Öryggi „Í samvinnu við leikstjóra sinn, Eddu Björgu Eyjólfsdóttur, feta þau [útskriftarnemar af leikarabraut LHÍ] einstigið milli skops og alvöru, stílfærslu og innlifunar, af aðdáunarverðri fimi og öryggi,“ segir í leikdómnum.
Öryggi „Í samvinnu við leikstjóra sinn, Eddu Björgu Eyjólfsdóttur, feta þau [útskriftarnemar af leikarabraut LHÍ] einstigið milli skops og alvöru, stílfærslu og innlifunar, af aðdáunarverðri fimi og öryggi,“ segir í leikdómnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðleikhúsið Kirsuberjagarðurinn ★★★★· Eftir Anton Tsjekov. Þýðandi: Ingibjörg Haraldsdóttir. Leikstjóri: Edda Björg Eyjólfsdóttir. Leikmynd og búningar: María Th. Ólafsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Tónlist: Peter J. Östergaard. Leikmyndasmíði: Egill Ingibergsson. Söngur: Lindong Lin. Hljóðfæraleikur: Hlynur Sævarsson og Yuichi Yoshimoto. Leikarar: Berglind Alda Ástþórsdóttir, Birta Sólveig Söring Þórisdóttir, Gréta Arnarsdóttir, Gunnur Martinsdóttir Schlüter, Hólmfríður Hafliðadóttir, Jakob van Oosterhout, Jón Bjarni Ísaksson, Mikael Emil Kaaber, Nikulás Hansen Daðason og Selma Rán Lima. Útskriftarhópur leikarabrautar Listaháskóla Íslands frumsýndi í Kassanum í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 23. maí 2024.

Leiklist

Þorgeir

Tryggvason

Hann biður hennar örugglega í lestinni“ segir þjóðsagan að leikhúsgestur hafi sagt uppörvandi við sessunaut sinn (og kannski ekki síst sjálfa sig) á leiðinni út af uppfærslu Guðjóns Pedersens á Kirsuberjagarðinum fyrir réttum þrjátíu árum. Enda er síðasti fundur Vörju og Lópahíns, sem öllu gæti bjargað en gerir það ekki, alltaf jafn óskiljanlegur og fráleitur. En hann er óskiljanlegur og fráleitur eins og lífið, ekki eins og yfirsjón leikritahöfundar. Það eru engar yfirsjónir hér, í síðasta og mögulega besta verki einhvers mikilvægasta sviðsskálds allra tíma.

Líf í öngstræti er hér, eins og einatt, viðfangsefni Tsjekovs. Það skiptir yfirleitt máli að öngstrætið er „úti á landi“. Og – ekki síst í Kirsuberjagarðinum – heimatilbúinn afrakstur þjóðfélagsumbrota í bland við persónulega bresti.

Óðalseigandinn Ljúba Ranévskaja gæti alveg bjargað sér undan gjaldþroti og missi krúnudjásnsins, kirsuberjagarðsins. En hún getur það ekki og ríki sveitadurgurinn sem teiknaði upp „sviðsmyndina“ sem kæmi henni á græna grein situr uppi með eignirnar og framtíðarmöguleikana. Hann biður Vörju ekki í lestinni og hefur alla burði til að verða jafn ófullnægður og óhamingjusamur og allar hinar persónurnar hans dr. Antons.

Já, og svo er þetta kómedía. Enda er fátt spaugilegra en fólk að mistakast. Fólk sem missir þráðinn þegar annað fólk þarf að segja því eitthvað mikilsvert. Sofnar jafnvel. Fólk að misstíga sig í ástamálum. Fólk sem við getum speglað okkur í og fundið til með um leið og við flissum og hristum hausinn yfir glóruleysinu.

Útskriftarbekkur leikarabrautar Listaháskólans kemst eins langt með þennan efnivið og hægt er að fara fram á með nokkurri sanngirni. Í samvinnu við leikstjóra sinn, Eddu Björgu Eyjólfsdóttur, feta þau einstigið milli skops og alvöru, stílfærslu og innlifunar, af aðdáunarverðri fimi og öryggi. Allt virkar og flæðir fallega um einfalda leikmynd Maríu Th. Ólafsdóttur. Við finnum til með þessum ösnum, til þess er leikurinn gerður.

Það sem út af stendur helst er sú óhjákvæmilega staðreynd að þau Berglind Alda Ástþórsdóttir, Birta Sólveig Söring Þórisdóttir, Gréta Arnarsdóttir, Gunnur Martinsdóttir Schlüter, Hólmfríður Hafliðadóttir, Jakob van Oosterhout, Jón Bjarni Ísaksson, Mikael Emil Kaaber, Nikulás Hansen Daðason og Selma Rán Lima eru öll á sama aldri, sem truflar áhrifin af því hvernig tíminn hefur leikið þetta fólk. Og mikið sakna ég þeirra tíma þegar Nemendaleikhúsið var verkefni heils leikárs hjá útskriftarbekknum. Þrjár sýningar þýddi að öll höfðu færi á að glansa og hnykla leikvöðvana – hér er dálítið misskipt möguleikunum til þess, þótt öll nýti þau færi sem gefast til að glansa, og þjóna öll af trúmennsku erindi verksins og sameiginlegri sýn leikhóps og leikstjóra. Það er alltaf mest um vert og mikilvægur lærdómur öllu leikhúslistafólki.

Kirsuberjagarðurinn í Kassa Þjóðleikhússins er kærkomið tækifæri til að kynnast þessu listafólki. Aðallega er þetta samt vel heppnuð framsetning á algeru meistaraverki sem aldrei er hægt að sjá of oft. Til hamingju krakkar, takk fyrir mig og gangi ykkur allt í haginn.