Hraunsrétt Pönnukökur Védísar slógu alltaf í gegn í hestaferðunum.
Hraunsrétt Pönnukökur Védísar slógu alltaf í gegn í hestaferðunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vilhjálmur Helgi Pálsson fæddist 30. maí 1929 á Húsavík og ólst upp þar. Hann gekk í barna- og unglingaskóla á Húsavík og fór einn vetur á Laugaskóla í Reykjadal því þar var lögð mikil áhersla á íþróttir sem voru hans aðaláhugamál

Vilhjálmur Helgi Pálsson fæddist 30. maí 1929 á Húsavík og ólst upp þar. Hann gekk í barna- og unglingaskóla á Húsavík og fór einn vetur á Laugaskóla í Reykjadal því þar var lögð mikil áhersla á íþróttir sem voru hans aðaláhugamál. „Á unglingsárum fórum við krakkarnir að æfa íþróttir með keppni í huga. Við höfðum enga þjálfara en æfðum eftir bestu getu. Við fórum á mót til Reykjavíkur, m.a. Drengjameistaramót Íslands. Við kastararnir höfðum heyrt að orkuna fengjum við úr fæðunni svo ég hámaði í mig vínarbrauð og nammi á milli kasta. Þegar keppinautarnir sáu það fóru þeir á taugum og ég sigraði bæði í spjótkasti og kringlu.

Ég fór í Íþróttaskólann á Laugarvatni 1949 og útskrifaðist 1950. Eftir útskrift fór ég strax að kenna og þjálfa. Ég kenndi í Laugarnesskóla sem þá var tvísetinn sex daga vikunnar, þjálfaði frjálsar íþróttir eftir vinnu alla daga og æfði svo sjálfur körfubolta og frjálsar íþróttir flest kvöld vikunnar. Á sumrin þjálfaði ég allar íþróttir í Suður- og Norður-Þingeyjarsýslu, ók á milli staða á mótorhjóli. Eftir þrjú ár fékk ég upp í kok, eins og sagt var þá, af kennslu og þjálfun. Ég hætti kennslu og fór á sjóinn, síld á sumrin og vetrarvertíð eftir áramót. Á milli vertíða, á haustin, var ég fenginn til að vera farandkennari í skólum víða um land þar sem ekki voru íþróttakennarar, u.þ.b. 1½ mánuð á hverjum stað. Það var mjög fróðlegt að kynnast landinu og fólkinu.

Eftir tvö ár á sjó var ég tilbúinn til að hefja aftur kennslu. Ég var þá nýgiftur og við hjónin vorum ráðin íþróttakennarar við barna- og gagnfræðaskóla Húsavíkur og síðar við framhaldsskólann þar. Á þessum tíma var verið að byggja upp íþróttaaðstöðu utanhúss, sundlaug og íþróttasal við barnaskólann. Þessi uppbygging á íþróttamannvirkjum hafði gríðarleg áhrif á íþróttaiðkun næstu árin og skilaði Íslandsmeistaratitlum í mörgum íþróttagreinum. Við Védís tókum þátt í þjálfun í mörgum greinum og byggðum upp þjálfarateymi með því að halda námskeið og fá á þau færustu þjálfara landsins. Sem þjálfari lagði ég mikla áherslu á að koma efnilegu íþróttafólki á framfæri hjá landsliðsþjálfurum sem ég þekkti marga persónulega. Þótt keppni og árangur hafi verið mikilvægt var félagslegi þátturinn alltaf í hávegum hafður, mikilvægi þess að styrkleikar hvers og eins fengju að njóta sín og að sem flestir væru með.“ Auk hlutverks þjálfara sat Vilhjálmur í stjórn Völsungs og HSÞ og tók tvisvar að sér formennsku hjá Völsungi.

Kennsla í skyndihjálp var eitt af þeim verkefnum sem Vilhjálmur tók að sér. „Daníel Daníelsson, læknir á Húsavík, hafði mikinn áhuga á að fræða fólk sem bjó langt frá læknaþjónustu um viðbrögð við lífshættulegu ástandi, t.d. hjartastoppi, öndunarstoppi og slagæðablæðingu. Hann fékk mig til að fara í sveitirnar með þessa fræðslu og var á margan hátt á undan sinni samtíð á þessu sviði.“

Eitt af því sem Vilhjálmur hafði sérstaka ánægju af var kennsla í sjóvinnu sem var val fyrir nemendur í 9. og 10. bekk og síðar við Framhaldsskólann á Húsavík. Sú grein varð mjög vinsæl og gátu nemendur útskrifast með 30 tonna skipstjórnarréttindi. Þegar réttindaskylda var sett á trillusjómenn bauð hann upp á réttindanám fyrir þann hóp og á þessum árum útskrifuðust nokkur hundruð manns með 30 tonna skipstjórnarréttindi á Húsavík. Einnig stóð hann fyrir réttindanámi fyrir starfandi skipstjóra á undanþágum, á allt að 200 tonna skipum. Það bjó gríðarleg þekking og reynsla í þeim nemendahópi og hafa þeir ávallt sýnt mikið þakklæti fyrir að njóta fræðslu í heimabyggð.

Vilhjálmur var sjúkrabílstjóri í mörg ár á vegum Rauða krossins. „Svæðið var mjög víðfeðmt og gátu ferðirnar verið afar krefjandi í vondum vetrarveðrum og ófærð. Stundum þurftum við að hafa hefil á undan okkur til að ryðja leiðina.“ Hann var fyrsti formaður Hestamannafélagsins Grana á Húsavík og stofnaði Björgunarsveitina Garðar á Húsavík og var formaður í 23 ár, einnig umdæmisstjóri SVFÍ á Norðurlandi. Mörg verkefni komu á borð sveitarinnar, m.a. giftusamleg björgun skipverja þegar Hvassafellið strandaði við Flatey 7. mars árið 1975.

„Áhugi á tónlist hefur alltaf fylgt mér. Ég get glamrað smávegis á píanó, harmonikku og fiðlu. Harmonikkuleikurinn kom þannig til að vinur minn Sigurður Hallmarsson spilaði oft fyrir dansi á skólaböllum á Húsavík. Honum leiddist að geta aldrei dansað sjálfur og þegar við vorum 12 ára kenndi hann mér að spila nokkur lög svo ég gæti leyst hann af á böllunum. Þegar ég var rúmlega áttræður fékk ég fiðlu að gjöf frá fjölskyldunni og var skráður án minnar vitundar í Tónlistarskóla Húsavíkur. Þetta var óformlegt nám því kennarinn samþykkti að ég mætti velja sjálfur þau lög sem ég vildi læra að spila, ég spilaði bara eftir eyranu og þetta var hið skemmtilegasta nám.“

Vilhjálmur hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín, m.a. gullmerki SVFÍ, ÍSÍ og nokkurra sérsambanda ÍSÍ og er einnig heiðurfélagi nokkurra félagasamtaka. Hann hlaut heiðursviðurkenningu Slysavarnafélagsins Landsbjargar árið 2023, nýr björgunarbátur á Húsavík, Villi Páls, var nefndur í höfuðið á honum og nýlega var Vilhjálmur gerður að ævifélaga Lions.

„Eftir að við Védís hættum í formlegri vinnu vorum við svo heppin að geta fengið að taka þátt í verkefnum tengdum hestaferðum í fjölskyldufyrirtækinu í Saltvík án nokkurra kvaða og nutum við þess. Þótt maður sé hættur að vera virkur í samfélaginu getur maður alltaf látið sig dreyma um allt mögulegt sem hægt væri að framkvæma í samfélaginu okkar. Mig dreymir um að bæjaryfirvöld á Húsavík taki frá svæði austan við vöruskemmuna og skipuleggi grænt svæði, útivistarsvæði fyrir eldri borgara sem í dag hafa bara malbikið að ganga á. Þetta svæði myndi þá tengjast hugmynd um nýjan miðbæ og tengja saman unga fólkið og þá sem eldri eru. Aðalmálið er samt að geta orðið að liði í því samfélagi sem maður býr í og það er kannski aðaltilgangur rölts okkar um þessa jarðarkringlu.“

Fjölskylda

Eiginkona Vilhjálms var Védís Bjarnadóttir íþróttakennari frá Laugarvatni, f. 16.10. 1931, d. 21.12. 2021. Þau bjuggu öll sín hjúskaparár á Húsavík. Védís kenndi við skólana þar auk þess að sinna ýmsum félagsmálum og sérverkefnum við þjálfun og kennslu. Foreldrar Védísar voru hjónin Þorbjörg Þorkelsdóttir, lækna- og sjúkranuddari, f. 9.10. 1896, d. 21.4. 1946, og Bjarni Bjarnason skólastjóri, f. 23.10. 1889, d. 2.8. 1970. Þau bjuggu á Laugarvatni. Eftir andlát Þorbjargar giftist Bjarni Önnu Jónsdóttur, f. 22.4. 1906, d. 24.7. 1977.

Börn Vilhjálms og Védísar eru 1) Þorbjörg sérkennari, f. 24.7. 1957; 2) Anna Karólína, framkvæmdastjóri hjá Íþróttasambandi fatlaðra og Special Olympics á Íslandi, f. 3.8. 1959; 3) Bjarni Páll, ferðaþjónustubóndi og íþróttakennari, f. 3.4. 1967, kvæntur Elsu Björk Skúladóttur, deildarstjóra starfsbrautar FSH, f. 20.6. 1972. Barnabörn eru 5 og barnabarnabörn eru 3.

Systkini Vilhjálms voru Ásgeir, f. 7.8. 1915, d. 26.6. 1931; Bjarney Sigrún, f. 12.6. 1919, d. 23.12. 2016, og Sigríður Soffía, f. 8.12. 1923, d. 17.8. 1985.

Foreldrar Vilhjálms voru hjónin Karólína Sigurgeirsdóttir, húsmóðir og ræstingakona, f. 23.9. 1989, d. 28.10. 1972 og Páll Jóhann Sigurjónsson, sjómaður, fiskimatsmaður og fjárbóndi, f. 11.6. 1886, d. 1.4. 1973. Þau bjuggu á Húsavík.