Reykjanesið Mögulega verða til nokkur örnefni í framtíðinni í tengslum við eldsumbrotin á svæðinu. Tíminn mun leiða það í ljós. Þau fara þá í skrána.
Reykjanesið Mögulega verða til nokkur örnefni í framtíðinni í tengslum við eldsumbrotin á svæðinu. Tíminn mun leiða það í ljós. Þau fara þá í skrána. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Landmælingar Íslands hafa haldið úti gagnagrunni um örnefni í samráði við Árnastofnun. Stofnanirnar gerðu með sér samstarfssamning árið 2007. Í örnefnagrunninn hafa nú verið skráð og hnitsett um 183.000 örnefni og bætast að jafnaði við hann um 10-15.000 örnefni á ári

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Landmælingar Íslands hafa haldið úti gagnagrunni um örnefni í samráði við Árnastofnun. Stofnanirnar gerðu með sér samstarfssamning árið 2007.

Í örnefnagrunninn hafa nú verið skráð og hnitsett um 183.000 örnefni og bætast að jafnaði við hann um 10-15.000 örnefni á ári. Þetta er drjúgur hluti þeirra örnefna sem skráð eru í örnefnasafni Árnastofnunar, en áætlað er að þau gætu verið um 500.000 í allt.

Þessar upplýsingar komu fram á árlegum samráðsfundi Landmælinga Íslands og Árnastofnunar, sem haldinn var á dögunum.

Markmið samstarfsins er að vinna sameiginlega að því að til verði einhlítur gagnagrunnur um íslensk örnefni sem nýtist öllu samfélaginu og að örnefni séu birt með sem réttustum hætti. Lögð er sérstök áhersla á að samræmis sé gætt í því hvernig örnefni eru skráð og hvernig gögnum og upplýsingum um þau er miðlað til samfélagsins.

Mikið verk fyrir höndum

„Ljóst er því að mikið verk er enn þá fyrir höndum. Skráning í örnefnagrunninn fer fram í samvinnu Landmælinga Íslands við heimildarmenn vítt og breitt um landið, enda fást upplýsingar um nákvæma staðsetningu flestra óskráðra örnefna ekki nema frá fólki sem þekkir örnefnin,“ segir í tilkynningu um samráðsfundinn á vef Árnastofnunar.

Þar kemur enn fremur fram að stofnunin veiti ráðgjöf til almennings og stofnana um söfnun, skráningu og varðveislu örnefna og jafnframt um nýjar nafngiftir.

Fólk í nærumhverfi á jafnan frumkvæði að nýjum örnefnum. Til dæmis gera eigendur eða ábúendur jarða tillögur að nöfnum á býlum og nýjum náttúrufyrirbærum og nefndir á vegum sveitarfélaga tillögur að nýjum nöfnum á götum og torgum. Ráðgjöf stofnunarinnar miðar að því að nafngiftir samræmist markmiðum laga um örnefni sem meðal annars lúta að varðveislu nafngiftahefða.

Hægt er að hafa samband um netfangið nafn@arnastofnun.is.

Í lok árs 2021 var nýr vefur Árnastofnunar, nafnið.is / nafnid.is, formlega opnaður. Vefurinn veitir aðgang að örnefnasafni Árnastofnunar sem nú er orðið leitarbært í heild sinni. Verkefnið var unnið í samstarfi við Landmælingar Íslands.

Á vefnum verða gögn um nöfn af ýmsu tagi aðgengileg á einum stað. Í fyrsta áfanga verkefnisins er unnið að skráningu örnefnasafns Árnastofnunar en um er að ræða hátt í 14.000 skjöl sem innihalda rúmlega hálfa milljón örnefna.

Landmælingar Íslands hafa unnið stöðugt að hnitsetningu þessara örnefna í Örnefnagrunni LMÍ og hafa um 30% þeirra verið staðsett á kortagrunni.

Hjá Árnastofnun er starfandi nafnfræðisvið. Nafnfræði er fræðigrein sem fæst við rannsóknir á nöfnum með áherslu á orðsifjar, uppruna og merkingu nafna en einnig beygingar þeirra. Á menningarsviði eru stundaðar rannsóknir í nafnfræði og unnið að margvíslegum verkefnum sem tengjast örnefnum, m.a. í samstarfi við Landmælingar Íslands og Þjóðskrá Íslands.

Náma fyrir rannsóknir

„Örnefni á við vissa einingu í landslagi eða landsvæði, þ.e. merkir nafn á einhverjum stað. Örnefnafræði er sú undirgrein nafnfræðinnar sem fæst við skýringar á örnefnum og hvernig þau tengjast staðháttum, sögu og menningu íbúanna. Örnefnasafn stofnunarinnar, sjá nafnið.is, er náma fyrir rannsóknir á örnefnum,“ segir á vef Árnastofnunar.

Fyrr í þessum mánuði samþykkti Alþingi lög um nýja Náttúrufræðistofnun. Samkvæmt þeim lögum verða Landmælingar Íslands hluti af stofnuninni. Lýkur þar með tæplega 70 ára sögu Landmælinganna sem sjálfstæðrar stofnunar en hún var stofnuð árið 1956.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson