Skýrslan kynnt Fjöldi fólks sótti kynningu á skýrslu Reykjavík Economics. Fundurinn var haldinn í skipinu Le Commandant Charcot í Sundahöfn.
Skýrslan kynnt Fjöldi fólks sótti kynningu á skýrslu Reykjavík Economics. Fundurinn var haldinn í skipinu Le Commandant Charcot í Sundahöfn. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tekjur af komu skemmtiferðaskipa til Íslands námu samtals um 40 milljörðum króna á árinu 2023. Þetta er niðurstaða greiningar sem fyrirtækið Reykjavík Economics gerði fyrir Faxaflóahafnir. Skýrsluhöfundar taka fram að það sé flókið að meta…

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Tekjur af komu skemmtiferðaskipa til Íslands námu samtals um 40 milljörðum króna á árinu 2023. Þetta er niðurstaða greiningar sem fyrirtækið Reykjavík Economics gerði fyrir Faxaflóahafnir.

Skýrsluhöfundar taka fram að það sé flókið að meta efnahagsleg áhrif atvinnugreina og niðurstöður séu „mjög viðkvæmar fyrir forsendum um eyðslu og fjölda farþega“. Skýrslan var kynnt um borð í farþegaskipinu Le Commandant Charcot á þriðjudaginn.

Skýrsluhöfundar gera ráð fyrir að eyðsla/útgjöld farþega skemmtiferðaskipa í landi hafi verið á bilinu 22-30 milljarðar króna á árinu 2023. Rannsóknin leiðir í ljós miðað við fyrirliggjandi kannanir á eyðslu farþega skemmtiferðaskipa að hver farþegi eyði 72-97 þúsund krónum í landi á ferð sinni um Ísland.

Til samanburðar eyðir hver almennur ferðamaður um 150 þúsund kr. á ferðalagi sínu hingað til lands miðað við kortaveltu.

Komum skipa fjölgað hratt

Komum skemmtiferðaskipa til Íslands hefur fjölgað hratt á undanförnum árum. Bakslag kom vissulega í covid-faraldrinum en þessi tegund ferðaiðnaðar hefur nú náð sér að fullu, Jafnhliða hafa tekjurnar stóraukist og mörg hundruð heilsársstörf skapast.

Faxaflóahafnir áætla að á árinu 2024 verði skipakomur 259 talsins, með 308.584 farþega og þar af 159.795 skiptifarþega. Til samanburðar voru skipakomur 261 á árinu 2023 en farþegar voru samtals 306.311. Þar af voru 157.696 skiptifarþegar.

Allir skiptifarþegar koma hingað til lands með flugi, annaðhvort báðar leiðir eða aðra leið. Þeir fara um borð í skipin í Reykjavík.

Vöxtur í fjölda farþega hefur verið mjög mikill og hefur hann rúmlega tvöfaldast frá árinu 2018, að því er fram kemur í skýrslunni.

Vöxturinn kemur til vegna almenns áhuga á Íslandi sem áfangastaðar en einnig vegna áhuga útgerða skemmtiferðaskipa á nýjum áfangastöðum til að uppfylla eftirspurn og áhuga farþega.

Fram kemur í skýrslunni að efnahagslegur ávinningur af komu skemmtiferðaskipa til hafnar eru aðallega útgjöld farþega og áhafnar, umsvif í landi, hafnargjöld, kaup á vöru og þjónustu ásamt viðhaldi, eldsneytiskaupum og þess háttar. Ferðaþjónustuaðilar í landi sjá t.d. um skipulagðar sætaferðir, hótel og gistiheimili, þjónustu skipamiðlara, viðhald og aðra þjónustuaðila, t.d. varðandi farangur o.fl.

Einn kostur ferðalaga með skemmtiferðaskipum er að sá ferðamáti dreifir ferðamönnum vel um landið með fyrirsjáanlegum hætti.

Hafnargöld skipta máli

Hafnarsamband Íslands tekur árlega saman tölur úr rekstrar- og efnahagsreikningum hafna á Íslandi. Samtals námu hafnargjöld af komu skemmtiferðaskipa um 1,7 milljörðum króna árið 2022 samkvæmt úttekt.

Nokkrar ferðaskrifstofur þjónusta farþega skemmtiferðaskipa. Áætlaðar tekjur þessara aðila á árinu 2024 eru um níu milljarðar króna.

Tekjurnar eru tilkomnar vegna gistingar, skoðunarferða, akstursþjónustu og fleiri þátta.