Aftökum fjölgaði um 30% á heimsvísu á síðasta ári og hafa ekki verið fleiri í tæpan áratug, eða frá árinu 2015. Árið 2023 fóru fram 1.153 aftökur á heimsvísu, að undanskildum aftökum í Kína, Víetnam og Norður-Kóreu

Birta Hannesdóttir

birta@mbl.is

Aftökum fjölgaði um 30% á heimsvísu á síðasta ári og hafa ekki verið fleiri í tæpan áratug, eða frá árinu 2015.

Árið 2023 fóru fram 1.153 aftökur á heimsvísu, að undanskildum aftökum í Kína, Víetnam og Norður-Kóreu. Aftökur þar í landi eru ríkisleyndarmál, en talið er að fjöldinn hlaupi á þúsundum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Amnesty International.

Ólögmætar aftökur

Þessi fjölgun er rakin til Mið-Austurlanda, en þar fjölgaði aftökum gríðarlega í fyrra.

Í Íran fjölgaði aftökum um 48% milli ára. Árið 2022 voru skráðar aftökur 576, en voru 853 árið 2023.

Af skráðum aftökum í Íran voru 545 skráðar ólögmætar þar sem þær voru framkvæmdar fyrir vímuefnabrot, rán og njósnir.

Samkvæmt alþjóðalögum má ekki refsa með dauðarefsingu fyrir þessi brot.

Margföldun í Sómalíu

Í Bandaríkjunum fjölgaði aftökum um 33% milli ára, skráðar aftökur voru 18 árið 2022 en voru skráðar 24 í fyrra. Amnesty kallar eftir því að Biden, forseti Bandaríkjanna, standi við loforð sín um að afnema dauðarefsingar á vegum ríkisins.

Í Sómalíu fjölgaði aftökum um 245% milli ára. Þær fara úr 11 árið 2022 í 38 árið 2023.

Fleiri dauðadómar

Dauðadómum fer einnig fjölgandi á milli ára. Árið 2023 voru 2.428 dauðadómar kveðnir upp sem er 20% fjölgun frá árinu áður.

Þá er einnig aukning í uppkvaðningu dauðadóma í Sómalíu, en þeim fjölgar um 66% á milli ára. Amnesty kallar eftir því að dauðrefsingar verði afnumdar á heimsvísu.

Höf.: Birta Hannesdóttir