Guðrún Þórarinsdóttir fæddist 14. nóvember 1940. Hún lést 12. maí 2024.

Jarðarför hennar fór fram 29. maí 2024.

Elsku amma mín, ég mun sakna þín mikið.

Ég hafði alltaf gaman af því þegar þú hringdir í mig til að fá liðsinni með tölvuna þína eða prentarann, tæki voru ekki þín sterkasta hlið, mér fannst nú ekki mikið til tölvubúnaðarins koma, tækin fóru flest á hraða músarinnar. En mér fannst gaman að geta gert eitthvað fyrir þig, þegar þú baðst mig að koma að mosaæta í bústaðnum eða koma með keðjusög og saga tré þá naut ég þess að geta hjálpað þér, þú varst alltaf svo glöð og þakklát fyrir alla minnstu hjálp frá mér.

Eins elskaði ég að spjalla við þig um allt og ekki neitt; ef þú vissir ekkert um hvað ég var að tala hlustaðir þú bara og reyndir að kinka kolli á réttum stöðum.

Amma ég fór alltaf frá þér með hlýju í hjarta og bros á vör þakklátur fyrir að geta hjálpað þér. Núna ertu hjá afa og ég veit að þar líður þér best.

Þinn

Fannar Páll.

Elsku besta amma Guðrún okkar.

Það er erfitt að ímynda sér að stundirnar okkar saman hér verða ekki fleiri. Þegar við horfum til baka eigum við svo margar góðar minningar sem við munum hugsa til þegar við söknum þin. Þegar við settumst niður og fórum að spjalla um stundirnar með þér komu fyrst upp í hugann spilakvöldin með þér. Þar var spurningaspil tekið og þegar andstæðingar þínir áttu að svara en þú vissir svarið var eins og líkami þinn tæki yfir og þú réðir ekkert við það, svarið kom fljúgandi út úr þínum munni og svo greipstu fyrir munninn. Þetta eru svo góðar minningar að þegar við ræðum um þetta þá er ekki annað hægt en að hlæja. Erum svo þakklátar fyrir að eiga margar góðar og skemmtilegar minningar með þér. Þú varst líka kletturinn okkar; þegar eitthvað bjátaði á var öruggt að þú myndir gefa manni öxl og gerðir allt til að láta okkur líða betur. Þú varst í okkar liði alltaf. Elsku amma, við munum sakna þín svo mikið, það er ólýsanlega erfitt að horfa á eftir þér fara frá okkur. Lífið verður ekki eins án þín. Þú ert nú komin til afa Gísla, Þórarins og Nölu auðvitað og þér líður örugglega betur núna og getur andað léttar.

Elsku amma, þín verður sárt saknað og minningunum munum við halda á lofti og segja Hugrúnu Kristínu, litla Söndrusyni og komandi langömmubörnum frá.

Elskum þig svo mikið og biðjum að heilsa afa.

Hvíldu í friði besta amma í heimi.

Vertu blessuð, elsku amma,

okkur verður minning þín

á vegi lífsins, ævi alla,

eins og fagurt ljós, er skín.

Vertu blessuð, kristna kona,

kærleikanum gafstu mál,

vertu blessuð, guð þig geymi,

góða amma, hreina sál.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Þínar

Ásdís Rún, Ólöf Lilja
og Sandra Björk.