Jón Norðfjörð
Jón Norðfjörð
Ég segi bara hreinskilnislega, ég get ekki skilið af hverju fólk ætlar að kjósa einhvern annan en Arnar Þór.

Jón Norðfjörð

Eins og flestir vita sem hafa fylgst með skrifum mínum að undanförnu, þá er ég harður stuðningsmaður Arnars Þórs Jónssonar í væntanlegum forsetakosningum. Ástæðan fyrir stuðningi mínum við hann er einföld. Hann er eini frambjóðandinn sem talað hefur skýrt til þjóðarinnar um nauðsyn þess að standa vörð um lýðræðið og fullveldið vegna ásælni erlends valds og vegna veikburða Alþingis. Eins og Arnar segir: „Ef við stjórnum ekki okkar eigin landi, munu aðrir bjóðast til að gera það fyrir okkur.“ Arnar hefur meðal annars sagt að stjórnálamenn hafi of lengi umgengist lýðveldið Ísland eins og að það sé einkafyrirtæki þeirra. Hann vill verja þjóðina fyrir ofstjórn, ofríki og spillingu. Margar fleiri ástæður eru fyrir afstöðu minni til Arnars sem ég gæti talið upp, en fólk getur auðveldlega hlustað á viðtöl við hann og lesið skrif hans til að fræðast betur um skoðanir hans. Ég segi bara hreinskilnislega, ég get ekki skilið af hverju fólk ætlar að kjósa einhvern annan en Arnar Þór. Þess vegna ákvað ég að kanna málið og spyrja fólk um afstöðu þess til forsetaframbjóðendanna.

Ég spurði nokkra aðila og fékk mismunandi svör. Sumir sögðust enn óákveðnir eða vildu ekki gefa mér upp hver yrði fyrir valinu. Svo voru aðrir ófeimnir við að segja mér hvern þeir ætla að kjósa. Ég ætla að nefna hér svör þriggja aðila, en enginn þeirra ætlaði að kjósa sama frambjóðandann. Þau vissu öll að ég er fylgjandi Arnari Þór.

Fyrsta dæmið sem ég nefni er af konu um þrítugt sem sagðist ætla að kjósa Höllu Hrund. Ég spurði um ástæðu og hún svaraði á þessa leið: „Halla er örugglega mjög klár kona og svo finnst mér svo bjart yfir henni og hún er líka með mjög falleg augu.“ Ég spurði hvort hún þekkti hana eitthvað og hvort það skipti máli að frambjóðandi væri með falleg augu. Hún sagðist ekki þekkja Höllu neitt, en að útlit skipti í sínum huga máli. Við ræddum málið nokkra stund, en ekki komu fleiri ástæður fyrir vali hennar, en ég vona að hún sjái mikilvægi þess að kjósa Arnar Þór fyrir framtíð unga fólksins.

Annað dæmi er af manni um fimmtugt sem sagðist ætla að kjósa Baldur. Ástæðuna sagði hann vera að sér litist mjög vel á hann og svo taldi hann Baldur hafa réttu menntunina í starfið. „Svo fáum við tvo fyrir einn ef hann nær kjöri,“ bætti hann við og ég spurði þess vegna hvort það skipti máli að Baldur væri samkynhneigður. Hann játti því og sagði að Baldur hefði sjálfur talað um að það skipti máli. „Það væri gaman fyrir þjóðina ef Baldur yrði fyrsti samkynhneigði forsetinn í heiminum sem væri þjóðkjörinn,“ sagði hann. Hann sagðist ætla að hafa Arnar Þór í huga ef hann skipti um skoðun.

Þriðja og síðasta dæmið sem ég nefni er af manni sem kominn er á eftirlaun og er hættur að vinna. Hann sagðist hafa verið dálítið ráðvilltur og á tímabili hefði hann verið ákveðinn í að kjósa Höllu Tómasdóttur af því að frænka hans talaði svo vel um hana. „En nú er það orðið breytt og ég reikna frekar með að kjósa Katrínu,“ sagði hann. Ég spurði hvers vegna hann hefði skipt um skoðun: „Ég hef fylgst með Katrínu á facebook undanfarið og sé að margir eldri borgarar ætla að kjósa hana,“ sagði hann. Við ræddum málið áfram og ég sagðist undrandi á eldri borgurum sem ætla að kjósa Katrínu. Ég nefndi ýmislegt í því sambandi og benti honum meðal annars á að í kosningabæklingum VG fyrir alþingiskosningar 2017 sem Katrín kynnti fyrir kjósendum og talaði fyrir hafi komið skýrt fram að bæta þyrfti kjör eldra fólks með því að hækka ellilífeyri, hann ætti að fylgja launakjörum og tryggja að enginn væri lengur undir fátæktarmörkum. Ég sagði honum að ég gæti hvergi fundið merki þess að Katrín hefði beitt sér fyrir leiðréttingu fyrir eldri borgara með nokkrum hætti þó að hún hefði lofað því og verið í góðri aðstöðu til þess sem forsætisráðherra síðastliðin sjö ár.

Samtal okkar endaði á því að hann ætlar ekki að kjósa Katrínu og hann lofaði mér því að hlusta og kynna sér betur hugmyndir og skoðanir Arnars Þórs.

Það er fróðlegt að ræða þessi mál við fólk og finna hvað viðmið og skoðanir eru misvísandi þegar fólk er að gera upp hug sinn til forsetaframbjóðenda. Sumir fullyrða að forsetinn hafi lítil sem engin völd, en ég er algjörlega ósammála því. Ég tel að forsetinn hafi góða aðstöðu og raunveruleg völd sem geta nýst okkar góða þjóðfélagi þegar þörf krefur. Að lokum ætla ég enn og aftur að hvetja fólk til að kjósa Arnar Þór Jónsson og stuðla með því að vörn fyrir lýðræði og fullveldi þjóðarinnar.

Höfundur er áhugamaður um gott þjóðfélag.