Ole Anton Bieltvedt
Ole Anton Bieltvedt
Hvorri væri betur treystandi til að beita þeim öflugu verkfærum sem forsetaembættið býr yfir?

Ole Anton Bieltvedt

Ef stjórnmálin vilja fara aðra leið en þjóðin, eða ef forsetinn metur það svo að stefna stjórnmálamanna í tilteknu máli fari ekki saman við hagsmuni landsmanna, þá muni hann grípa inn í og leggja málið fyrir þjóðina. Þetta er fyrsta vænting þjóðarinnar til nýs forseta. Þetta er grunneftirlits- og öryggishlutverk forseta. Málskotsrétturinn, hans fyrsta verkfæri.

Það er önnur hlið á valdi forseta, annað verkfæri, sem skiptir kannski ennþá meira máli; veiting stjórnarmyndunarumboðs. Um þetta virðist enginn hugsa eða ræða.

Það er algjörlega á valdi forseta eftir hverjar alþingiskosningar hverjum hann veitir stjórnarmyndunarumboð. Þar gildir reyndar að nokkru hefð, en hún er óljós og hana getur forseti túlkað samkvæmt eigin sjónarmiðum og mati.

Á stærsti flokkurinn eða sá sem sótti mest fram að fá umboðið? Eða á eitthvað annað, kannski blanda atriða, að gilda? Og hvað ef tveir flokkar eða þrír verða álíka stórir eða virðast hafa svipaðan annan rétt til stjórnarmyndunarumboðs?

Sá sem fær umboðið, með réttu eða röngu, reynir auðvitað að nýta það í botn; mynda stjórn, sem getur svo setið í fjögur ár.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa lengi verið helstu stjórnmálaflokkar landsins þó að Samfylkingin hafi sótt nokkuð í sig veðrið í bili. Formenn D og B eru ungir að árum, Bjarni Benediktsson 54 og Sigurður Ingi 62 ára. Guðmundur Ingi, sem tók við af Katrínu Jakobsdóttur hjá VG, 47.

Með formönnum D og B, auk síns eigin manns, hefur Katrín unnið mjög náið í 6-7 ár. Má ætla að náin tengsl, trúnaður og vinátta hafi myndast milli hennar og þessara félaga hennar. Sést það líka á öllum þeim miklu og margvíslegu málamiðlunum, hrossakaupum, sem þau hafa sæst á til að þau gætu haldið áfram sinni nánu samvinnu.

Valdatími og næsta ríkisstjórn

Ef Katrín yrði kosin og sæti í tvö-þrjú kjörtímabil er líklegt að nefndir góðvinir hennar, fyrrverandi samherjar og mátar, Bjarni, Sigurður Ingi og Guðmundur Ingi, myndu enn einoka stjórnmálasviðið. Hvernig mætti Katrín þá rækja forsetaskyldur sínar af fullkomnu hlutleysi og út frá málefnunum einum saman? Samherja- og vinatengsl eru sterk, rista djúpt og skilja eftir sig spor.

Kosið verður til Alþingis 2025. Ef D og S stæðu eftir þær uppi með svipað fylgi og Bjarni væri enn forsætisráðherra, hverjum ætti Katrín, ef forseti væri, þá að veita stjórnarmyndunarumboð? Bjarna eða Kristrúnu? Líklegt er að það þeirra sem fengi umboðið næði að mynda nýja stjórn og tryggja sér völdin til fjögurra ára. Væri Katrínu þarna treystandi, væri þarna sú armslengd sem vera þarf? Þarna myndi ég treysta betur á annan, hlutlausan og óbundinn kandídat, sem sannað hefur fagleg vinnubrögð og stefnufestu í Orkustofnun, Höllu Hrund Logadóttur.

Halla Hrund býr yfir feikigóðri menntun, hérlendri og erlendri, auk umfangsmikillar starfsreynslu á háu kunnáttu- og ábyrgðarstigi. Umfram allt er hún sjálfstæð, hlutlaus – óháð öllum stjórnmálaöflum landsins – og stefnuföst.

Katrín hins vegar hefur nánast allan sinn feril verið á bólakafi í stjórnmálum, þekkir varla neitt annað, og er þar í reynd marg- og rígbundin af sínu langa, nána og djúptæka samstarfi við D, B og VG.

Hverjum myndir þú treysta betur, kjósandi góður, til að beita þeim öflugu verkfærum sem forsetaembættið býr yfir? Ég veðja á Höllu Hrund!

Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni.

Höf.: Ole Anton Bieltvedt