Adam Spanó fæddist 4. nóvember 2005. Hann lést 16. janúar 2024.

Útför fór fram 30. janúar 2024.

Síminn hringdi eldsnemma miðvikudagsmorguninn 17. janúar sl., okkur tilkynnt að elsku Adam minn væri dáinn. Hjarta mitt stöðvaðist um stund, þvílík sorg og þvílíkur harmleikur.

Frumbernskan markaði líf elsku Adams míns fyrir lífstíð. Hann var um það bil fjögurra ára þegar hann kom til að eiga heima hjá okkur afa og Öddu, sem hann kallaði ávallt systur sína, enda mjög fallegt samband á milli þeirra. Adda reyndist honum afar vel, var alltaf „haukur í horni“.

Það var ekki auðvelt fyrir elsku Adam minn að flytja til okkar, enda mikið búið að ganga á í hans lífi nánast frá fæðingu, sem reyndi mjög á hann. Smám saman ávannst traust og hann byrjaði að njóta sín. Fátt hefur yljað meira um hjartaræturnar hjá mér, en nánast frá fyrsta degi kallaði Adam mig ömmu en við vorum ekki blóðskyld.

Adam minn byrjaði fimm ára í Landakotsskóla, þar sem honum leið mjög vel, auk þess sem hann stundaði fimleika og parkúr hjá Ármanni, síðan fór hann í körfubolta hjá KR og enn seinna byrjaði hann að stunda box hjá Mjölni.

En á hjarta hans var sár sem aldrei greri og var stöðugt að minna á sig.

Árin liðu, Adam minn, þá kominn í Norðlingaskóla, varð að hávöxnum gullfallegum ungum manni með suðrænt útlit, eins og hann átti kyn til. Hann hafði stóran persónuleika og skap. Hann var mjög dulur á tilfinningar sínar og viðkvæmur. Adam minn var sérlega orðheppinn og skemmtilegur með einstakt skopskyn. Hann passaði alltaf upp á að allir færu jafnir frá borðinu, ef honum fannst á einhvern hallað. Hann var góður drengur, með svo hlýjan og breiðan faðm. Adam minn var listhneigður, setti saman lög, sem til stendur að gefa út, einnig hefði hann sómt sér vel á fjölum leikhúsa. Ég gleymi ekki þegar hann var valinn í hlutverk trúðs í leikriti sem sýnt var í Landakotsskóla. Þar fór fallegi minn á kostum. Einnig setti hann upp ýmsar skemmtilegar „senur“ hér heima.

Elsku Adam minn fékk sín ekki notið, sem var svo sárt, því hann hafði allt til að bera. Sári verkurinn í hjartanu stóð honum fyrir þrifum. Ef til vill voru mistök gerð í frumbernsku, einnig varð elsku Adam minn fyrir sárri reynslu þegar hann var um það bil sex ára, sem reyndi mjög á hann. Adam minn fékk ekki viðeigandi hjálp við áfallinu, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um. Síðan, um jólin fyrir einu og hálfu ári, dundi annað áfall yfir sem elsku Adam minn komst ekki yfir.

Mér verður hugsað til allra yndislegu sumarbústaðaferðanna. Mér verður einnig hugsað til utanlandsferðanna okkar. Þar stendur ferðin til Köben upp úr. Þar vorum við í hálfan mánuð, yfir jól og áramót. Hjól fyrir okkur öll fylgdu íbúðinni sem við höfðum á leigu. Hjólað var vítt og breitt um borgina og veðrið alla dagana var himneskt. Þessa daga var Adam minn í essinu sínu, kunni sér ekki læti, og ekki má gleyma ferðunum til Ítalíu. Þá voru ferðirnar á hverju sumri til ömmu Theu, sem bjó í Danmörku.

Ég syrgi, ég sakna, ég græt, ég þráði svo heitt að fá að sjá fallega Adam minn glaðan og hamingjusaman og umfram allt hlakka til hvers dags.

Ég bið til Guðs að þér líði betur núna. Takk, ástin mín, að vera til staðar þegar ég fór í gegnum erfiðan tíma í mínu lífi. Með persónutöfrum þínum og nærveru hreinlega bjargaðir þú mér.

Ég kveð þig eins og þú kvaddir mig alltaf: „Ég elska þig.“

Alltaf þín, knús og margir kossar.

Amma Sigrún.