Inga Skaftadóttir fæddist 17. mars 1953. Hún lést 15. maí 2024.

Útför Ingu fór fram 29. maí 2024.

Það voru óvæntar og sársaukafullar fréttir að heyra að kær samstarfskona, Inga Skaftadóttir, væri fallin frá.

Inga starfaði mestan hluta af sínum starfsferli á Landspítalanum og lengst af á ónæmisfræðideildinni þar sem hún hætti á síðasta ári sökum aldurs. Við kynntumst henni fyrst þegar hún vann við vefjaflokkun hjá Alfreð Árnasyni sem var þá í sama húsi. Fljótlega kom hún yfir á ónæmisfræðideildina til að vinna með Ásbirni Sigfússyni heitnum ónæmislækni að rannsóknum á eitilfrumum. Þau unnu saman að flæðifrumusjárrannsóknum sem síðan hafa þróast og tekið ótrúlegum breytingum og átti hún stóran þátt í að byggja upp þá þjónustu ónæmisfræðideildarinnar. Hún hafði mjög djúpan skilning á frumum og sameindum og svo næm á það hvað þurfti að gera í hvert sinn enda er oft einstaklingsbundið hvað þarf að rannsaka hjá sjúklingunum. Oft var haft beint samband við Ingu af ýmsum læknum spítalans til að fá ráð og leiðbeiningar varðandi það hvaða frumurannsóknir væri hægt að gera hjá sjúklingum með flókna sjúkdóma. Inga tókst á við margvísleg og krefjandi verkefni af afburðafagmennsku og framúrskarandi þjónustulund. Hún var sérfræðingur í sínu fagi og stýrði frumurannsóknarhluta ónæmisfræðideildar til fjölda ára, mætti fyrst og fór síðust.

Inga kom alltaf til vinnu hjólandi eða gangandi, með bros á vör og tilbúin að takast á við verkefni dagsins. Hún var ljúf í viðmóti, með mikið jafnaðargeð og alltaf tilbúin til að hlusta, ráðleggja og hjálpa samstarfsfólki og nemendum í hinum ýmsu og flóknu verkefnum.

Okkur samstarfsfólkinu fannst Inga vera ímynd heilbrigðis og hraustleika og svo óskiljanlegt að hún sé nú farin. Við þökkum henni samfylgdina, samstarfið og vináttuna öll þessi ár.

Hennar verður sárt saknað af öllu samstarfsfólki í gegnum árin.

Við sendum Birgi, Svövu og Pétri ásamt fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur, minning hennar lifir.

Fyrir hönd samstarfsfólks á ónæmisfræðideild Landspítalans,

Sigurveig Þ.
Sigurðardóttir.