Nóbelskáld „Það er mikilvægt að leyfa sögum hans að grípa sig,“ segir gagnrýnandi um hinn norska Jon Fosse.
Nóbelskáld „Það er mikilvægt að leyfa sögum hans að grípa sig,“ segir gagnrýnandi um hinn norska Jon Fosse. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Naustið ★★★★· Eftir Jon Fosse. Hjalti Rögnvaldsson íslenskaði. Dimma, 2024. Mjúk kápa, 177 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Ég fer ekki út lengur, einhver angist er komin yfir mig, og ég fer ekki út“ (7). Með þessum orðum hefst Naustið, skáldsaga Nóbelsverðlaunahöfundarins norska, Jons Fosse, sem kom fyrst á prent árið 1989. Söguna segir, eða er látinn skrifa, ungur maður Bárður að nafni; hann er rúmlega þrítugur,
félagsfælinn kvíðasjúklingur, ómenntaður eins og hann greinir ítrekað frá, og hefur dagað uppi á loftinu í húsi móður sinnar. Á unglingsárunum var hann í hljómsveit sem þeir Knútur æskuvinur hans stofnuðu, þeir tróðu víða upp í æskulýðsmiðstöðvum héraðsins, en svo hvarf Knútur á braut, menntaði sig, en Bárður sat eftir og einangraðist sífellt meira en spilaði þó á gítarinn í gömludansadúett, allt fram að því að þeir atburðir sem hann rifjar upp í sögunni gerðust. Í kjölfar þeirra fylltist hann enn meiri angist en áður, lokaði sig inni, og bara skrifar: „Ég fer ekki út lengur. Ég veit ekki af hverju, en það eru margir mánuðir síðan ég fór út fyrir hússins dyr. Það er bara þessi angist. Það er þessvegna sem ég hef ákveðið að skrifa, ég ætla að skrifa skáldsögu. Ég verð að gera eitthvað“ (7).

Bárður er látinn kalla skrifin skáldsögu en í endurtekningasömu, einfalt stíluðu og þráhyggjukenndu flæðinu lýsir hann þeim atburðum ári fyrr, þegar æskuvinurinn Knútur var skyndilega snúinn aftur í sumarfríinu, með eiginkonu og tvær ungar dætur. Meira en áratugur er liðinn síðan þeir fyrrverandi vinirnir sáust síðast og augljóst er að samband hjónanna er ekki gott. Lesandinn fær að kynnast brotum úr áhyggjulausum ævintýrum æsku þeirra, þar sem þeir áttu séð leynistað í eyðilegu nausti og í fyrsta hluta bókarinnar af þremur, og þeim lengsta, skýrist smám saman fyrir lesandanum hvernig vinátta þeirra piltanna var fyrrum, þar sem Knútur var sá frakki og sá sem tók af skarið, til að mynda gagnvart stelpu sem Bárður var skotinn í. En þegar þeir hittast aftur lendir Bárður á milli hjónanna í togstreitu þeirra og nær spennan á milli þeirra hámarki á dansleik þar sem Knútur gerir sér dælt við fyrrverandi skólasystur en eiginkona hans heldur eftir ballið út í nóttina með Bárði og leiðin liggur í naustið.

Í öðrum hluta bókarinnar veltir Bárður sér fyrir því sem gerðist þessa daga eftir að Knútur sneri aftur í þorpið með fjölskyldu sína, og nú ímyndar hann eða sér fyrir sér atburðarásina með alvitrum hætti, eins og hann viti hvað hver hugsaði og gerði. Þráhyggjan ágerist og við lestur á stakkató-kenndu flæðinu sér lesandinn hvað illa er komið fyrir Bárði andlega en um leið skýrist myndin af atburðunum, sem í raun voru kannski ekkert ýkja merkilegir, en samt er vaxandi þungi undir niðri, örvænting og innri átök, enda kemur á daginn að vanlíðan persóna og leikenda var raunveruleg, þótt lesandinn sé ekki endilega viss um að Bárður hafi skynjað hana með réttum hætti, og þetta fer alls ekki vel.

Jon Fosse (f. 1959) er mikilvirkur höfundur. Fyrsta skáldsaga hans kom út árið 1983 og síðan hefur hann sent frá sér fjölda leikrita, ljóð, skáldsögur, barnabækur og ritgerðir. Naustið var fimmta prósabók hans og mikilvægur áfangi á leið höfundarins við að móta sinn sérstaka tón en þegar tilkynnt var að hann fengi Nóbelsverðlaunin í fyrra var til þess tekið að það væri fyrir frumleg leikrit sín og „prósa sem veitir hinu ósegjanlega rödd“ – og það má svo sannarlega sjá í þessari frásögn Bárðar með athyglisverðum hætti. Skáldsögur Fosse hafa verið vel kynntar á íslensku á undanförnum árum en árið 2016 kom út í þýðingu rómaður þríleikur hans, sem hreppti Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið áður: Andvaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja, og einnig hafa verið íslenskaðar Morgunn og kvöld (2015) og Þetta er Alla (2018). Hjalti Rögnvaldsson hefur þýtt allar bækurnar með miklum ágætum og Dimma gefið þær fallega út. Og eiga Hjalti og forlagið hrós skilið því það er afar mikilvægt að íslenskir lesendur eigi þess kost að lesa framúrskarandi norræn samtímaverk í góðum íslenskum þýðingum, enda þýðingar sannkallaður lykilþáttur bókmenntalífsins.

Naustið er ekki endilega besta saga Jons Fosse en á margan hátt áhrifarík engu að síður. Stíll hans og frásagnarháttur er ekki allra, sumum finnst eintalsaðferð hans, með áherslu á það sem ýjað er að en ekki sagt, njóta sín betur í leikritunum. En það er mikilvægt að leyfa sögum hans að grípa sig, og í Naustinu að samþykkja rykkjótt flæði frásagnar Bárðar; smám saman skýrist myndin af upplifunum hans og því hvað hann telur hafa gerst. Og það er örlagasaga sem olli því að einhver angist kom yfir hann, hann hætti að fara út og skrifaði söguna af því fyrir okkur að lesa.