Eldgos Gosið á Reykjanesskaga er nærri Sundhnúkagígum, norðan við Grindavík. Gosmökkurinn náði hæst 3,5 kílómetra við upphaf gossins.
Eldgos Gosið á Reykjanesskaga er nærri Sundhnúkagígum, norðan við Grindavík. Gosmökkurinn náði hæst 3,5 kílómetra við upphaf gossins. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eldgos hófst á Reykjanesskaga klukkan 12.46 í gær. Gosið er nærri Sundhnúkagígum, norðan við Grindavík og kom fyrst upp norðaustan við Sýlingarfell. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum lýsti um leið yfir neyðarstigi á svæðinu

Birta Hannesdóttir

birta@mbl.is

Eldgos hófst á Reykjanesskaga klukkan 12.46 í gær. Gosið er nærri Sundhnúkagígum, norðan við Grindavík og kom fyrst upp norðaustan við Sýlingarfell. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum lýsti um leið yfir neyðarstigi á svæðinu.

Þetta er áttunda gosið á Reykjanesskaga á þremur árum og jafnframt það fimmta sem brýst út á rúmu hálfu ári frá því að fyrst gaus í Svartsengiskerfinu 18. desember 2023. Talið er að þetta sé stærsta gosið í þessari hrinu.

Skömmu eftir að gos hófst var Grindavíkurbær rýmdur, sem og Bláa lónið og orkuverið í Svartsengi. Rýming gekk vel að sögn lögreglu, en þrír dvöldu enn í bænum þvert á tilmæli lögreglu.

Við upphaf gossins mældist gossprungan kílómetri að lengd en fór ört stækkandi. Lengst varð sprungan rúmir 4 km. Þá var áætlað að útstreymishraði hraunsins hefði verið 1.000 rúmmetrar á sekúndu og jókst hratt. Gosmökkurinn fór í 3,5 km hæð við upphaf gossins.

Hraunflæði var því mikið og fór hraunið yfir Grindavíkurveg á að minnsta kosti tveimur stöðum, annars vegar norður fyrir Sýlingarfell og hins vegar suður af Þorbirni.

Ljóst í hvað stefndi

Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðvísindadeild Háskóla Íslands, sagði í samtali við mbl.is í gær að aðdragandinn gossins hefði verið langur en ljóst hefði verið í hvað stefndi. „Það var ekki spurning hvort heldur hvenær það færi að gjósa. Það var nokkuð ljóst í morgun þegar skjálftavirknin jókst til muna, hvað væri í vændum,“ sagði Páll.

Vísindamenn telja að upphaf þessa gos sé kraftmeira en í fyrri gosum á Reykjanesskaga. Undir þetta tekur Benedikt Gunnar Ófeigsson jarðeðlisfræðingur. Í samtali við mbl.is í gær sagði Benedikt að krafturinn í þessu gosi væri mun meiri en í fyrri gosum á Reykjanesskaga. „Það er mitt fyrsta mat að minnsta kosti,“ sagði Benedikt.