[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is „Rannsóknarnefnd flugslysa er með eitt sambærilegt mál til rannsóknar sem hefur verið flokkað sem alvarlegt flugatvik og átti sér stað febrúar í fyrra,“ segir Ragnar Guðmundsson, flugvélaverkfræðingur og rannsakandi á flugsviði RNSA, aðspurður hvort hann reki minni til atvika þar sem mikil ókyrrð hefur valdið usla í flugvélum hérlendis.

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Rannsóknarnefnd flugslysa er með eitt sambærilegt mál til rannsóknar sem hefur verið flokkað sem alvarlegt flugatvik og átti sér stað febrúar í fyrra,“ segir Ragnar Guðmundsson, flugvélaverkfræðingur og rannsakandi á flugsviði RNSA, aðspurður hvort hann reki minni til atvika þar sem mikil ókyrrð hefur valdið usla í flugvélum hérlendis.

Mikið hefur verið rætt um mál flugvélar Singapore Airlines sem tók 1.800 metra dýfu, eða tæplega sex þúsund fet, á innan við þremur mínútum á leiðinni frá Lundúnum til Singapúr 21. maí sl. Vélin féll um 54 metra eða 178 fet á fyrstu 5 sekúndunum og farþegar flugu upp úr sætum sínum og fjöldi slasaðist og einn farþegi lést. Meðal slasaðra í vélinni var einn Íslendingur, en hann er kominn af sjúkrahúsi í Taílandi.

Tyrknesk vél

„Þetta var reyndar ekki íslensk skráð flugvél, heldur tyrknesk, sem var að fljúga frá Kanada til Tyrklands, en hún lenti í ókyrrðinni hér yfir Íslandi, norðan Langjökuls,“ segir hann en bætir við að segja megi að atvikið eigi mjög margt sameiginlegt með þessu tilviki hjá Singapore Airlines.

„Tyrkneska flugvélin lækkaði flugið hratt úr 35 þúsund feta hæð í 27 þúsund fet á mjög skömmum tíma, sem eru um 8.000 fet, og það gerðist á rétt rúmri mínútu,“ segir Ragnar. Hann segir að tyrkneska flugvélin hafi einnig verið sama tegund af flugvél og hjá Singapore Airlines, eða Boeing 777 300. „Þetta er nákvæmlega sama tegund af flugvél, en RNSA telur þó að það hafi ekkert með atvikið að gera,“ segir hann.

Þar sem rannsóknin á þessu atviki tyrknesku flugvélarinnar er enn í gangi, segir Ragnar að hann geti ekki gefið upplýsingar um hversu margir slösuðust í flugvélinni eða hversu alvarleg slys urðu á fólki. „Ég get samt staðfest að það urðu slys á farþegum og áhafnarmeðlimum í þessu tilviki og þegar flugvélin lenti í Istanbúl voru sjúkrabílar bíðandi á flugvellinum til að taka á móti fólki.“

13. febrúar 2023

Tyrkneska flugvélin með skráninguna TC-JJ var að fljúga frá Torontó yfir Ísland þann 13. febrúar 2023 og klukkan var 8.10 um morguninn þegar flugvélin, sem þá var stödd norðan Langjökuls, flaug inn í mjög mikla ókyrrð í lofti, þar sem flugmennirnir misstu tímabundna stjórn á flugvélinni, fór hún úr 35 þúsund fetum í 27 þúsund feta hæð áður en flugmennirnir náðu fullri stjórn á flugvélinni og héldu áfram fluginu í 28 þúsund feta hæð. Flugmenn flugvélarinnar fengu leiðbeiningar um stefnubreytingu frá flugumferðarstjórn til að komast út úr ókyrrðinni og flugu áfram til áfangastaðar í Istanbúl.

Mikilvægt að spenna beltin

„Þetta er líklega alvarlegasta sambærilega málið sem RNSA hefur rannsakað, þótt einnig sé mögulegt að sambærileg mál hafi einnig verið rannsökuð af Rannsóknarnefnd flugslysa hér áður fyrr, og virðist málið mjög sambærilegt við mál flugvélarinnar hjá Singapore Airlines,“ segir hann en bætir við að skýrslan um flugið sé ekki komin út hjá RNSA en sé þó langt komin.

Talsmenn bæði Icelandair og Play segja mikla áherslu lagða á að farþegar hafi sætisbelti spennt og það hafi frekar aukist eftir fréttirnar af vél Singapore Airlines í mánuðinum.