Útþensla Smáríkið hefur opnað nýjan afgreiðslustað í Hraunbæ 102a.
Útþensla Smáríkið hefur opnað nýjan afgreiðslustað í Hraunbæ 102a. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Markmiðið er að fjölga afgreiðslustöðum og vera með þéttara net. Fólk vill fá að velja,“ segir Óskar Jónsson, einn eigenda Smáríkisins.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Markmiðið er að fjölga afgreiðslustöðum og vera með þéttara net. Fólk vill fá að velja,“ segir Óskar Jónsson, einn eigenda Smáríkisins.

Fyrirtækið hefur nú fjölgað afhendingarstöðum sínum í þrjá. Hægt er að nálgast áfengi í svokölluðum sendiráðum Smáríkisins í Fellsmúla, Miðhrauni í Garðabæ og í Hraunbæ 102, við hliðina á sjoppunni Skalla. Opið er frá hádegi til kl. 23 á kvöldin fimm daga vikunnar en til miðnættis föstudaga og laugardaga. Þá lofar fyrirtækið hraðri heimsendingu á áfengi með Volt.

Ljóst er að netverslanir með áfengi blása nú til stórsóknar. Sem kunnugt er kynnti Hagkaup í síðustu viku áform um að hefja sölu á áfengi í verslunum sínum í næsta mánuði. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafa forsvarsmenn bæði Krónunnar og Bónuss verið að skoða innreið á þennan markað.

Sviptingar á áfengismarkaði

Frumkvöðullinn Arnar Sigurðsson í Sante stefnir að því að opna þúsund fermetra afgreiðslulager í Skeifunni í haust. Þar verður mun meira vöruúrval en nú er í boði og lægra verð. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að viðskiptavinir geti pantað áður en þeir koma eða gert það á staðnum. Þeir fá svo vörurnar afhentar í sérstökum skápum. „Í stað þess að vera með ríkisstarfsmenn í vinnu þarna verðum við með kínverska róbóta. Ég held að menn verði ekki ósáttari við að kínverskir róbótar afgreiði sig en íslenskir ríkisstarfsmenn,“ segir hann.

Talsverðar sviptingar hafa verið á þessum markaði síðustu misseri og verslanir hafa komið og farið. Þannig greindi Morgunblaðið frá því í byrjun mars að Bjórlandi hefði verið lokað og Acan virðist hafa hlotið sömu örlög. Þá hefur Nýja vínbúðin verið undir smásjá yfirvalda vegna umsvifa eigenda hennar. Okkar vín og Desma bjóða enn upp á heimsendingar samkvæmt heimasíðum fyrirtækjanna.

Síðasta árið hefur Costco selt áfengi til almennra viðskiptavina og tvö ár eru nú liðin frá því að Heimkaup ruddist inn á þennan markað. Katrín Aagestad Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Heimkaup, segir að mikil stígandi hafi verið í sölunni frá upphafi. „Það er allur gangur á því hvernig samsetningin á körfunni er. Það er þó algengast að viðskiptavinir taki áfengi með í hefðbundnar vörukörfur, enda er upplagt að nýta ferðina og panta það sem vantar á heimilið hverju sinni. Við upplifum mikla ánægju frá viðskiptavinum okkar með þennan valmöguleika og erum alltaf að skoða hvernig við getum aukið þjónustuna og einfaldað fólki lífið, til dæmis hvað varðar afhendingarstaði og afgreiðslutíma.“

Kalt hvítvín með humrinum í matarboðinu

Ólíkar áherslur virðast vera hjá netverslunum með áfengissöluna. Sumar leggja áherslu á gæði en aðrar á hraða afhendingu. Þá er verðlagning mismunandi. Sante hefur til að mynda stært sig af því að selja bjór á mun lægra verði en ÁTVR. Aðrar verslanir leggja upp með að áfengi sé eðlilegur hluti af matarkörfunni.

Óskar í Smáríkinu segir að mesta nýbreytnin auk afhendingar fram til miðnættis sé að öll vara sem eigi að vera kæld sé afgreidd þannig. „Bjór, hvítvín og freyðivín, allt er þetta á réttu hitastigi. Ef þú ert með matarboð og vantar eina hvíta með humrinum þá er hún tilbúin til neyslu þegar þú færð hana hjá okkur.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon