Óskarsverðlaunamynd Hanks í hlutverki Gump.
Óskarsverðlaunamynd Hanks í hlutverki Gump. — Ljósmynd/Reuters
Ein af mínum uppáhaldsmyndum, Forrest Gump, fagnar 30 ára afmæli sínu í ár. Ég trúi því varla að svo langur tími sé liðinn síðan þetta meistaraverk kom út en sjálf vann ég þá sem afgreiðslustúlka í Sambíóunum í Álfabakka og fylgdist með agndofa bíógestum lofsama myndina

Anna Rún Frímannsdóttir

Ein af mínum uppáhaldsmyndum, Forrest Gump, fagnar 30 ára afmæli sínu í ár. Ég trúi því varla að svo langur tími sé liðinn síðan þetta meistaraverk kom út en sjálf vann ég þá sem afgreiðslustúlka í Sambíóunum í Álfabakka og fylgdist með agndofa bíógestum lofsama myndina. Reyndar hef ég ekki tölu á því hversu oft ég sá hana í bíóinu á sínum tíma en mér fannst bara einfaldlega allt svo flott við hana, leikurinn, tónlistin og ekki síst boðskapurinn. Líkt og margir vita vann myndin til sex Óskarsverðlauna, meðal annars sem besta myndin, og hlaut Tom Hanks Óskarinn fyrir besta leik í aðalhlutverki, hvort tveggja virkilega verðskuldað.

„Life is like a box of chocolates, you never know what you're going to get,“ er án efa fleygasta setning myndarinnar en hún segir allt sem segja þarf um lífið og tilveruna, sem er í raun eins og einn stór konfektkassi. Nýlega spurði 14 ára sonur minn mig hvort ég hefði séð myndina. Ég hélt það nú og úr varð að við horfðum á hana saman. Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni og allt það því skemmst er frá því að segja að unglingurinn horfði hugfanginn á þessa tæplega tveggja og hálfs tíma mynd og skemmti sér konunglega. Forrest heillar því enn, 30 árum síðar!