Örn Svavarsson
Örn Svavarsson
Öll hennar ræða snýst um mikilvægi þess að virkja, íslenskri þjóð til hagsældar.

Örn Svavarsson

Óþarfi er að fara mörgum orðum um menntun Höllu Hrundar, margs konar störf og árangur í þeim störfum, glaðlegt yfirbragð og sjarma þessarar kraftmiklu ungu konu. Fjölmiðlar hafa gert þessum þáttum skil. Það sem í mínum huga skiptir máli er eftirfarandi:

Halla Hrund er menntuð í orku- og auðlindamálum og hefur starfað á þeim vettvangi sem kunnugt er. Þess misskilnings hefur gætt að Halla Hrund sé á móti virkjunum. Það er rangt. Öll hennar ræða snýst um mikilvægi þess að virkja, íslenskri þjóð til hagsældar.

Halla Hrund leggur áherslu á í sínum málflutningi að græn orka, ekki síst vatnsaflið, séu takmörkuð gæði sem stórfyrirtæki og fjármálaöfl hefðu ekkert á móti því að komast yfir, helst fyrir lítið.

Það er hennar hjartans mál að þær auðlindir sem þjóðin á í dag verði áfram í sameiginlegri eigu okkar sem Ísland byggjum, en gloprist ekki úr höndum þjóðarinnar fyrir tilstilli skammsýnna stjórnmálamanna.

Öll þjóðin hefur fylgst með hvernig búið var að leggja drög að því að afhenda erlendum stórfyrirtækjum eilífðarafnotarétt af allnokkrum af fjörðum landsins og það meira að segja leigulaust. Nýliðin ríkisstjórn var meira að segja klár með stjórnarfrumvarp sem til stóð að samþykkja. Sem betur fer upplýstu fjölmiðlar um þessa ósvinnu og frumvarpinu verður væntanlega breytt. Í þessu máli hefur Halla Hrund bent á að þarna átti að framselja yfirráðarétt yfir hluta af auðlindum þjóðarinnar til ofurfjársterkra einkafyrirtækja. Um slíkt stórmál ætti þjóðin að kjósa, sjálf að ákveða hvort hún kærði sig um slíkt afsal.

Til eru þeir í okkar samfélagi sem selja vilja Landsvirkjun, farsælt fyrirtæki sem byggt var upp í þjóðareign og skilar þjóðinni núna tugmilljarða tekjum. Slíka gullnámu þætti fégráðugum fjármálaöflum akkur í að komast yfir. Halla Hrund hefur gefið það skýrt til kynna að lagafrumvarpi um slíkt stórmál myndi hún vísa til þjóðarinnar. Öflugur öryggisventill þar í þessari glaðlyndu en harðákveðnu konu.

Lög um forgang heimila og minni og meðalstórra fyrirtækja til rafmagns voru afnumin fyrir tveimur áratugum og gætir enginn hagsmuna þeirra í dag. Rafmagn er í dag frjáls markaðsvara eins og t.d. bílar og olía. Græna orkan sem hérlendis er framleidd er eftirsótt. Ef svo bæri undir gætu auðugir stórnotendur boðið himinhátt verð í þessa orku okkar og þá gæti verið freistandi fyrir seljendur orkunnar að taka slíkum boðum, jafnvel þó að skammta þyrfti síðan rafmagn á heimili og atvinnulíf. Á þetta hefur Halla Hrund bent í ræðu og riti. Í öllum sínum málflutningi um þessa dýrmætu orku leggur hún áherslu á hag heimilanna, að þau hafi forgang að orkunni.

Þess vegna kýs ég Höllu Hrund.

Höfundur er framkvæmdastjóri og áhugamaður um auðlindirnar.