Ísland verður í riðli með Slóveníu, Kúbu og Grænhöfðaeyjum í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik. Riðladrátturinn fór fram í Zagreb í Króatíu í gær en heimsmeistaramótið fer fram í Króatíu, Danmörku og Noregi í janúar 2025

Ísland verður í riðli með Slóveníu, Kúbu og Grænhöfðaeyjum í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik.

Riðladrátturinn fór fram í Zagreb í Króatíu í gær en heimsmeistaramótið fer fram í Króatíu, Danmörku og Noregi í janúar 2025. Riðill Íslands verður leikinn í í Zagreb dagana 16. til 20. janúar og óhætt er að segja að íslenska liðið sé heppið með mótherja.

Leikið verður í átta riðlum og fyrir dráttinn lá fyrir eitt lið í hverjum riðli, heimaþjóðirnar þrjár og fimm nágrannaþjóðir þeirra.

Riðlarnir eru þannig:

A-riðill í Danmörku: Þýskaland, Tékkland, Pólland, Sviss.
B-riðill í Danmörku: Danmörk, Ítalía, Alsír, Túnis.
C-riðill í Króatíu: Frakkland, Austurríki, Katar, Kúveit.
D-riðill í Króatíu: Ungverjaland, Holland, Norður-Makedónía, Gínea.
E-riðill í Noregi: Noregur, Portúgal, Brasilía, Bandaríkin.
F-riðill í Noregi: Svíþjóð, Spánn, Japan, Síle.
G-riðill í Króatíu: Slóvenía, ÍSLAND, Kúba, Grænhöfðaeyjar.
H-riðill í Króatíu: Egyptaland, Króatía, Argentína, Barein.

Ísland var í öðrum styrkleikaflokki af fjórum en eitt lið úr hverjum flokki var dregið í hvern riðil Fyrsti leikur Íslands verður gegn Grænhöfðaeyjum 16. janúar, þá gegn Kúbu 18. janúar og loks gegn Slóveníu 20. janúar. Þrjú efstu liðin komast í milliriðil en neðsta liðið fer í keppnina um forsetabikarinn.

Milliriðill í Zagreb

Liðin þrjú sem fara áfram úr riðli Íslands fara í milliriðil sem einnig er leikinn í Zagreb og mótherjarnir þrír koma úr H-riðlinum en í honum eru Egyptaland, Króatía, Argentína og Barein. Leikið er 22. til 26. janúar og spilað um tvö sæti í átta liða úrslitum mótsins.

Ísland tryggði sér keppnisrétt á HM 2025 með því að vinna tvo mjög auðvelda sigra á Eistlandi fyrr í þessum mánuði.