eftir starfsreynslu og fleiri þáttum, ekki að mestu með stöðuhækkunum sem nýtast jafnvel misvel til verka hjá viðkomandi einingum.

Krefjandi verkefni eru víða, t.d. hjá lögreglumönnum í almennum útköllum sem víðar þar sem hlutirnir gerast oft með leifturhraða og starfsþjálfun lögreglumanna í námi því afar mikilvægur þáttur áður en farið er að fást við raunveruleikann sem starfinu fylgir, en nokkuð er um að lögreglumenn hætti í starfi vegna álags eftir stuttan starfstíma. Áður og fyrr var meira um að ungir lögreglumenn störfuðu fyrstu starfsárin með þaulreyndum lögreglumönnum, sem reyndist afar vel inn í starfið. Huga þarf betur að öryggismálum lögreglumanna, en lögreglumenn verða oft fyrir meiðslum í starfi og heilsubresti á besta aldri.

Fjölga þarf lögreglumönnum á það stig sem talið er ásættanlegt með góðri samnýtingu milli stöðva, deilda og embætta. Það reyndist fyrrum vel þegar háskólamenn úr hinum ýmsu menntastigum voru ráðnir til sumarstarfa í lögreglunni. Sumir þeirra sóttu um áframhaldandi starf og ílengdust í lögreglunni, hinir nutu góðs af sumarstarfinu reynslunni ríkari (margir þeirra talað um það) við að fást við hin ýmsu störf sem þeir tóku að sér í þjóðfélaginu að námi loknu.

Síðan hafa komið til gegnum tíðina fræknir héraðslögreglumenn víða um land sem björguðu oft mönnunarmálum lögreglunnar og gera enn.

Nú eru breyttir tímar og því þarf að hafa sem flesta lögreglumenn vel þjálfaða og menntaða til að takast á við hin ýmsu verkefni sem starfinu fylgja í breyttu samfélagi.

Vinnutímastyttingin hefur ekki virkað sem skyldi hjá lögreglunni og mun ekki gera það nema með auknum mannafla. Það á reyndar víðar við á krefjandi vinnustöðum varðandi framleiðni og fleiri þætti og því spurning hvort bætt starfsumhverfi og bætt afkoma geti frekar komið í þess stað.

Lögreglumenn í B-sjóði LSR fá hvorki eftirlaun af yfirvinnu né bakvöktum sem þeir hafa þurft að sinna um helgar og nætur áratugum saman. Vissar uppfærslur virðast hafa verið gerðar til eftirlauna í opinbera kerfinu gegnum tíðina með ýmsum útfærslum, en ekki yfir heildina. Yfirvinna og álagsgreiðslur ganga til eftirlauna lögreglumanna í A-sjóði LSR, en ekki til lögreglumanna í B-sjóði LSR sem sitja því eftir með skertan hlut eftir áratuga starf. Þessa mismunun þarf að endurskoða, enda segir jafnræðisreglan að slík mismunun eigi ekki að fyrirfinnast og úrbóta því þörf. Jafnframt þarf að setja skýrar reglur til embætta varðandi eftirmannsregluna er varðar stöðuhækkanir fyrir sams konar störf og fyrirrennarar viðkomandi gegndu, þannig að þær breytingar skili sér til eftirlauna lögreglumanna í B-sjóði eins og til er ætlast samkvæmt reglum/lögum LSR.

Ásættanlegt launaumhverfi lögreglumanna á ekki að vera þrætumál milli samtaka lögreglumanna/LL og ríkisins, heldur einn af þörfum framfaraþáttum í bættu starfsumhverfi lögreglumanna og þar með auknu öryggi í landinu með reynt og vel þjálfað lögreglulið sem endist í starfi.

Forvarnir þarf jafnframt að efla í landinu á ýmsum sviðum og meiri samkeyrslu upplýsinga og verka milli embætta, stofnana og landa. Allt spilar þetta saman til meira öryggis fyrir land og þjóð. Það er full þörf á því.

Höfundur er fulltrúi.