Víðir Sigurðssonvs@mbl.isJónatan Ingi Jónsson kantmaður Vals var besti leikmaður Bestu deildar karla í fótbolta í maímánuði samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni.Jónatan fékk samtals fimm M í fjórum leikjum Valsmanna í deildinni í maí og er...

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Jónatan Ingi Jónsson kantmaður Vals var besti leikmaður Bestu deildar karla í fótbolta í maímánuði samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni.

Jónatan fékk samtals fimm M í fjórum leikjum Valsmanna í deildinni í maí og er eini leikmaðurinn sem náði því.

Hann fékk tvö M þegar Valur sigraði HK, 2:1, og eitt M í hverjum hinna þriggja leikja Vals í maí en Jónatan skoraði þrjú mörk og átti eina stoðsendingu í þessum fjórum leikjum liðsins.

Þá var Jónatan tvisvar valinn í úrvalslið umferðarinnar í maí, bæði eftir sjöundu og áttundu umferð deildarinnar.

Sex jafnir í öðru sæti

Næstir á eftir honum í M-gjöfinni voru félagar hans úr Val þeir Hólmar Örn Eyjólfsson og Patrick Pedersen, Danijel Dejan Djuric úr Víkingi, Kyle McLagan úr Fram, Óli Valur Ómarsson úr Stjörnunni og Úlfur Ágúst Björnsson úr FH en þeir fengu fjögur M hver í maí.

Þessir sjö leikmenn eru allir í úrvalsliði maímánaðar hjá Morgunblaðinu sem sjá má hér til hliðar.

Danijel og Kyle aftur

Þeir Danijel og Kyle eru báðir í byrjunarliði mánaðar í annað sinn á tímabilinu en þeir voru einnig í úrvalsliði Morgunblaðsins í apríl.

Viktor Jónsson úr ÍA, sem var í byrjunarliðinu í apríl, er meðal varamanna í maí og þeir Höskuldur Gunnlaugsson úr Breiðabliki og Axel Óskar Andrésson úr KR eru báðir í hópi varamanna úrvalsliðsins annan mánuðinn í röð.

Stjarnan með flest M

Þegar öll M eru lögð saman eru það Stjörnumenn sem fengu flest M í umferðunum fjórum í maí, 24 samtals. Valur fékk 22, Víkingur 20, Breiðablik 19, HK 18, Fram 18, ÍA 18, FH 17, KR 16, Fylkir 15, Vestri 14 og KA rekur lestina með aðeins 11 M úr fjórum leikjum.

Morgunblaðið velur besta leikmanninn í hverri umferð deildarinnar. Í maí urðu fyrir valinu þeir Gylfi Þór Sigurðsson úr Val í 5. umferð, Patrick Pedersen úr Val í 6. umferð, Danijel Dejan Djuric úr Víkingi í 7. umferð og Óli Valur Ómarsson úr Stjörnunni í 8. umferð.

M-gjöf Morgunblaðsins

Einkunnagjöf Morgunblaðsins er á þá leið að leikmenn fá eitt M þegar þeir eiga góðan leik að mati íþróttafréttamanna Morgunblaðsins og mbl.is en sá sem lýsir leik á mbl.is á hverjum leikstað fyrir sig gefur einkunnir fyrir viðkomandi leik.

Leikmenn fá tvö M þegar þeir eiga mjög góðan leik og þrjú M þegar þeir eiga frábæran leik. Enn hefur enginn fengið 3 M fyrir leik á þessu tímabili.