Gísli Kr. Björnsson
Gísli Kr. Björnsson
Neitunarvald forseta þýðir einmitt það; að treysta þjóðinni í erfiðum málefnum sem varða þjóðarhagsmuni.

Gísli Kr. Björnsson

Það var ánægjulegt að sjá viðtal við tvo unga menn í fréttatíma RÚV 27. maí sl. sem sögðust hafa kynnt sér vel frambjóðendur í forsetakosningunum í ár. Í mörg ár hafa stjórnmálamenn og -skýrendur haft áhyggjur af kjörsókn okkar Íslendinga, sem allt fram að lokum síðustu aldar var jafnan góð. Eftir hrunið virtist þátttaka kjósenda fara dvínandi, einkum meðal ungra kjósenda. Svíar upplifðu svipaða þróun eftir hrunið í Svíþjóð á árinu 1994.

Það sem vakti einkum athygli mína var að báðir þessir menn sögðust ætla að kjósa Arnar Þór Jónsson til að gegna embætti forseta eftir að hafa kynnt sér frambjóðendur og málefni þeirra. Í mínum huga gerðist tvennt: Ég fagnaði áhuga ungu mannanna á kosningunum, kynslóðum unga fólksins til heilla, og síðan sú staðreynd að sjálfur er ég stuðningsmaður Arnars Þórs.

Forsetaembættið hefur hingað til verið talið einhvers konar „silkiembætti“ þar sem sá eða sú sem gegnir því má varla mæla orð gegn stjórnarháttum landsins. Ríkisstjórnir hafa komist upp með alls kyns lagafrumvörp í skjóli þess trausts að forsetinn, sem heldur á neitunarvaldi lagasetninga, muni ekki beita þessu valdi sínu. Þótt fáir og jafnvel enginn sé andvígur aðild að EES, þá er öllum ljóst sem þekkja til lagasetningar þar um að þeirri ákvörðun átti forsetinn að neita um staðfestingu og þar með setja úrslitavaldið í hendur þjóðarinnar, sem er jú sá lýðræðislegi aðili sem tekur ákvörðun um stjórnskipan landsins þegar stjórnarskrá og stjórnskipun sleppir. Neitunarvald forseta þýðir einmitt það; að treysta þjóðinni í erfiðum málefnum sem varða þjóðarhagsmuni.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga á næstu árum þegar búast má við frekara samstarfi á sviði samstarfs við erlend öfl, s.s. ESB og NATO. Þá verður að vera hægt að treysta forsetanum til að treysta þjóðinni til að ákveða hvað hún vill.

Arnar Þór hefur í störfum sínum sýnt það og sannað að hann er óhræddur við að synda á móti straumnum. Hann hefur ekki síst sýnt að hann tekur ígrundaðar ákvarðanir að vel athuguðu máli. Arnar hefur birst þjóðinni á síðustu misserum sem maður með hlýtt hjarta en kalt höfuð. Þannig maður þarf að sitja á Bessastöðum, sem virðir þjóðarhagsmuni umfram sína eigin, og er fær um að láta skynsemi ráða för.

Höfundur er lögmaður í Reykjavík.