Hagspá Spáð að íbúðaverð muni væntanlega hækka nokkuð að raunverði næstu misserin. Þá er gert ráð fyrir minni útflutningstekjum en áður.
Hagspá Spáð að íbúðaverð muni væntanlega hækka nokkuð að raunverði næstu misserin. Þá er gert ráð fyrir minni útflutningstekjum en áður. — Morgunblaðið/Eggert
Eftir kraftmikinn hagvaxtarkipp árin 2021-2022 varð viðsnúningur í vaxtartaktinum á síðasta ári og fór hagvöxtur frá því að vera 8,9% á fyrsta fjórðungi ársins niður í 0,6% á fjórða ársfjórðungi. Greining Íslandsbanka spáir því að hagvöxtur verði lítill á þessu ári en glæðist svo á ný á næstu árum

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Eftir kraftmikinn hagvaxtarkipp árin 2021-2022 varð viðsnúningur í vaxtartaktinum á síðasta ári og fór hagvöxtur frá því að vera 8,9% á fyrsta fjórðungi ársins niður í 0,6% á fjórða ársfjórðungi.

Greining Íslandsbanka spáir því að hagvöxtur verði lítill á þessu ári en glæðist svo á ný á næstu árum. Þetta kemur fram í nýrri Þjóðhagsspá Íslandsbanka sem birt var í morgun. Því er spáð að hagvöxtur mælist 0,9% á þessu ári.

„Það er býsna hægur vöxtur í sögulegu tilliti og árið markar í raun hagsveifluskil þótt líklega verði ekki samdráttur á ársgrundvelli. lengra líður á árið. Á næsta ári teljum við að hagvöxtur verði 2,3%. Á árinu 2026 er útlit fyrir 2,6% hagvöxt og vegur vaxandi innlend eftirspurn þyngra en hægari útflutningsvöxtur það ár,” segir í spánni.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir í samtali við Morgunblaðið að komið sé í ljós að útflutningurinn verði töluvert veikari. Þá vegi það þungt að ferðaþjónustan verði að öllum líkindum ekki eins sterk í sumar og greiningaraðilar gerðu ráð fyrir.

„Þeir sem þekkja til í geiranum tala um að spurn til hinna Norðurlandanna sé að aukast á kostnað Íslands. Þá hefur dregið úr ferðaþorsta fólks á heimsvísu eftir Covid,” segir Jón Bjarki.

Misvísandi teikn á lofti

Í spánni kemur fram að eftir talsverðan bata á utanríkisviðskiptum í fyrra sé útlit fyrir að hóflegur viðskiptaafgangur verði allt spátímabilið. Þó er útlit fyrir talsvert minni útflutningsvöxt í ár en áður var spáð, bæði vegna hægari fjölgunar ferðamanna en vænst var sem og loðnubrests.

Þá kemur fram að verðbólga hafi hjaðnað talsvert eftir verðbólguskot síðustu ára. Allnokkur þróttur er þó enn bæði í vinnumarkaði og íbúðamarkaði þótt fremur hófsamir kjarasamningar á stórum hluta almenns vinnumarkaðar hafi dregið úr óvissu um launaþróun næstu árin. Horfur eru á að atvinnuleysi aukist lítillega en kaupmáttur launa vaxi nokkuð á spátímanum. Þá er spáð að íbúðaverð muni væntanlega hækka nokkuð að raunverði næstu misserin.

„Verðbólgan mun líklega mælast tæplega 6% að jafnaði á þessu ári en hjaðna niður undir 3% á spátímanum. Þrálát verðbólga kallar á áframhaldandi aðhald Seðlabankans en þó eru líkur á því að hægfara vaxtalækkunarferli hefjist á seinni helmingi síðasta árs. Mun því trúlega ljúka með stýrivexti nærri 5,5%, sem við teljum líklega nærri jafnvægisvöxtum um þessar mundir,” segir í spánni.

Jón Bjarki segir að misvísandi teikn séu á lofti. Einkaneysla og fjárfesting sé að dragast saman en á sama tíma sé þó töluverð seigla í íbúðamarkaðnum og vinnumarkaðnum.

„Að því leytinu til er Seðlabankanum vandi á höndum. Ef hann ætlar að bíða alfarið eftir því að þeir markaðir sýni skýr merki um slaka getum við verið komin í knappa stöðu.”

Spá Íslandsbanka

Spáð er 0,9% hagvexti árið 2024, 2,3% 2025 og 2,6% 2026

Verðbólga verði að meðaltali 5,9% árið 2024, 3,6% árið 2025 og 3,1% 2026

3,9% atvinnuleysi að jafnaði á þessu ári, 4,1%, árið 2025 og 4,0% 2026

Stýrivextir verði að jafnaði 7,5% á næsta ári og 5,5% árið 2026

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir