Þorvaldur Þórðarson
Þorvaldur Þórðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sprengivirknin á suðurenda gossprungunnar við Hagafell gæti þýtt að fljótt gæti dregið úr krafti eldgossins. Sprengigosinu gæti aftur á móti fylgt gjóskufall. Svartur og brúnn gosmökkur hóf að stíga upp frá syðri hluta gossprungunnar rétt fyrir kl

Agnar Már Másson

agnarmar@mbl.is

Sprengivirknin á suðurenda gossprungunnar við Hagafell gæti þýtt að fljótt gæti dregið úr krafti eldgossins. Sprengigosinu gæti aftur á móti fylgt gjóskufall.

Svartur og brúnn gosmökkur hóf að stíga upp frá syðri hluta gossprungunnar rétt fyrir kl. 16 í gær og kröftugar sprengingar sáust þar öðru hverju.

„Þetta er bara sprengivirkni. Það er ekkert öðruvísi,“ sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur við Morgunblaðið í gær. Nánast ekkert annað komi til greina. Sprengigos verður til við samspil kviku og grunnvatns. Þá sýður vatnið og þenst út.

Þorvaldur bendir á að gosið sé með þeim öflugri í núverandi goshrinu, jafnvel öflugra en gosið 18. desember. Virknin var svo mikil vegna þess að metmagn af kviku, hátt í 20 milljónir rúmmetra, hafði safnast í kvikugeymi undir Svartsengi.

Mengun berst í suðaustur

Þorvaldur býst samt við því að fljótlega dragi úr eldvirkninni, enda hafi gosið hafist af svo miklum krafti að kvikugeymirinn hljóti að tæma sig afar hratt.

Sprengivirknin gæti einnig verið vísbending um að það fari að draga úr virkni eldgossins. Þorvaldur telur svo vera vegna þess að þegar virkni minnki í sprungunni myndist greiðari leið fyrir grunnvatn að komast í kvikuna.

Sprengigosi fylgir yfirleitt loftmengun, bæði gas og gjóska. „Sem betur fer stendur vindurinn þannig að mökkurinn hefur verið að fara fyrst og fremst í suðaustur. En allt sem er þar undir gosmekkinum getur orðið fyrir gjóskufalli, eins líka að vatn þéttist í þessum gosmekki og það rigni úr honum. Það regn getur verið ansi súrt,“ segir Þorvaldur.