Jakobína Lind Ævarr Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 19. mars 1974. Hún lést á heimili sínu 22. apríl 2024.

Hún átti einn bróður, Þórð Kristin, f. í febrúar 1979.

Foreldrar hennar eru Gróa S.Æ. Sigurbjörnsdóttir, f. í janúar 1955, og Jón Þórðarson, f. 9. nóvember 1942, d. 23. október 1988.

Hún bjó með Þorsteini H. Þorbjörnssyni og eignaðist tvo drengi með honum, þá Bjartmar, f. 2003, og Dag Þór, f. 2005.

Hún vann ýmis störf, svo sem við sjómennsku, fiskvinnslu, vegavinnu og afgreiðslu, hún var verslunarstjóri í Nettó um tíma. Hún vann við stækkun flugvallarins á Egilsstöðum og það sem til féll.

Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 30. maí 2024, klukkan 15.

Ég heyrði í Bínu, systurdóttur minni, fyrir skömmu og hún var hress að vanda. Hún var ánægð með flutning norður, þó að íbúðarmissir í Grindavík eftir gos væri erfiður. Ég man líka eftir heimsókn til hennar í vinnuna í kjörbúð, þar sem hún var hamhleypa til verka og það var svo gaman að fylgjast með henni. Hún var svo áhugasöm og dugleg, mætti öllum með brosi og var svo jákvæð, og það var deginum ljósara að viðskiptavinir héldu upp á hana.

Það var einkenni á Bínu, hún vildi gera sitt besta og var alltaf ákveðin að gera gott úr sínum aðstæðum, var bjartsýn og hafði óbilandi kjark, þrátt fyrir mikið mótlæti. Ég dáðist að henni.

Bína var gull af manni, hlý, hress, brosmild og elskuleg. Það var gaman að spjalla við hana og stutt í kímnigáfuna og smitandi hláturinn. Hún elskaði drengina sína og vildi gera allt gott fyrir þá. Megi minningin um móðurkærleik hennar veita þeim styrk og huggun.

Blessuð sé minning Bínu og samúðarkveðjur til sona hennar Bjartmars og Dags Þórs, og til Gógóar, Alex og Þórðar.

Hrund Ævarr
Sigurbjörnsdóttir

Ó ljúfi Jesús líknar vor

sem leggur allra manna spor

lækna dóttur og ljáðu þrótt

lýstu henni dag og nótt.

Tak hana í friðar faðminn þinn

svo finni hún mátt og kærleik þinn

svo lifað geti hún laus við þraut

í ljósi þínu á nýrri braut.

(Höf. ók.)

Bið ég þess elsku hjartans stelpan mín, þegar við nú fylgjum þér síðasta spölinn, svo alltof alltof snemma, en með þökk fyrir samveru og öll símtölin okkar.

Ég er bæði klökk og þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þig, litla stelpuskottið, svo náið í mínu lífi frá fyrstu stundu eins og mín eigin börn. Okkar gæðastundir á meðan mamma þín settist aftur á skólabekk. Myndirnar af ykkur Sigursteini bera þessum tíma glöggt vitni, en honum fannst hann vera stóri bróðir og bara tveimur árum eldri.

Já, við mamma þín áttum í börnum hvor annarrar, byggðum okkur hús nánast í sömu götunni á Selfossi og stutt var á Bakkann til afa og ömmu. Ýmislegt brallað á þessum árum þar til hver heldur í sína áttina, þá var síminn gott samgöngutæki og mun ég geyma og varðveita í hjarta mínu síðustu samtölin okkar, elsku Bína mín, sem hafa verið óvenju mörg frá því gosið hófst og fram til um miðjan apríl. Minnisstætt er hve þú varst glöð og þakklát fyrir sendinguna frá mér í byrjun desember, „svo þið gætuð haldið jólin“, eins og þú orðaðir það.

En nú ertu komin á stað þar sem vel hefur verið tekið á móti þér í landi þar sem sól og sumar eru eilíf og engar þrautir þjaka.

Nú ertu leidd, mín ljúfa lystigarð Drottins í,

þar áttu hvíld að hafa, hörmunga og rauna frí,

við Guð þú mátt nú mæla, miklu fegri' en sól

unan og eilíf sæla er þín hjá lambsins stól.

Drottins í dýrðarhendi, Drottins barn, sofðu vært,

hann sem þér huggun sendi, hann elskar þig svo kært.

Þú lifðir í góðum Guði, í Guði sofnaðir þú,

í eilífum andar friði ætíð sæl lifðu nú.

(Hallgr. Pét.)

Ég mun segja strákunum þínum hve þeir áttu ástríka mömmu, sem elskaði þá, þótt lífið léki ekki alltaf við hana seinni árin.

Elsku Bjartmar, Dagur Þór, elsku Gógó systir mín, Alex og Þórður minn. Harmur ykkar er mikill og sorgin sár. Megi almættið vaka yfir ykkur, leiða og styrkja.

Elsku hjartans Bína mín, takk fyrir allt. Ég veit að þú ert umvafin englum og munt vaka yfir strákunum þínum, bróður þínum og mömmu þinni, sem elskaði þig af öllu sínu hjarta. Við vitum að þú munt vaka yfir okkur öllum, sem elskuðum þig.

Við biðjum þess að þér ljóssins englar lýsi

og leiði þig hin kærleiksríka hönd.

Í nýjum heimi æ þér vörður vísi

sem vitar inn í himnesk sólarlönd.

Sofðu, hvíldu sætt og rótt,

sumarblóm og vor þig dreymi!

Gefi þér nú góða nótt

guð, sem meiri er öllu í heimi.

(G. Guðm.)

Þín

Ingibjörg.