[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Minnesota Timberwolves eygir enn von um sigur í Vesturdeild NBA í körfubolta eftir að hafa sigrað Dallas Mavericks á útivelli, 105.100, í fjórða úrslitaleik liðanna í fyrrinótt. Staðan er því 3:1, Dallas í hag, og Minnesota verður á heimavelli í Minneapolis í fimmta leiknum í kvöld

Minnesota Timberwolves eygir enn von um sigur í Vesturdeild NBA í körfubolta eftir að hafa sigrað Dallas Mavericks á útivelli, 105.100, í fjórða úrslitaleik liðanna í fyrrinótt. Staðan er því 3:1, Dallas í hag, og Minnesota verður á heimavelli í Minneapolis í fimmta leiknum í kvöld. Anthony Edwards skoraði 29 stig, tók 10 fráköst og átti 9 stoðsendingar fyrir Minnesota en Luka Doncic skoraði 28 stig, tók 15 fráköst og átti 10 stoðsendingar fyrir Dallas og náði því þrefaldri tvennu.

Þjóðverjinn Hansi Flick er tekinn við sem knattspyrnustjóri karlaliðs Barcelona. Spænska stórveldið tilkynnti það í gær en hann tekur við af Xavi sem var sagt upp störfum á dögunum. Flick hefur áður stýrt Bayern München og þýska landsliðinu en hann vann allt sem hægt er að vinna með liði Bayern.

Ísak Bergmann Jóhannesson, landsliðsmaður í knattspyrnu, var í þætti belgísks fréttamanns í gær orðaður við Gent þar í landi. Ísak lék með Fortuna Düsseldorf í þýsku B-deildinni í vetur, í láni frá FC Köbenhavn í Danmörku, og þýska liðið á forkaupsrétt á honum.

Bjarki Már Elísson varð í gær ungverskur meistari í handknattleik annað árið í röð þegar Veszprém sigraði Pick Szeged á útivelli í öðrum úrslitaleik liðanna, 34:30. Veszprém vann fyrsta leikinn 35:28 og þar með þurfti ekki oddaleik sem hefði farið fram á heimavelli liðsins. Bjarki lék ekki með Veszprém í gær en hann lauk nú þriðja tímabili sínu hjá félaginu. Veszprém vann með þessu alla 28 leiki sína á tímabilinu í Ungverjalandi, 26 í deildinni í vetur og svo báða úrslitaleikina.

Knattspyrnumaðurinn Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins um árabil, hefur yfirgefið katarska félagið Al-Arabi, fimm árum eftir að hann kom til þess frá velska félaginu Cardiff. Hinn 35 ára Aron lék 79 deildarleiki með Al-Arabi og skoraði í þeim sjö mörk. Hann lék síðast með liðinu í deildinni 8. maí 2023 en hann var tekinn úr hópnum fyrir nýlokið tímabil þar sem sem miðjumaðurinn var að glíma við meiðsli og félagið þurfti að nýta útlendingakvóta sinn.

Grískt áhorfendamet var slegið þegar Olympiacos og Valur áttust við í seinni leik liðanna í úrslitum Evrópubikarsins í handbolta á laugardaginn var. Um 7.500 manns mættu í Vináttu- og friðarhöllina í Aþenu en aldrei hafa jafnmargir mætt á Evrópuleik í handbolta í Grikklandi. Svo fór að Valur vann í vítakeppni eftir gríðarlega spennandi leik.

Bandaríski kylfingurinn Lexi Thompson hefur ákveðið að hætta í lok LPGA-tímabilsins. Thompson, sem er 29 ára gömul, hefur unnið fimmtán titla á ferlinum og einn stóran titil árið 2014. Þá hefur hún keppt fyrir hönd Bandaríkjanna sex sinnum í Solheim-bikarnum og tvisvar á Ólympíuleikunum. Hún keppti fyrst á US Open 12 ára gömul, þá sú yngsta frá upphafi, og hefur verið atvinnumaður frá 15 ára aldri.