Kúpur Bein liðinna manna bera enn merki um læknistilraunir.
Kúpur Bein liðinna manna bera enn merki um læknistilraunir. — AFP/Simon Wohlfahrt
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Vísindamenn telja fullvíst að Forn-Egyptar hafi gert tilraunir með krabbameinslækningar. Hafa fundist höfuðkúpur fólks sem var uppi fyrir þúsundum ára og bera þær enn merki þess að viðkomandi hafi gengist undir skurðaðgerð sem fjarlægja átti krabbameinsæxli.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Vísindamenn telja fullvíst að Forn-Egyptar hafi gert tilraunir með krabbameinslækningar. Hafa fundist höfuðkúpur fólks sem var uppi fyrir þúsundum ára og bera þær enn merki þess að viðkomandi hafi gengist undir skurðaðgerð sem fjarlægja átti krabbameinsæxli.

„Þessi uppgötvun er einstök og varpar ljósi á læknisfræðilegar tilraunir Forn-Egypta við að skilja eða lækna krabbamein fyrir meira en fjögur þúsund árum,“ sagði vísindamaðurinn Edgard Camaros, en hann er einn þeirra sem komust að þessum tilraunum fornmannanna. Uppgötvunin er sögð setja sögu læknavísindanna í nýtt ljós.

Trúðu ekki eigin augum

Vitað var að Forn-Egyptar lögðu stund á læknisfræði, sem var framandi í samanburði við önnur menningarsvæði þess tíma. Hafa m.a. fundist vísbendingar um eins konar tannplanta og -fyllingar, gervilimi, jurtalyfjanotkun og meðhöndlun á alvarlegum áverkum.

Hauskúpurnar tvær sem rannsakaðar hafa verið eru annars vegar taldar frá árunum 2687 til 2345 f. Kr. og hins vegar 663 til 343 f. Kr. Er önnur þeirra af karlmanni, að líkindum 30 til 35 ára, en hin af konu sem var eldri en 50 ára.

Á báðum kúpum má sjá greinilega skurðáverka í námunda við beinskemmdir eftir æxli. Segja vísindamenn ljóst að tilraun hafi verið gerð til að fjarlægja meinin. „Við hreinlega trúðum ekki okkar eigin augum þegar skurðirnir voru fyrst skoðaðir undir smásjá.“

Uppgötvun þessi er sögð kalla á frekari rannsóknir á læknavísindum fyrri tíma.