— AFP
Minnst 29 týndu lífi þegar rútubíll fór út af veginum og valt niður bratta fjallshlíð í suðvesturhluta Pakistans. Bíllinn var í reglulegum áætlunarakstri þegar slysið varð. Ástæða þess að rútan fór út af veginum er enn óljós og er ökumaður á meðal hinna látnu

Minnst 29 týndu lífi þegar rútubíll fór út af veginum og valt niður bratta fjallshlíð í suðvesturhluta Pakistans. Bíllinn var í reglulegum áætlunarakstri þegar slysið varð. Ástæða þess að rútan fór út af veginum er enn óljós og er ökumaður á meðal hinna látnu.

Fréttaveita AFP greinir frá því að 20 hafi verið fluttir á sjúkrahús og eru sumir þeirra sagðir lífshættulega slasaðir. Ökumaðurinn lést á sjúkrahúsi skömmu eftir komuna þangað og minnst 28 til viðbótar eru látnir. Ekki er útilokað að sú tala eigi eftir að hækka.

Farþegar rútubílsins virðast hafa verið á öllum aldri. Sjónarvottar segja karlmenn, konur og börn á meðal hinna látnu.

Ljóst er að slysið var afar harkalegt og er rútubíllinn illa útleikinn eftir veltuna. Slys sem þessi eru tíð í Pakistan.