Haraldur Hreinsson
Haraldur Hreinsson
Aðdragandi forsetakosninganna hefur verið athyglisverður fyrir þau sem hafa áhuga á landslagi trúarbragða og annarra lífsskoðana á Íslandi.

Haraldur Hreinsson

Aðdragandi forsetakosninganna hefur verið athyglisverður fyrir þau sem hafa áhuga á landslagi trúarbragða og annarra lífsskoðana á Íslandi og það einkum að tvennu leyti.

Í fyrsta lagi þá vakti það athygli þegar tveir miðlar – Kirkjublaðið.is og Vísir – tóku upp á því að spyrja frambjóðendur beint út í afstöðu til þjóðkirkjunnar. Svör flestra ef ekki allra voru afgerandi jákvæð, einnig þeirra sem ekki sögðust tilheyra þjóðkirkjunni. Ekki bar á neikvæðni eða gagnrýni heldur var frekar lofað fyrir það sem þykir vel hafa verið gert innan lúthersku meirihlutakirkjunnar. Þetta er nokkuð breytt staða frá því í kosningunum fyrir átta árum þegar frambjóðendur tjáðu afstöðu sína til þjóðkirkjunnar og trúmála með hlutlausari hætti. Kunnur álitsgjafi hefur meira að segja sagt að svona nokkuð hafi hann „aldrei áður séð“ í opinberri umræðu á Íslandi.

Á þessari breytingu kunna að vera nokkrar skýringar. Í fyrsta lagi kann að vera að afstaða þeirra frambjóðenda sem nú eru í kjöri sé einfaldlega önnur en þeirra sem voru í framboði fyrir átta árum. Í öðru lagi getur verið að viðbrögð þjóðkirkjunnar við þeirri gagnrýni sem hún hefur fengið á umliðnum áratugum hafi fengið hljómgrunn og stofnunin sé ekki jafn umdeild. Í þriðja lagi getur einnig verið að í íslensku samfélagi séu að eiga sér stað almennari menningarlegar breytingar sem gera það að verkum að jákvæð afstaða til hins andlega, trúarlega eða handanlega sé frekar samþykkt í opinberri umræðu en áður. Í fjórða lagi kann að vera að frambjóðendur hafi metið stöðuna taktískt þannig að besta svarið, þ.e. það sem fæli fæsta kjósendur frá, sé jákvætt gagnvart stórri stofnun á borð við þjóðkirkjuna. Sennilegt er að hér sé um samspil fleiri en einnar skýringar að ræða

Í öðru lagi hefur þung áhersla frambjóðenda á „gildi“ – stundum „grunngildi“ eða „grundvallargildi“ – íslensku þjóðarinnar vakið athygli. A.m.k. tveir frambjóðendur leggja áherslu á lýðræði, jafnrétti og réttarríkið, mjög í anda klassísks frjálslyndis. Annar frambjóðandi talar fyrir gildunum „þátttaka og samvinna“. Enn annar frambjóðandi hefur lagt áherslu á þau gildi sem komu fram á þjóðfundinum 2009: „heiðarleiki, jafnrétti, réttlæti, virðing og ábyrgð“. Sami frambjóðandi hefur sagt að hennar eigin gildi séu „friðsæld, jafnrétti og sjálfbærni“. Þá hefur einnig heyrst talað um að „uppfæra“ þurfi gildi íslensku þjóðarinnar. Þetta eru aðeins nokkur áberandi dæmi af mörgum um það hvernig gildishugtakið hefur mótað orðræðu frambjóðenda um siðferðisgrunn og sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar.

Nú væri hægt að segja ýmislegt um hugtakið gildi og hugmyndasögulegan bakgrunn þess og sömuleiðis væri áhugavert að greina gildaorðræðu forsetaframbjóðendanna nánar. Hér verður þó látið nægja að benda á þá athyglisverðu staðreynd að gróskan í gildaflóru forsetakapphlaupsins er í tærum samhljómi við nýlega kenningu trúarbragðafélagsfræðingsins Lindu Woodhead þess efnis að „gildin séu hin nýju trúarbrögð“. Með því á hún við að þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað á landslagi lífsskoðana í Norðvestur-Evrópu á síðustu áratugum – aukin trúarleg fjölbreytni og breytt staða meirihlutakirkna á borð við þjóðkirkjuna – hafi leitt til þess að samfélög, stofnanir og einstaklingar hafi í auknum mæli tekið að setja fram eigin gildi sem í vissum skilningi mætti flokka sem „veraldleg“, a.m.k. ekki einskorðuð við einhver tiltekin trúarbrögð með opinskáum hætti. Þessari þróun lýsti rithöfundurinn og fyrrverandi forsetaframbjóðandinn Elísabet Jökulsdóttir með þeim hætti að gildi hefðu öðlast sérstakt vægi. „Hver eru þessi gildi?“ spurði hún í nýlegum umræðuþætti. „Þau eru ekki lengur kristileg en hver eru þau þá?“

Með breyttri stöðu lúthersku meirihlutakirkjunnar og aukinni fjölbreytni í landslagi lífsskoðana á Íslandi hefur spurningin sem Elísabet færði í orð komist á dagskrá. Þessi spurning, sem er óhjákvæmilega bæði samfélags- og menningarpólitísk, dregur fram að umræðan um breytta stöðu kristinna trúarbragða á Íslandi og gildi íslensku þjóðarinnar er hluti af sömu umræðu. Nú um stundir er forsetakjörið vettvangur hennar en hver sem útkoma þess verður er ljóst að umræðunni um gildin mun ekki ljúka þann 1. júní. Þvert á móti. Hún virðist rétt að byrja.

Í guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ er fengist við slíkar spurningar og margar aðrar af sama toga. Námsframboð er fjölbreytilegt. Umsóknarfrestur í grunnnám er til 5. júní.

Höfundur er lektor við Háskóla Íslands.

Höf.: Haraldur Hreinsson