Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Ég veit að Halla Tómasdóttir yrði forseti almennings en aldrei sérhagsmuna.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Í kosningum til embættis forseta Íslands standa allir kosningabærir einstaklingar jafnfætis, einn kjósandi = eitt atkvæði og það er lýðræðið í sinni tærustu mynd. Þess vegna, kæri kjósandi, mun hvert atkvæði vega þungt fyrir hvern og einn frambjóðanda til embættis forseta íslands. Nýttu þér þennan dýrmæta rétt og kjóstu með hjartanu.

Ég mun í þessum kosningum til embættis forseta Íslands kjósa Höllu Tómasdóttur og mig langar að segja ykkur hvers vegna. Ég er full tilhlökkunar um, að með framtíðarsýn Höllu Tómasdóttur á Bessastöðum gæti bjartsýni, hugrekki og þor aftur orðið leiðarstef þjóðarinnar. Hún hefur sjálf sagt að hún vilji að forseti geti orðið brúarsmiður og hann geti leitt fólk til samtals um það sem sameinar okkur og það sem skilur okkur að og að horft yrði til lengri framtíðar á grunni gildanna heiðarleika, virðingar, réttlætis og jafnréttis, gildanna sem þjóðin valdi sér á þjóðfundinum 2009 þegar við sigldum í gegnum brimskaflana í kjölfar efnahagshrunsins. Ég veit að eftir slíkt þjóðarsamtal mun hún sem forseti halda á lofti, við þar til bær yfirvöld, því sem við, fólkið í landinu, höfðum að segja og hvernig samfélag við viljum byggja og búa í.

Ég veit að Halla Tómasdóttir yrði forseti almennings en aldrei sérhagsmuna, hún yrði forseti allra kynslóða í samfélaginu, forseti sem kann að byggja brýr á milli ólíkra hópa og sjónarmiða, milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Halla Tómasdóttir kann að hlusta, skilja hismið frá kjarnanum og hún mun hlusta á þjóðina og leita allra leiða til að sameina og vinna vel með okkur að bjartari framtíð fyrir alla hópa og kynslóðir þessa lands.

En ég veit líka að forseti gerir ekkert einn og því verður það hlutverk okkar að kalla eftir að fjölmiðlar, stjórnmálaflokkar, ríkisstjórn, sveitarstjórnir, viðskiptalífið og allir þeir sem láta sig vilja þjóðarinnar varða fylgi eftir þeirri framtíðarsýn sem þjóðarsamtalið mun leiða til og nýti niðurstöður samtalsins þjóðinni allri til gæfu og gengis.

Ég treysti Höllu Tómasdóttur til allra góðra verka því hún hefur sýnt það í gegnum sinn fjölbreytta feril hér heima og erlendis, að hún býr yfir hugrekki, framsýni, seiglu og styrk sem mun nýtast henni í embætti forseta Íslands.

Höfundur er fyrrverandi þingmaður og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.