Ekki er víst að allt reynist leyfilegt

Það eru mörg kosningaafbrigðin þessa dagana og víðar en hér. Auðvitað þykir okkur ekki minnst koma til þess, sem gerist hjá okkur. Einhverjir hafa bent á að erlendir miðlar og skríbentar í öðrum löndum og einnig hjá hefðbundnum „vinaþjóðum“ hafi ekki verið svo lítið sem að minnast á þennan atburð. Okkur þykir það hvorki betra eða verra. Og breyti engu. Við erum ekki að kjósa fyrir þá. Þegar úrslitin liggja fyrir, innan skamms, munu þau verða birt nægjanlega víða, svo dugi þeim sem hafa mest tengsl við okkur. Það dugar okkur og vel það.

Það er tæplega hálft ár í lok forsetakosninga í Bandaríkjunum og mikið um þær fjallað, þótt enn séu þær langt undan. Og satt best að segja eru vinir okkar Bandaríkjamenn ekki endilega öfundsverðir af þeirri umræðu og skrítnum veruleika. Þar vestra berjast demókratar gegn Donald Trump, frambjóðanda andstæðinganna og fyrrverandi forseta, og engu er líkara en að þar hafi menn gefist upp á málefnalegri baráttu.

Þeir eru til vestra, sem halda því fram að forsetanum, Joe Biden, hafi farið svo mjög aftur að hann ráði ekki við það verkefni að eiga við Trump. Þetta stóð tæpt fyrir fjórum árum, þegar Biden var lengst af og jafnvel drýgstan tíma hafður í kjallaranum í Delaware til öryggis! Sú reynsla og fjögur árin sem liðin eru síðan, hafa orðið til þess að forsetanum er sífellt minna veifað. Margs konar óhöpp, sem andstæðingarnir vaka yfir, eru mjög óþægileg. Þótt hægt sé að sleppa fyrir horn með hjálparspjöldum aðstoðarmanna, þá hefur það stundum líka reynst erfitt. Forsetinn hefur snúið spjöldum sínum öfugt, svo að fjölmargar leiðbeiningar blasa við um það, hvernig forsetinn eigi að snúa sér við og hverjum hann skuli heilsa og, hvenær skuli hafa „pásu“ í ræðunni, til að auka áhrif hennar. En þá á forsetinn til að stoppa og segja svo með þunga: „Pása!“

Aðstoðarmenn forsetans hafa áttað sig á því að taka yrði sem minnsta áhættu með forsetann sjálfan. Beina yrði öllu afli kosninganna, seinasta árið fram að kosningum, að andstæðingnum, forsetaefni repúblikana. Var sú vafasama niðurstaða valin að misnota dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna alveg í botn! Fyrir utanaðkomandi er harla dapurlegt að horfa upp á allar þær aðfarir og niðurlæginguna fyrir Bandaríkin. Tilburðirnir áttu ekki síst að tryggja að Trump gæti ekki sinnt kosningabaráttu sinni, seinasta árið fyrir kosningar, og hann yrði algjörlega upptekinn við að sitja yfir undarlegustu ákærum sem sést hafa, flengjast um landið þvert og endilagt. Og auðvitað var ekki útilokað að einhver af ótal ákærum, hversu vitlausar sem þær væru, gæti komið fyrrverandi forseta í kosningabaráttu í fangelsi(!). Slíkt og þvílíkt hefur aldrei gerst í Bandaríkjunum.

Fram til þessa hefur flestum dómsmálum ráðuneytisins verið fleygt, án allrar viðhafnar, á hauga sögunnar strax, en ekki verið beðið eftir því að sagan sjálf sæi um að urða draslið. En það ótrúlega gerðist að bandarískur almenningur hefur flykkst til forsetaefnis repúblikana, sem þannig er farið með. Þegar Trump hefur fundið smugu hefur hann haldið opna fundi og er aðsóknin miklum mun meiri en nokkur þar á bær hafði látið sig dreyma um.

Það mál, sem er nú í lokameðferð, var sett niður í New York til meðferðar, í þeim hluta þess kjördæmis þar sem Joe Biden vann síðast með 90% atkvæða, en Trump fékk 10 prósent. Kviðdómur á að kveða upp úrskurð um sekt eða sakleysi! Meginreglan hefur verið sú í Bandaríkjunum, að þegar mismunur er svo stórbrotinn og hallar algjörlega á annan aðilann, þá skuli velja þann hluta ríkisins þar sem jafnræði er meira. Því var hafnað! En nú sýna kannanir að verði Trump dæmdur í fangelsi með þessu lagi, muni fylgi hans aukast stórlega. Við því bjuggust andstæðingar hans ekki.