Í Reykjavík Eileen og James létti talsvert þegar erindinu var lokið og sögðu Morgunblaðinu sögu sína í rólegheitum á gistiheimili í borginni.
Í Reykjavík Eileen og James létti talsvert þegar erindinu var lokið og sögðu Morgunblaðinu sögu sína í rólegheitum á gistiheimili í borginni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kristján Jónsson kris@mbl.is Ensk hjón sitt hvorum megin við áttrætt, James og Eileen Bolton, skelltu sér í sína fyrstu Íslandsheimsókn á dögunum og tóku með sér allþunga málmplötu í millilandaflugið. Hingað áttu þau heldur óvenjulegt erindi og voru fús að deila því með lesendum blaðsins.

Baksvið

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ensk hjón sitt hvorum megin við áttrætt, James og Eileen Bolton, skelltu sér í sína fyrstu Íslandsheimsókn á dögunum og tóku með sér allþunga málmplötu í millilandaflugið. Hingað áttu þau heldur óvenjulegt erindi og voru fús að deila því með lesendum blaðsins.

Afi Eileen, sem hét Thomas Jarvis, er í hópi enskra sjómanna sem týnt hafa lífi við strendur Íslands. Í hans tilfelli er hins vegar langt um liðið eða 112 ár jafnvel þótt Eileen sé aðeins tveimur kynslóðum frá. Eileen er fædd árið 1946 og er því 78 ára. Faðir hennar var sonur Thomasar Jarvis sem var einungis fimm mánaða þegar slysið varð. Sjálfur var Thomas einungis 21 árs þegar hann lést.

Var hann um borð í togara frá Hull sem bar nafnið Kingfisher. Togarinn lenti í hremmingum á slóðum sem geta reynst mjög hættulegar sjófarendum. Strandaði Kingfisher fyrir utan suðurströnd Íslands í apríl árið 1912 og fórust allir sem um borð voru.

Síðustu árin varð tilhugsunin um Íslandsferð ágengari í hugum James og Eileen en þau þekktu hvorki atburðina vel né staðhætti. Eftir samskipti við breska sendiráðið var þeim ráðlagt að hafa samband við Jón Torfason skjalavörð. Þau segjast ekki geta þakkað Jóni nægilega fyrir hjálpsemina.

„Þannig kom það til að við höfðum samband við Jón en hann reyndist einstaklega hjálplegur og við áttuðum okkur á því eftir á, að þessi ferð á slysstaðinn hefði aldrei verið gerleg fyrir okkur án hans,“ segir Eileen Bolton en Jón lét sig ekki muna um að skutlast með hina erlendu gesti austur fyrir fjall. Hjónin komu til landsins á miðvikudaginn í síðustu viku og dvöldu í Reykjavík fram á sunnudag áður en þau héldu för sinni áfram til Færeyja.

„Eftir að hafa kynnt sér veðurspár ákvað Jón að fara með okkur austur á fimmtudeginum og veðrið var fallegt þann daginn. Við fórum á tvo staði þar sem samtals fimm sjómenn af þessum togara eru grafnir,“ segir Eileen og á þar við Stóra-Dalskirkjugarð og Krosskirkjugarð.

Þekktist af húðflúrinu

Spurð um hvort Íslandsheimsóknin eigi sér langan aðdraganda segir Eileen að fjölskyldunni hafi ekki verið kunnugt um að afi hennar hafi verið jarðaður á Íslandi þar til nýlega. Þótt þeim væri kunnugt um slysið þá vissu þau ekki hvort lík afa hennar hefði fundist eða hvort hann hvíldi í votri gröf.

„Fyrir fimm árum fréttum við að lík hans hefði fundist. Við höfðum ekki nokkra einustu hugmynd um það. Faðir minn var bara fimm mánaða gamalt ungbarn þegar faðir hans dó. Amma giftist á ný og faðir minn átti fjórar hálfsystur. Einn afkomendanna skrifaði bók og þar kom fram að afi væri jarðaður á Íslandi en afkomendur Thomasar Jarvis eru nú yfir fjörutíu talsins.“

Húðflúr eru ekki ný af nálinni en sjómennirnir um borð í Kingfisher virðast allnokkrir hafa verið með húðflúr. Alla vega mátti bera kennsl á lík þeirra sem rak á land út frá húðflúrum. Var það einmitt gert í tilfelli Thomasar Jarvis.

Lítið var fjallað um síðustu ferð Kingfisher í enskum fjölmiðlum árið 1912 en annar skipskaði fékk öllu fleiri dálksentimetra því nokkrum dögum fyrr sökk Titanic með manni, mús og hljómsveit.

Fyrst til að vitja grafarinnar

Eileen og James Bolton skildu eftir sig minningarstein sem þau tóku með sér til landsins en hjónin búa í þorpi í útjaðri Hull. Til stendur að koma steininum fyrir í sumar og er hann geymdur í Krosskirkju fyrst um sinn. Þar koma fram upplýsingar um Thomas Jarvis og örlög hans eins og sjá má á mynd hér til hliðar.

„Eftir að okkur bárust fréttir af því að afi hefði verið jarðaður á Íslandi veltum við því fyrir okkur að fara til Íslands og nú erum við komin. Það var hins vegar aldrei rætt um örlög afa míns í gamla daga og við erum þau fyrstu úr fjölskyldunni til að fara að gröfinni. Pabbi var eina barn Thomasar Jarvis enda var hann einungis 21 árs þegar hann lést. Pabbi vissi aldrei til þess að faðir sinn hefði vitað af honum en við vitum í dag að afi vissi af syninum. Í þá daga voru sorglegir atburðir bara ekki til umræðu.“

Faðir Eileen fetaði í fótspor föðurins og var á togurum frá Hull en í millitíðinni barðist hann í síðari heimsstyrjöldinni. Hann lést árið 1979. „Honum hefði létt mjög að vita til þess að lík föður hans væri eitt þeirra sem fundust,“ segir Eileen en fyrir hana var tilfinningaþrungið að fara að gröf afa síns en hún sé afskaplega ánægð með að hafa látið verða af því að fara til Íslands og skilja minningarsteininn eftir.

Hún og James leggja þunga áherslu á að þökkum sé komið á framfæri til þeirra manna sem tóku á móti þeim v i ð Stóra-Dalskirkju og Krosskirkju, Baldurs Björnssonar, Kristjáns Mikkelsens og Elvars Eyvindssonar.

Kingfisher

Björgun var ómöguleg

Togarinn Kingfisher fórst rétt vestan við Jökulsá á Sólheimasandi, á mörkum Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslu, en strandstaðurinn taldist heyra undir sýslumannsembættið í Skaftafellssýslu.

Skipið strandaði á svonefndri Jökulsáreyri drjúgan spöl frá landi en leifar togarans eru horfnar. Við suðurströndina koma óskapleg brim sem lemja allt í sundur í brimgarðinum á fáeinum mánuðum og sigling um þetta svæði er hættuleg skipum.

Hreppstjórinn í Hvammshreppi hafði spurnir af slysinu og skipulagði leit að sjómönnunum en engin leið var að komast að skipinu því það var langt frá landi. Leitað var með ströndinni en einnig inn til landsins. Skýrslur frá hreppstjóra og sýslumanni um leitina eru til á Þjóðskjalasafni Íslands.