Horft út á sjóinn<font color="#666666"> Fólk situr á litskrúðugum leifum skotbyrgis </font><font color="#666666">nálægt</font> Cap Ferret við Biskajaflóa á vesturhluta Fr<font color="#666666">akklands og horfir út á hafið. </font>
Horft út á sjóinn Fólk situr á litskrúðugum leifum skotbyrgis nálægt Cap Ferret við Biskajaflóa á vesturhluta Frakklands og horfir út á hafið. — AFP/Olivier Morin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Sv. Hermannsson gummi@mbl.is Árið 1942 fyrirskipaði Adolf Hitler að reist skyldi fimm þúsund kílómetra langt varnarvirki, Atlantshafsveggurinn, meðfram ströndum Norður-Evrópu til að hindra hugsanlega innrás bandamanna á meginland Evrópu. Sá veggur kom þó að litlu gagni því tveimur árum síðar, 6. júní 1944, fyrir réttum 80 árum, gerðu bandamenn innrás í Normandí í Frakklandi sem markaði þáttaskil í heimsstyrjöldinni síðari. Styrjöldinni í Evrópu lauk 11 mánuðum síðar með uppgjöf Þjóðverja.

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Árið 1942 fyrirskipaði Adolf Hitler að reist skyldi fimm þúsund kílómetra langt varnarvirki, Atlantshafsveggurinn, meðfram ströndum Norður-Evrópu til að hindra hugsanlega innrás bandamanna á meginland Evrópu. Sá veggur kom þó að litlu gagni því tveimur árum síðar, 6. júní 1944, fyrir réttum 80 árum, gerðu bandamenn innrás í Normandí í Frakklandi sem markaði þáttaskil í heimsstyrjöldinni síðari. Styrjöldinni í Evrópu lauk 11 mánuðum síðar með uppgjöf Þjóðverja.

Tvö ár í byggingu

Atlantshafsveggurinn svonefndi var sambland af skotbyrgjum, fallbyssuhreiðrum, skriðdrekagildrum og öðrum hindrunum sem lágu allt frá vesturströnd Frakklands, gegnum Holland, Belgíu og Danmörku til Norður-Noregs Yfir 20 milljónir rúmmetra af steinsteypu og 1,2 milljónir tonna af stáli voru notaðar til að reisa þessi virki sem síðan voru tengd saman með gaddavírsgirðingum. Yfir 300 þúsund verkamenn unnu að gerð virkjanna í Frakklandi einu, sumir þeirra stríðsfangar en einnig óbreyttir borgarar sem vantaði vinnu. Víða voru íbúar reknir frá heimilum sínum á svæðunum og heilu þorpin voru rifin til að rýma fyrir virkjunum, sem tók rúm tvö ár að byggja.

Í Amsterdam höfuðborg Hollands voru þúsundir húsa, sjö skólar, þrjár kirkjur og tvö sjúkrahús rifin í nafni Evrópuvirkisins.

Þegar líða fór á árið 1944 og innrás bandamanna virtist yfirvofandi var hershöfðingjanum Erwin Rommel falið að treysta varnirnar á norðurhluta Frakklands en þar voru enn stór göt á Atlantshafsveggnum. Rommel lét flytja yfir tvö þúsund skriðdreka, fallbyssur og skriðdrekabana á strönd Normandí, þar á meðal svonefnda tékkneska broddgelti, stálgadda sem áttu að tálma ferðum skriðdreka, og tréstaura, sem nefndir voru Sperglar Rommels, til að reyna að koma í veg fyrir að svifflugur og fallhlífarhermenn gætu lent á svæðinu. Þá var yfir fimm milljónum jarðsprengna komið fyrir.

En Atlantshafsveggurinn reyndist gagnlítill þegar 156 þúsund manna innrásarlið bandamanna lenti á ströndum Normandí þar sem um 80 þúsund þýskir hermenn voru til varnar. Mannfall í röðum Bandaríkjamanna var mikið, einkum á Omaha-strönd þar sem hermenn lentu á mjórri strönd neðan við háa kletta. En það tók breska, franska, bandaríska og kanadíska hermenn aðeins nokkra daga að ná ströndinni á sitt vald og í lok júní höfðu yfir 800 þúsund hermenn og yfir 100 þúsund skriðdrekar og brynvarin ökutæki verið flutt þangað. Þjóðverjar gáfust síðan upp 8. maí árið eftir.

Söfn og íbúðir

Leifar af Atlantshafsveggnum má enn sjá víða á ströndum í Norður-Evrópu þótt mörg virki hafi grafist í sand eða sokkið í sæ. Sumum skotbyrgjum hefur verið breytt í söfn, þar á meðal í Batz-sur-Mer í Frakklandi, Ostend í Belgíu, Hirtshals í Danmörku og Noordwijk í Hollandi.

Í Cherbourg í Frakklandi hafa graffarar breytt einu skotbyrginu í geimskip, og í Saint-Pabu á Bretagne-skaga hefur öðru verið breytt í Airbnb-leiguíbúð. Hollenska ríkisstjórnin stofnaði árið 2014 til árlegs skotbyrgjadags þar sem byrgin eru opnuð fyrir almenningi.

Oliver Morin ljósmyndari AFP-fréttastofunnar ferðaðist um svæðið nú í vor og tók myndir af hálfhrundum skotbyrgjum og virkjum og hluti þeirra mynda sést hér á síðunni.