Hafnarstræti Húsið númer 5 er stór bygging sem setur sterkan svip á miðborg Reykjavíkur.
Hafnarstræti Húsið númer 5 er stór bygging sem setur sterkan svip á miðborg Reykjavíkur. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skipulagsfulltrúi hefur nú til skoðunar beiðni um að hækka um tvær hæðir áberandi hús í miðborginni, Hafnarstræti 5. Það óvenjulega er að stuðst er við 85 ára gamla teikningu eftir arkitekt hússins, Einar Erlendsson

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Skipulagsfulltrúi hefur nú til skoðunar beiðni um að hækka um tvær hæðir áberandi hús í miðborginni, Hafnarstræti 5. Það óvenjulega er að stuðst er við 85 ára gamla teikningu eftir arkitekt hússins, Einar Erlendsson.

Jafnframt er óskað eftir því að fá að hækka um tvær hæðir næsta hús fyrir austan, Hafnarstræti 7. Þessar fyrirspurnir eru samkvæmt tillögu arkitektastofunnar Nordic Office of Architecture. Málinu var vísað til umsagnar verkefnastjóra skipulagsfulltrúa.

Húsið Hafnarstræti 5 er glæsileg bygging, þrjár hæðir, kjallari og ris. Það stendur milli Tryggvagötu og Hafnarstrætis og framhliðin snýr að Naustunum. Setur húsið mikinn svip á Kvosina í miðborginni og því myndi stækkun þess hafa eftirtektarverða breytingu í för með sér á miðborgina. Húsið er í dag alls 3.810 fermetrar og fasteignamat tæplega 1,5 milljarðar króna.

Mjólkurfélag Reykjavíkur byggði húsið árið 1929 og var það kallað Mjólkurfélagshúsið.

Mjólkurfélag Reykjavíkur var stofnað 1917 og var upphaflega samvinnufélag. Árið 1930 kom félagið á fót fullkominni mjólkurvinnslustöð við Snorrabraut. Síðar var Osta- og smjörsalan þar til húsa og enn síðar Söngskólinn. Nú stendur til að hefja þar hótelstarfsemi.

Kornmylla var í húsinu

Um svipað leyti lét félagið reisa húsið Hafnarstræti 5. Þar var rekin um árabil umfangsmikil verslunarstarfsemi ásamt fóöurblöndunarstöð og kornmyllu.

Upphaflegur tilgangur Mjólkurfélagsins var að hafa með höndum sölu og dreifingu mjólkur fyrir framleiðendur í Reykjavík og nágrenni.

Mjólkurlögin, sem sett voru 1934, orsökuðu að félagið varð að hætta mjólkurstöðvarrekstri. Það hefur síðan starfað í þágu landbúnaðarins sem verslunarfélag og innflytjandi á korni og framleiðandi kjarnfóðurs. Árið 2005 var nafni félagsins breytt í Lífland.

Margs konar starfsemi hefur verið í Hafnarstræti 5 síðustu áratugina. Í dag eru á jarðhæðinni minjagripabúðin The Viking og veitingahúsið Frederiksen Ale House. Á efri hæðum hússins var Landsbankinn með starfsemi um árabil, eða allt þar til hann flutti í fyrra í hið nýja bankahús við Reykjastræti.

Landsbankinn var einnig með starfsemi í Búnaðarbankahúsinu Austurstræti 5. Var það tengt við Mjólkurfélagshúsið með göngubrú yfir Hafnarstræti, sem setur mikinn svip á götuna.

Sem fyrr segir var það hinn kunni húsameistari Einar Erlendsson (f. 1883, d. 1968) sem teiknaði Hafnarstræti 5. Til er teikning hans að stækkun hússins frá 1939. Hún komst aldrei til framkvæmda, mögulega vegna seinni heimsstyrjaldarinnar, sem hófst sama ár.

En það gæti gerst á næstu árum fái fyrirspurnin jákvæðar undirtektir hjá borgaryfirvöldum. Húsið yrði því eftir stækkun fimm hæðir, ris og kjallari.

Húsið Hafnarstræti 7 var byggt árið 1982. Það er 2.302 fermetrar að stærð og fasteignamatið 970 milljónir. Upphaflegur arkitekt hússins er Vatnar Viðarsson. Þar var Landsbankinn sömuleiðis með starfsemi um árabil.

Í fyrirspurninni eru jafnframt reifaðar breytingar á 1. hæð hússins. Er það nefnd möguleg stækkun inn í borgarrýmið. Byggist hugmyndin á því að Hafnarstræti yrði breytt í göngugötu í framtíðinni.

Tækifæri fyrir jarðhæðir

Hugmyndafræðin fælist í því að „vinna með götunni“ og skapa flæði fyrir gesti og gangandi. Eins myndu skapast ýmis tækifæri fyrir jarðhæðir og þá þjónustu sem þar er.

Með fyrirspurninni fylgja þrívíddarmyndir frá arkitektastofunni TP Bennet sem sýna hugsanlega hækkun húsanna og breytingar á 1. hæð. Nordic Office tekur fram að ekki sé um endanlega hönnun að ræða í innsendri fyrirspurn.