Nýr söngleikur Anna Bergljót, hér fyrir miðri mynd, hlakkar til að kynna Íslendingum hinn íslenska Bangsímon.
Nýr söngleikur Anna Bergljót, hér fyrir miðri mynd, hlakkar til að kynna Íslendingum hinn íslenska Bangsímon. — Morgunblaðið/ Kristinn Magnússon
„Nú erum við á leiðinni í gegnum Hundraðekruskóg en það er svo skemmtilegt að Lotta hefur búið inni í ævintýraskóginum frá árinu 2007 og þar leynast ýmsir krókar og kimar. Inni í skóginum er til dæmis að finna annan minni skóg, sem við köllum…

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Nú erum við á leiðinni í gegnum Hundraðekruskóg en það er svo skemmtilegt að Lotta hefur búið inni í ævintýraskóginum frá árinu 2007 og þar leynast ýmsir krókar og kimar. Inni í skóginum er til dæmis að finna annan minni skóg, sem við köllum Hundraðekruskóg, og þar búa Bangsímon og vinir hans,“ segir Anna Bergljót Thorarensen, leikstjóri og höfundur söngleiksins um Bangsímon sem Leikhópurinn Lotta setur upp í sumar. Að vanda mun hópurinn ferðast með sýninguna um allt land en sjálf frumsýningin fer fram á Patreksfirði á morgun, 31. maí, og er það í fyrsta sinn sem slík sýning fer fram úti á landi en ekki á heimavellinum, Lottutúni í Elliðaárdalnum. Líkt og áður verður Lotta með um 70 sýningar í sumar og segir Anna Bergljót planið orðið frekar fastmótað.

„Við ferðumst alltaf í kringum allt landið og heimsækjum alla landshluta. Við sýnum þó oftast á heimavellinum, sem er Elliðaárdalurinn, alla miðvikudaga en þess á milli þvælumst við um allt land.“

Dottinn úr höfundarrétti

Innt eftir því hvers vegna verk um þennan ástsæla bangsa, sem allir að sjálfsögðu þekkja, hafi orðið fyrir valinu að þessu sinni segir Anna Bergljót svarið ósköp einfalt.

Bangsímon er búinn að vera lengi á lista hjá okkur enda ótrúlega skemmtilegir karakterar í Hundraðekruskógi. Ég skal alveg viðurkenna að ég er búin að vera að bíða eftir að fá að leika mér að þeim. Ástæðan fyrir því að verkið er valið núna er einfaldlega sú að þeir voru að detta úr höfundarrétti,“ segir hún og bætir því við að nú sé 101 ár síðan fyrsta sagan um Bangsímon var skrifuð.

„Þetta hefur lengi verið uppáhaldssaga hjá mér en hún var lesin fyrir mig þegar ég var lítil og síðan horfði ég auðvitað á Disney-myndirnar eins og allir aðrir krakkar.“ Segir hún jafnframt að persónurnar séu svo einstaklega áhugaverðar þar sem þær séu svo ólíkar.

„Það er svo merkilegt að í Hundraðekruskógi er enginn vondur sem er mjög óvanalegt í ævintýrum þar sem alltaf er einhver norn, úlfur eða einhver óvættur eins og tröll. Í Hundraðekruskógi eru allir góðir en samt getur svo margt gerst og það er búið að vera alveg ótrúlega gaman að leika sér að þessu.“

Hinn íslenski Bangsímon

Í fyrstu var hópurinn þó hræddur um að með valinu á verkinu héldi fólk að sýningin væri einungis ætluð yngstu áhorfendunum.

„Við vorum svolítið hrædd um að við værum að skjóta yfir markið og missa eldri áhorfendurna því við erum líka vön að vera með svo mikið af fullorðinshúmor en við erum búin að vera svo lengi í þessu að Lottubragurinn kom náttúrlega bara strax, bæði í handritið og síðan í leikinn, þannig að við erum alveg búin að komast að því að þetta er bráðfyndið fyrir börn og fullorðna. Ég get eiginlega ekki beðið eftir að kynna Íslendingum hinn íslenska Bangsímon,“ segir Anna Bergljót og hlær. „Það var einhvern veginn skrýtið að hafa áhyggjur af því fyrir fram að eldri börn og fullorðnir hefðu ekki jafn gaman af þessu verki því það kom strax í ljós að þær áhyggjur voru óþarfar. Við höfum alltaf lagt mikið upp úr því að það sé gaman fyrir alla á sýningunum okkar og þar af leiðandi er þetta náttúrlega líka skrifað með það í huga.“

Komin á rétt ról aftur

Þá segir Anna Bergljót sýningarnar alltaf hafa verið vel sóttar og gaman að sjá nýjar kynslóðir mæta á þær. „Á þessum 17 árum, síðan við hófum sýningar, hefur áhorfendahópurinn endurnýjast. Þetta er í fyrsta sinn núna sem við erum að koma með nýtt verk eftir fjögurra ára „hálfgerða“ pásu. Það kom auðvitað covid sem ruglaði mikið í okkur eins og öðrum svo þrjú ár í röð settum við upp gömul verk, eitthvað sem við höfðum gert áður.“ Tekur hún fram að það hafi bæði verið gert til að spara pening en eins hafi þau ekki getað haft opnar sýningar á þessum tíma. „Þess vegna vorum við með styttri sýningar í tvö ár. Í fyrra gátum við loksins verið með klukkutímalanga sýningu, eins og við erum vön, en vorum að vinna með endurunnið efni þar sem við vorum enn þá í fjárhagskröggum eftir covid. Núna finnst okkur svolítið eins og við séum í alvöru komin á rétt ról, farin að semja aftur og búin að taka upp útvarpsleikritið sem verður gefið út 1. júní á Spotify. Það er því extra spenningur í hópnum núna.“

Sagði upp hjá Glitni fyrir Lottu

Spurð út í velgengi og vinsældir Lottu og hvort leikararnir hafi séð það fyrir í upphafi að hópurinn yrði svona farsæll segir Anna Bergljót svo ekki vera. „Nei, alls ekki. Þegar við vorum að byrja þá vorum við öll að koma úr áhugaleikhúsunum. Leikhópurinn Lotta var stofnaður sem áhugaleikhópur þó að núna sé hann orðinn atvinnuleikhópur og allir innan hans orðnir sprenglærðir. Þá vorum við vön að fá bara fáa áhorfendur á sýningu hjá okkur og sýna kannski 6-7 sinnum þau verk sem við vorum að flytja en við vorum samt sem áður stórhuga,“ segir hún og skýrir frá því þegar hópurinn tók yfirdráttarheimild til að kaupa bæði bíl og kerru. „Þetta var alls ekki hugsað sem vinnan okkar því þetta var bara áhugamál. Fyrsta sýningin okkar var Dýrin í Hálsaskógi svo við byrjuðum ekki á að semja heldur tókum verkið alveg eins og það kom af kúnni. Markmiðið var svolítið að ná að borga upp yfirdráttinn þannig að við gætum átt bílinn, kerruna og ferðast með svona barnasýningu um landið.“ Þá segir hún fleiri áhorfendur hafa mætt á frumsýninguna en á allar sýningar samanlagt í áhugaleikhúsunum.

„Auðvitað hafði þar eitthvað að segja að við vorum að flytja svona þekkt verk en það liðu til dæmis bara tveir mánuðir þar til ég sagði upp vinnunni minni í verðbréfaþjónustu Glitnis og ákvað að snúa mér alfarið að þessu. Þannig að þótt við hefðum ekki vitað það í maí þegar við lögðum af stað þá vorum við fljót að átta okkur á að við vorum að gera eitthvað rétt,“ segir hún að lokum.