Afhending Dr. Patti Hill og Kristján Sverrisson við afhendingu gjafarinnar.
Afhending Dr. Patti Hill og Kristján Sverrisson við afhendingu gjafarinnar. — Morgunblaðið/Eggert
Lionsklúbbarnir Njörður og Víðarr, með styrk frá Lions International, afhentu Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) veglega gjöf í byrjun vikunnar. Um er að ræða mælitæki og búnað til heyrnarmælinga barna að verðmæti um 13 milljónir króna

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Lionsklúbbarnir Njörður og Víðarr, með styrk frá Lions International, afhentu Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) veglega gjöf í byrjun vikunnar. Um er að ræða mælitæki og búnað til heyrnarmælinga barna að verðmæti um 13 milljónir króna. Afhending gjafarinnar fór fram í Lionsheimilinu í Reykjavík í móttökuhófi fyrir alþjóðaforseta Lions, dr. Patti Hill, vegna heimsóknar hennar til landsins.

Kristján Sverrisson forstjóri HTÍ segir að fulltrúar Lionsklúbbanna hafi haft samband í byrjun árs og spurt hvort þeir gætu létt undir með stöðinni eftir að hafa frétt af bágri aðstöðu og löngum biðlistum barna og fullorðinna. Hann hafi sent styrktarsjóði klúbbanna lista yfir nauðsynleg tæki og bauð þeim velja eitthvað eða einhver tæki eftir því hvað þeir teldu við hæfi.

„Skömmu síðar hringja Lionsmenn aftur og segjast vilja reyna að kaupa sem flest af þeim tækjum sem á listanum væru,“ segir Kristján sem kveðst hafa orðið orðlaus með öllu.

Eins og komið hefur fram í fréttum Morgunblaðsins og mbl.is hefur HTÍ um langt skeið búið við fjársvelti. Afleiðing lélegs tækjabúnaðar er starfsmannaflótti og mannekla. Biðlistar hafa sífellt lengst og jafnvel börn á aldrinum 0-18 ára, sem eru forgangshópur hjá HTÍ, hafa þurft að bíða í 6-12 mánuði eftir þjónustu.

Kristján segir að gjöfin nær tvöfaldi tækjabúnað HTÍ og sérstaklega búnað til mælinga og rannsókna á börnum. Það létti róðurinn meira en orð fá lýst. „Nú er unnið að lausn á húsnæðismálum stofnunarinnar en enn þarf að bæta úr manneklu og fjármögnun til þess að bæta þjónustu og geta dregið úr biðlistum en nú þarf ekki að hafa áhyggjur af tækjakosti næstu árin.“

Hann segir að nýju tækin geri stofnuninni einnig kleift að taka að sér alla verklega kennslu og þjálfun fyrir þá nemendur sem hefja nám í heyrnarfræðum í fyrsta sinn á Íslandi í haust. Með tilkomu námsins er vonast til að leystur verði mönnunarvandi heyrnarþjónustu á Íslandi en síðasta áratuginn hefur þurft að ráða erlenda heyrnarfræðinga í síauknum mæli til að sinna heyrnarþjónustu hér á landi.