Þorsteinn Kristinsson
Þorsteinn Kristinsson
Baldur er ákaflega góður, traustur og skynsamur maður.

Þorsteinn Kristinsson

Ef íbúafjölda jarðarinnar væri skipt niður í pólitískar einingar á stærð við Ísland væri alþjóðakerfi samtímans samansett af 21 þúsund mismunandi ríkjum í stað þeirra tæplega tvö hundruð sem við höfum í dag. Öll alþjóðasamskipti Íslands litast óhjákvæmilega af því að við erum hundrað sinnum færri en önnur ríki eru að meðaltali. Við erum smáríki.

Baldur Þórhallsson hefur helgað starfsævi sína í að rannsaka alþjóðasamskipti smáríkja, og er í dag leiðandi fræðimaður á heimsvísu í þeim málaflokki. Í rannsóknum sínum hefur Baldur þróað áhrifamiklar kenningar um hegðun smærri ríkja í gegnum aldirnar og hvar þau leita skjóls. Þessar kenningar útskýra jafnframt hvernig smáríki samtímans geta best tekist á við þær áskoranir sem fylgja smæðinni, og á sama tíma nýtt þau ýmsu tækifæri sem henni fylgja. Sú þekking og alþjóðlega reynsla sem Baldur hefur öðlast í gegnum árin er ákaflega verðmæt fyrir mögulegan forseta Íslands. Af öllu því ágæta fólki sem nú er í framboði held ég að það megi fullyrða að enginn hafi betri skilning á þýðingu þess að vera málsvari smáríkis í samfélagi þjóðanna á umbrotatímum.

Það eru margar ástæður fyrir því að ég styð Baldur Þórhallsson til embættis forseta Íslands. Hafandi kynnst og unnið með Baldri í gegnum í árin veit ég að auk þess að vera góður fræðimaður er Baldur ákaflega góður, traustur og skynsamur maður. Hann er auk þess víðsýnn og umburðarlyndur og alltaf tilbúinn til að vega og meta ólík sjónarmið með sanngirni og opnum hug. Ólíkt öðrum prófessorum sem ég hef kynnst, þá er Baldur fær um að skipta um skoðun einstaka sinnum – sem er mjög vanmetinn eiginleiki.

Þrátt fyrir sveigjanleika og getu til málamiðlana fer engu að síður aldrei á milli mála fyrir hvaða hugsjónir Baldur stendur: frjálslyndi og kærleika. Baldur skilur betur en flestir aðrir að umburðarlyndi og víðsýni fá einungis þrifist svo lengi sem við stöndum fast á þeim frjálslyndu grunngildum sem eru undirstaða alls fjölbreytileika – hvort sem það er í samfélagi okkar heima á Íslandi eða samfélagi þjóðanna á alþjóðavísu.

Ef við kjósum Baldur Þórhallsson sem forseta Íslands öðlumst við reyndan og virtan málsvara fyrir Ísland á alþjóðavísu, og á sama tíma traustan og skynsaman málsvara þjóðarinnar í ólgusjó íslenskra stjórnmála.

Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur.