Ferskt norskt hrefnukjöt situr fast í tollinum í Japan og boðar norski þingmaðurinn Bård Ludvig Thorheim umræðu um málið í norska Stórþinginu. Frá þessu var greint í norskum fjölmiðlum fyrr í vikunni

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Ferskt norskt hrefnukjöt situr fast í tollinum í Japan og boðar norski þingmaðurinn Bård Ludvig Thorheim umræðu um málið í norska Stórþinginu. Frá þessu var greint í norskum fjölmiðlum fyrr í vikunni.

Segir hann að ferskt hvalkjöt frá Noregi sé nú í vöruhúsi japönsku tollgæslunnar sem hindri að kjötið komist inn á japanskan markað. Því er borið við að japanskar tollareglur komi í veg fyrir að kjötið komist ferskt á markaðinn.

„Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að koma fersku hvalkjöti frá Noregi til Japans?“ spyr hann.

Þingmaðurinn hefur hvatt til þess að Norðmenn auki hvalveiðar sínar og sinni betur markaðssetningu hvalkjöts en verið hefur á alþjóðamarkaði.

„Japanir ástunda mismunun þegar kemur að þeirra eigin hvalveiðum og innflutningi frá öðrum löndum,“ segir Kristján Loftsson framkvæmdastjóri Hvals hf. sem flutt hefur út frosið hvalkjöt til Japans um langan aldur.

Hann segir Japani veiða hval við eigin strendur og hann fari ferskur á markað, án nokkurra rannsókna á kjötinu. Þegar að öðrum komi geri þeir kröfu um miklar rannsóknir, á PCB, kvikasilfri, gerlum o.fl. Ef gera ætti allar þær rannsóknir sem krafist er væri kjötið orðið úldið áður en niðurstaða fengist. Um væri að ræða viðskiptahindranir, að sögn Kristjáns.

Hann nefnir að bæði íslenskir og norskir hvalfangarar vilji að ferskt hvalkjöt fái sömu meðferð og ferskur lax sem fluttur er flugleiðis til Japans, en hann er tollafgreiddur á meðan flugvélin er enn í loftinu.

„Það hafa verið haldnir fundir um þetta í áraraðir, en við komumst ekkert áfram með málið,“ segir Kristján.

Aðeins Noregur, Ísland og Japan geta átt viðskipti með hvalkjöt sín á milli, þar sem löndin eru með fyrirvara um bann við alþjóðlegum viðskiptum með ýmsar hvalaafurðir sem falla undir Cites-samninginn sem er ætlað að vernda tegundir dýra og plantna í útrýmingarhættu.