Á bát Patrik býður frítt á útgáfutónleika á Reykjavíkurhöfn.
Á bát Patrik býður frítt á útgáfutónleika á Reykjavíkurhöfn. — Ljósmynd/Anna Maggý Grímsdóttir
Ekkert slær á vinsældir Patriks Snæs Atlasonar en nýverið gaf hann út plötuna PBT 2.0. Þetta er önnur platan hans síðan hann hóf ferilinn en hún inniheldur níu lög. Lagið Skína er á plötunni, en það var eitt vinsælasta lag landsins í fyrra og hefur…

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Ekkert slær á vinsældir Patriks Snæs Atlasonar en nýverið gaf hann út plötuna PBT 2.0. Þetta er önnur platan hans síðan hann hóf ferilinn en hún inniheldur níu lög. Lagið Skína er á plötunni, en það var eitt vinsælasta lag landsins í fyrra og hefur verið streymt meira en tveimur milljón sinnum á streymisveitunni Spotify.

,,Fyrsta platan mín hét PBT, svo ég hugsaði með þessa að þetta væri bara hækkun. Þetta er fínt nafn en þessi plata er stærri og meiri,“ sagði hann í viðtali í Bráðavaktinni með þeim Evu Ruzu og Hjálmari Erni.

Platan hefur fengið góðar viðtökur en á morgun, 31. maí, heldur hann útgáfutónleika á Reykjavíkurhöfn kl. 20:00. Hann býður tónleikagestum frítt inn á svæðið sem er hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Eldingu. Tónleikarnir sjálfir verða á bát en áhorfendur geta notið tónlistarinnar á bryggjunni.

Platan eyðilagðist

Gerð nýju plötunnar gekk þó ekki eins og í sögu heldur eyðilagðist platan, sem varð til þess að hún var endurgerð.

„Platan eyðilagðist, tölvan krassaði hjá pródúsernum og við þurftum eiginlega að gera hana alveg upp á nýtt. Þessar tölvur, það er ekkert hægt að treysta á þetta, algjört drasl.“ sagði Patrik. „Það var ógeðslega leiðinlegt og ógeðslega mikil vinna.“

Hann trúir þó því að þetta hafi gerst af ástæðu. „Ég sagði bara að þetta yrði betra, þetta var ekki nógu gott. Þá voru nokkur lög endurgerð, ný lög komu inn og önnur duttu út. Þetta átti bara að gerast.“

Ekkert gigg of lítið

Nýja platan er frábrugðin þeirri fyrstu að hans sögn. „Þegar maður semur lög þá gerist það ósjálfrátt og ómeðvitað að maður fer ekki í það sama og áður. Maður vill auðvitað ekki gera sama lagið tvisvar. Það var meiri djammtónlist á fyrri plötunni en þessi er aðeins öðruvísi.“

Hann telur að lagið sorry memmig verði það vinsælasta á plötunni en það er þó ekki hans uppáhaldslag. „Uppáhaldslagið mitt á plötunni heitir Föstu á virkum.“

Í tónlistinni reynir hann að búa til grípandi viðlög og texta. „Þegar ég sem lög þá reyni ég að hafa viðlögin grípandi og að það sitji í fólki að þetta sé slangur. Eins og gugguvaktin, er hiti? Fólk verður svo líka að geta notað þetta.“

Undanfarið ár hefur verið viðburðaríkt, hann hefur verið iðinn við að koma fram en þrátt fyrir vinsældir hans segir hann ekkert gigg of lítið. „Ég mæti bara. Ég hef verið að mæta í fermingar og allt, ekkert gigg er of lítið. Við búum á Íslandi svo hvað á maður að gera? Það eru örfá stór, flott gigg á ári.“

Kaupir föt þegar honum leiðist

Það hefur alltaf verið ákveðinn stíll yfir öllu sem Patrik gerir og er hann einnig þekktur fyrir að feta sínar eigin slóðir í tískunni. Hann segir útlitið skipta miklu máli fyrir „merkið“. „Ég drekk ekki og er alltaf á stigavélinni. Ég borða tvisvar á dag en leyfi mér alveg inn á milli. Ég ætti mjög auðvelt með að vera mjög stór, ég elska að borða en ég leyfi mér það ekki. Það er ekki „on brand“.“

Hann segist einnig elska föt. „Ég er með fataveiki. Í gær leiddist mér aðeins, svo ég fór í Smáralind og keypti mér bara eitthvað, bara til að deyfa mig. Mér finnst svo gott þegar manni leiðist að fara og kaupa eitthvað.“

Úr fótboltanum í tónlist

Í æsku stefndi hann alltaf á að verða fótboltamaður en þegar hann fann að það yrði ekki þá fór hann út í tónlist. „Ég man ekki hvenær ég fattaði það en það er alltaf aðeins of seint. Það væri enginn að æfa fótbolta, jafnvel úti í blindbyl á veturna dag eftir dag, nema það væri einhver von um meira einn daginn. En svo fór ég í harkið í tónlistinni,“ segir hann og bætir við að draumurinn um að vera þekktur nái ekki út fyrir landsteinana.

„Það eru engir draumar um að fara með þetta lengra frá Íslandi. Ég var með þráhyggju yfir að vera stór á Íslandi. Þetta er eins og að vera í golfi og vera með þráhyggju yfir því að vera góður í golfi, maður hættir ekki og það er ógeðsleg tilfinning. En ég fæ ekki þessa tilfinningu um að semja á ensku og harka úti. Kannski maður taki Eurovision einn daginn og þá gerist þetta, eða ekki.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild á K100.is.

Höf.: Edda Gunnlaugsdóttir