Austurríki Ingibjörg Sigurðardóttir fyrir æfinguna í Salzburg í gærmorgun. Hún er næstleikjahæst í íslenska liðinu í dag með 61 landsleik.
Austurríki Ingibjörg Sigurðardóttir fyrir æfinguna í Salzburg í gærmorgun. Hún er næstleikjahæst í íslenska liðinu í dag með 61 landsleik. — Ljósmynd/Gunnar Egill
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland mætir Austurríki í mikilvægum leik í 4. riðli undankeppni A-deildar undankeppni EM 2025 í knattspyrnu kvenna á Josko Arena í Ried im Innkreis í Austurríki klukkan 16 á morgun. „Það er mjög gaman að vera komin hingað

Í Salzburg

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Ísland mætir Austurríki í mikilvægum leik í 4. riðli undankeppni A-deildar undankeppni EM 2025 í knattspyrnu kvenna á Josko Arena í Ried im Innkreis í Austurríki klukkan 16 á morgun.

„Það er mjög gaman að vera komin hingað. Þetta er mjög flott borg sem við erum í og flott umhverfi,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir, miðvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu í Salzburg í Austurríki í gærmorgun.

Íslenska liðið heldur til þar í borg en Ried er í um klukkutíma akstursfjarlægð frá Salzburg. Þar æfir liðið á æfingasvæði félagsins ASV Taxham, og er Ingibjörg hæstánægð með aðstæður.

„Ég er mjög ánægð með æfingasvæðið. Ég held að það sé með því betra sem við höfum verið á. Við erum mjög sáttar,“ sagði hún.

Staðan í riðlinum eftir tvær umferðir er sú að Austurríki er í öðru sæti með þrjú stig líkt og Ísland sæti neðar. Þýskaland er á toppnum með sex stig og Pólland á botninum án stiga.

Hver leikur er úrslitaleikur

Tvö efstu liðin í riðlinum fara beint á EM, sem fer fram í Sviss næstkomandi sumar. Tvö neðri liðin fara hins vegar í umspil um tvö laus sæti til viðbótar í lokakeppninni.

„Þetta er mjög gott lið með marga góða leikmenn, sem spila á hæsta stigi. Þetta verða erfiðir leikir sem eru fram undan,“ sagði Ingibjörg um mótherjana í Austurríki.

Liðin hafa einungis mæst tvívegis áður, síðast 18. júlí 2023 þegar Ísland vann 1:0-sigur í vináttulandsleik í Austurríki. Hinn leikurinn var á EM 2017 þar sem Austurríki vann 3:0.

Útlit er fyrir að leikir Íslands og Austurríkis muni koma til með að skipta miklu máli varðandi það hvort liðið tryggir sér annað sætið. Ingibjörg telur riðilinn, sem inniheldur einnig Þýskaland og Pólland, hins vegar vera ansi jafnan.

„Á einhvern hátt eru þetta úrslitaleikir gegn Austurríki en þetta er þannig riðill að allir leikir eru úrslitaleikir. Eins og Pólland, öll lið eiga möguleika á að taka fyrsta og annað sætið,“ sagði hún.

Allir með á æfingu

Staðan á íslenska liðinu er afar góð fyrir leikinn gegn Austurríki þar sem hver einasti leikmaður í 23 manna hópnum tók þátt á æfingunni í gærmorgun og virtust allar vera í afar góðu líkamlegu ásigkomulagi.

Á þessum árstíma eru vetrardeildir nýbúnar eða við það að klárast og sumardeildir í fullum gangi og því ekki að undra að flestir eða allir séu í sínu besta formi.

Í hópinn vantar vissulega nokkra sterka pósta. Dagný Brynjarsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir eru báðar að snúa aftur eftir barneignir. Sædís Rún Heiðarsdóttir, sem hefur eignað sér vinstri bakvarðarstöðuna, er meidd líkt og Bryndís Arna Níelsdóttir og Natasha Anasi-Erlingsson. Hafrún Rakel Halldórsdóttir er að jafna sig á handleggsbroti.

Góð mynd komin á hópinn

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir glímdi við eftirköst höfuðáverka um langt skeið og er hægt og bítandi að snúa aftur. Svava Rós Guðmundsdóttir fór úr mjaðmarlið og er að jafna sig eftir aðgerð. Agla María Albertsdóttir var ekki valin í hópinn að þessu sinni auk þess sem margir aðrir leikmenn sem hafa staðið sig vel að undanförnu, og gerðu tilkall til þess að vera í hópnum, bíða þolinmóðir eftir tækifærinu.

Góð mynd er hins vegar komin á núverandi hóp þar sem Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari veit svona um það bil hverjar skipa hans sterkasta byrjunarlið, að minnsta kosti sterkustu átta eða svo.

Helst hefur verið róterað í hægri bakvarðarstöðunni og þar af leiðandi annarri miðvarðarstöðunni, einni af þremur miðjustöðum og hver tekur það að sér að spila í fremstu víglínu. Nokkrum sinnum hefur verið skipt um markvörð en af hinum ýmsu ástæðum og augljóst að það er síður en svo vandræðastaða.

Ánægjulegt er að Cecilía Rán Rúnarsdóttir sé aftur á meðal markvarða landsliðsins eftir að hafa jafnað sig á alvarlegum hnémeiðslum. Fanney Inga Birkisdóttir og Telma Ívarsdóttir hafa staðið sig vel í fjarveru hennar og er því morgunljóst að gæðastaðall íslensku markvarðanna er afar hár.

Spennandi nýliðar

Þegar ofangreindir leikmenn eða hluti þeirra bætast svo við er ljóst að mikill höfuðverkur bíður Þorsteins þegar kemur að vali á næstu landsliðshópum. Sem er vel. Tveir einstaklega spennandi leikmenn hafa bæst í núverandi hóp, hinir 19 ára gömlu nýliðar Emilía Kiær Ásgeirsdóttir og Katla Tryggvadóttir.

Emilía er sóknarmaður sem nýverið valdi íslenska landsliðið fram yfir það danska, en hún er markahæst í dönsku úrvalsdeildinni með tíu mörk í 17 leikjum á tímabilinu með toppliði Nordsjælland.

Katla er sóknartengiliður sem hefur skorað sex mörk og lagt upp eitt í fyrstu átta deildarleikjum sínum fyrir Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni.

Þar sem um gífurlega mikilvæga leiki í undankeppninni er að ræða er hugsanlegt að Emilía og Katla fái ekki sín fyrstu tækifæri með landsliðinu að þessu sinni. Ofanritaður vonast þó til þess þar sem þær virðast báðar hafa alla burði til þess að gefa sóknarleik liðsins nýjar og spennandi víddir.