Á safninu Katrín Níelsdóttir er ánægð með starfið í Winnipeg.
Á safninu Katrín Níelsdóttir er ánægð með starfið í Winnipeg. — Ljósmynd/Signy Thorsteinson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska bókasafnið í Manitoba-háskóla í Winnipeg í Kanada hefur gegnt mikilvægu hlutverki frá því íslenskudeild skólans var stofnuð 1951. Katrín Níelsdóttir hefur verið safnvörður þar síðan 2021 og vekur reglulega athygli á því sem safnið hefur upp á að bjóða

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Íslenska bókasafnið í Manitoba-háskóla í Winnipeg í Kanada hefur gegnt mikilvægu hlutverki frá því íslenskudeild skólans var stofnuð 1951. Katrín Níelsdóttir hefur verið safnvörður þar síðan 2021 og vekur reglulega athygli á því sem safnið hefur upp á að bjóða. „Þetta er skemmtilegt enda er mikil íslensk menning hérna,“ segir hún og bætir við að hún ætli að bæta við sig íslenskukennslu fyrir byrjendur í Norræna húsinu (Scandinavian Center) í Winnipeg í haust.

Katrín er frá Outlook í Saskatchewan í Kanada, um 80 km suður af Saskatoon, en ólst upp í Alberta og er með íslenskan ríkisborgararétt. Hún kynntist íslenskum manni í menntaskóla, þau giftust og fluttu til Íslands, þar sem þau eignuðust þrjá drengi. Þau bjuggu hérlendis 2005 til 2019, en þá skildi leiðir. Hún flutti aftur til Kanada, en vann áfram á Íslandi næstu tvö árin. „Ég var stöðugt á ferðinni á milli Edmonton og Íslands og gott var að hafa aftur fast land undir fótum.“

Sigrid Johnson frá Árborg lét opinberlega af störfum sem yfirmaður íslenska safnsins vegna veikinda haustið 2018 eftir að hafa unnið þar í 43 ár. Hún lést í desember sama ár. Katrín segir að erfiðlega hafi gengið að fá eftirmann og ráðning hennar hafi verið beggja hagur. „Safnið fékk starfsmann sem getur lesið og talað íslensku og ég fékk vinnu í Kanada, þar sem strákarnir mínir geta verið innan um íslenska menningu.“ Hún bætir við að hún hafi komið til Winnipeg í fyrsta sinn vegna starfsviðtalsins og síðan aftur þegar hún flutti þangað.

Ein á safninu fyrsta árið

Íslenskir stúdentar voru fastagestir á safninu á árum áður, voru mest um tíu á sama tíma á áttunda áratugnum, en þeim hefur fækkað til muna og Katrín veit ekki til þess að Íslendingur sé nú í háskólanum. „Fræðimenn frá Íslandi og Bandaríkjunum eru tíðir gestir hjá okkur og sinna rannsóknum.“ Á safninu séu mörg merkileg rit og handrit sem varpi ljósi á sögu Vestur-Íslendinga auk annarra bóka. Nemendur í íslenskudeild háskólans noti rými safnsins líka til þess að læra.

Tæplega 30.000 bækur eru í safninu. Reglulega eru keyptar nýjar íslenskar bækur og kemur Katrín næst til Íslands í þeim erindagjörðum í sumar. Hún vekur athygli á nýjum bókum með kynningarspjöldum í aðalbókasafni skólans, sem er í sömu byggingu, og á heimasíðu safnsins auk þess sem þar eru reglulega settar upp sýningar, sem tengjast íslenskri og/eða vesturíslenskri menningu. „Ég vek athygli á til dæmis norrænni goðafræði, sem hefur lengi verið fag í íslensku deildinni, íslenskum ljóðum, skáldsögum, tónlist, ljósmyndum og svo framvegis.“ Nú sé ljósmyndasýningin „Gáta hér“ í safninu en þar sýni Signy Thorsteinson verk sín. „Draumur hennar er að sýna myndirnar á Íslandi og taka líka myndir þar til að bæta við seríuna, en hún hefur ekki enn fundið leið til þess.“

Katrín er bókasafnsfræðingur með meistaragráðu í upplýsingafræði frá Háskóla Íslands. Hún vann meðal annars á Bókasafni Reykjanesbæjar og hjá Rannís og segir að byrjunin í Winnipeg hafi vægast sagt verið undarleg. „Samkomutakmarkanir voru í gildi vegna covid, en ég varð að mæta, því starfinu hafði ekki verið sinnt lengi, og var ein á safninu fyrsta árið. Aðeins einn öryggisvörður var í byggingunni á sama tíma.“