Aðalsteinn Gunnar Friðþjófsson fæddist í Ólafsfirði 14. nóvember 1941. Hann lést 17. maí 2024 á Hornbrekku í Ólafsfirði.

Foreldrar hans voru Friðþjófur Jóhannesson og Sigrún Ólfjörð Jónsdóttir. Systur hans eru Svava og Álfheiður.

Eiginkona Aðalsteins er Hulda Gerður R. Jónsdóttir, f. 12. maí 1948. Þau bjuggu alla sína búskapartíð í húsinu sem þau byggðu á Hlíðarvegi 20.

Alli stundaði sjómennsku allt frá unga aldri.

Dætur Alla og Huldu eru: 1) Kristín R., f. 23.11. 1967, gift Jónasi Baldurssyni, f. 17.11. 1963. Þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn. 2) Sigrún, f. 19.10. 1969, gift Herði Ólafssyni, f. 19.12. 1966. Þau eiga tvær dætur og tvö barnabörn. 3) Linda, f. 17.12. 1973, gift Arnari Friðrikssyni, f. 2.7. 1974. Þau eiga þrjú börn.

Útförin fer fram í Ólafsfjarðarkirkju í dag, 30. maí 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi minn.

Mig langar að þakka þér fyrir allt lífið sem ég fékk með þér. Þú varst auðvitað besti pabbi í heimi, varðst aldrei reiður, skiptir ekki skapi og talaðir aldrei illa um nokkurn mann.

Margar prakkarasögurnar varstu búinn að segja okkur frá því þegar þú varst lítill, eins og þegar þú bjóst til hvellhettu sem sprakk við eyrað og þú varst heyrnarlaus í nokkra daga en þorðir ekki að segja neinum frá. Þú last sögur fyrir okkur systur úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar og vorum við frekar skelkaðar; heim kom svo mamma og var ekki par ánægð með þetta athæfi.

Þú byggðir húsið ykkar mömmu nær alveg sjálfur og ætlaðir að búa í því til dauðadags, sem þú gerðir, fyrir utan nokkra daga er þú fórst á sjúkrahús. Garðurinn í kringum húsið er stór með kartöflugarði sem þú ræktaðir af alúð og gafst okkur af uppskerunni. Síðustu árin slóstu lóðina í pörtum því að þú vildir sjá um hana sjálfur en það tók þig sex til sjö tíma að slá.

Sjómaður varstu í húð og hár og ekki nóg með að veiða á sjónum heldur veiddirðu ógrynni af ýsu, þorski og silungi á bryggjunni, í vötnum eða í Kleifarhorninu og vorum við systur oft með í för. Og þið mamma bjugguð til fiskibollur í hundraðatali. Einu sinni fór ég að veiða með þér í stórgrýtinu og þú fékkst á stöngina. Ég, lítil skotta, æstist við að ná fiskinum en þú varst fljótur að grípa í peysuna mína áður en ég datt í sjóinn.

Ég fékk að sjá um að klippa þig og snyrta augabrúnir og önnur brúnin var með sveig upp í loftið því þú svafst alltaf á henni.

Þolinmóður varstu en ef þér datt í hug að framkvæma eitthvað þá þurfti það að gerast í gær.

Þótt þú værir geðgóður og rólegur gastu stundum verið utan við þig, eins og þegar þú fórst á skóm tengdasonarins heim og beint að slá garðinn. Ég kom nokkru síðar og spurði hvort þér fyndust skórnir ekki of stórir, eða þremur númerum, og upphækkun í öðrum skónum. Nei, var svarið er þú leist á skóna.

Moggann lastu spjaldanna á milli í mörg ár og því er viðeigandi að þú komist í hann líka, en þú verður ekki að lesa, elsku pabbi, en ég veit að þú ert að fylgjast með annars staðar frá.

Minningarnar þjóta um huga minn, en ég læt hér staðar numið. Geymi þína fallegu minningu í huga mér þar til við hittumst að nýju.

Saknaðarkveðjur.

Ég passa upp á mömmu fyrir þig.

Þín dóttir,

Sigrún.

Elsku pabbi. Nú hefur þú kvatt okkur. Fórst hljóðlega yfir í sumarlandið, það var lítill fyrirvari í kringum þá brottför. Þannig maður varstu, vildir ekki láta mikið að þér kveða. Eftir sitjum við hin og sorgin er svo ótrúlega mikil og djúp.

Ég reyni að hafa í huga hversu þakklát ég er fyrir að hafa átt þig sem pabba. Það rifjast upp alls kyns minningar og ég mun geyma þær með mér til æviloka.

Þú varst svo duglegur til vinnu og hjá þér lærði ég ósérhlífni og vinnusemi. Þú fórst vel með þínar eigur, keyptir engan óþarfa og kenndir mér nægjusemi og að fara vel með peningana.

Við fórum oft að veiða silung í vötnum og sjó. Eftirminnilegasta ferðin var þegar við veiddum nokkra tugi fiska og eins og vant var þá tókst þú enga poka með í veiðina. Við enduðum á að þræða fiskana á greinar og setja í bílinn. Mamma var oft búin að fitja upp á nefið þegar hún sá útganginn á bílnum og sennilega aldrei eins og eftir þessa veiðiferð.

Þú varst svo mikill dýravinur og dýr af alls kyns stærðum og gerðum löðuðust að þér. Dýrin finna hvernig innri maður er og hjá þér fundu þau alla þína góðmennsku og hlýju. Hundurinn minn komst oft í feitt þegar þú óvart gafst honum mat í laumi.

„Bless elskan“ voru síðustu orðin sem þú sagðir við mig. Hjarta mitt var í molum þennan síðasta fund okkar, það var svo erfitt að sjá hversu heilsu þinni hafði hrakað. Þú varst alltaf svo sterkur og aldrei tókstu veikindadag svo að ég muni. Þú munt alltaf vera með mér elsku pabbi og ég gleymi þér aldrei.

Mig dreymdi þig eina nóttina. Við mættumst á krossgötum. Þú hélst á veiðistönginni þinni. Ég tók utan um þig og sagðist elska þig. Þú gekkst hljóður í burtu í eina átt og ég í hina. Mér sýndist þú ekki vera með neinn poka en ég veit að þú munt afla mest af öllum eins og vant var. Takk fyrir allt sem þú gafst mér. Ég elska þig pabbi minn – við sjáumst síðar.

Þín dóttir,

Linda.