Bestur í maí. Jónatan Ingi Jónsson umkringdur leikmönnum HK í leik liðanna þar sem kantmaðurinn skoraði bæði mörk Vals í 2:1-sigri.
Bestur í maí. Jónatan Ingi Jónsson umkringdur leikmönnum HK í leik liðanna þar sem kantmaðurinn skoraði bæði mörk Vals í 2:1-sigri. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikmaður maímánaðar hjá Morgunblaðinu, Jónatan Ingi Jónsson, var nýkominn af morgunæfingu með Valsliðinu þegar mbl.is náði tali af honum. Jónatan skoraði þrjú mörk og lagði eitt upp í fjórum leikjum í Bestu deildinni í fótbolta í maí en Valur vann þrjá leiki og gerði eitt jafntefli í maí

Bestur í Bestu

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Leikmaður maímánaðar hjá Morgunblaðinu, Jónatan Ingi Jónsson, var nýkominn af morgunæfingu með Valsliðinu þegar mbl.is náði tali af honum. Jónatan skoraði þrjú mörk og lagði eitt upp í fjórum leikjum í Bestu deildinni í fótbolta í maí en Valur vann þrjá leiki og gerði eitt jafntefli í maí. Valsmenn eru í þriðja sæti deildarinnar með 15 stig, sex stigum á eftir toppliði Víkings.

„Þetta er búinn að vera mjög skemmtilegur mánuður. Við unnum alla leikina nema þann síðasta gegn FH. Það er jákvætt og skemmtilegt þegar gengur vel,“ sagði Jónatan við Morgunblaðið er hann var spurður út í mánuðinn sjálfan.

Vilja vera með fleiri stig

Jónatan gekk til liðs við Val í vor frá norska B-deildarliðinu Sogndal. Hann segir tímabilið hafa farið vel af stað en þrátt fyrir að vera í þriðja sæti hefði Valsliðið viljað vera með fleiri stig og nær toppnum.

„Til að byrja með vorum við að læra hver á annan. Þá voru miklar breytingar á stöðum og fleira. Ég lék í vængbakverði þegar það voru meiðsli hjá okkur. Núna þekkjumst við aðeins betur og vonandi heldur þetta svona áfram.

Það er mjög stutt á milli í þessu. Við erum nú sex stigum á eftir Víkingi. Mótið er ekki hálfnað og það er meira en nóg eftir af þessu. Við eigum eftir að spila við flest lið tvisvar og einhver þrisvar. Öll stig eru þó verðmæt og við verðum að halda þessu sem við höfum gert vel í maí áfram í sumar,“ bætti Jónatan Ingi við en aðeins átta af 27 umferðum er lokið í Bestu deildinni. Jónatan segir jafnframt að umhverfið í Val sé mjög fagmannlegt og allt sem hann bjóst við.

Mikil forréttindi

Jónatan Ingi spilar með mörgum þaulreyndum knattspyrnumönnum hjá Val. Þrír þeirra hafa spilað á HM, þeir Aron Jóhannsson, Birkir Már Sævarsson og Gylfi Þór Sigurðsson. Jónatan segir þessa leikmenn kenna sér mikið.

„Þetta eru allt toppdrengir og það eru forréttindi að spila með þeim. Maður þarf að nýta sér það og læra af þeim. Þeir eru alltaf tilbúnir að hjálpa. Nú er Gylfi búinn að vera meiddur og við eigum hann inni.“

Aðspurður segir Jónatan það aðallega skemmtilegt að spila með Gylfa.

„Það er ekki beint öðruvísi að spila með Gylfa en öðrum leikmönnum fyrir utan það hversu ótrúlega góður hann er. Á vellinum er tilfinningin samt ekkert önnur. Þetta er bara fótbolti. Auðvitað er gott að vera með mann eins og hann í liðinu. Hann er frábær eins og hann sýndi gegn Blikunum til dæmis. Fyrst og fremst eru það forréttindi og skemmtilegt að spila með honum. Maður er þó samt ekkert sérstaklega að pæla í því á vellinum.“

Fékk tilboð frá Noregi

Jónatan Ingi fékk nokkur tilboð frá liðum í efstu deild Noregs fyrr á árinu. Voru þau öll um miðja deild. Hann segir þó Val hafa orðið fyrir valinu af mörgum ástæðum.

„Ég var með nokkur tilboð frá liðum í norsku úrvalsdeildinni en það var ekki alveg nógu spennandi fyrir leikmann eins og mig. Hvernig þau spila fótbolta er ekki aðlaðandi. Svo var það út af fjölskyldu. Ég á núna tvö börn og því aðeins meira en að segja það að vera úti. Auðvitað kitlar það mann að spila á háu stigi úti, en munurinn á Sogndal og Val er enginn, ef eitthvað er þá er Valsliðið betra.“

Jónatan skrifaði undir fjögurra ára samning við Val. Hann bætir við að til þess að hann færi aftur út þyrfti mjög spennandi tilboð að bjóðast, annars væri hann virkilega ánægður hjá Val. Ekkert ákvæði er þó í samningi hans um það en ef gott tilboð kæmi myndi hann leysa það með Val.

Allt öðruvísi fótbolti

Jónatan lék í norsku B-deildinni, sem er atvinnumannadeild, ólíkt okkar Bestu deild. Jónatan segir erfitt að segja til um gæðamun.

„Það eru nokkur lið í norsku B-deildinni sem gætu léttilega spilað í efstu deild hér. Fá þeirra myndu þó vinna deildina. Í Noregi spila allir bara fótbolta, enginn er í aukavinnu. Hér heima er það öðruvísi. Bestu liðin hér heima ættu þó góðan séns í efstu lið B-deildarinnar og neðstu lið úrvalsdeildarinnar. Þau spila bara öðruvísi en við. Efstu liðin hér heima vilja spila vel og vera mikið með boltann. Hjá miðlungsliðum í Noregi er þetta meira hark. Þegar þú ert kominn í efstu liðin í Noregi, eins og Bodö/Glimt, Molde og Rosenborg, er munurinn samt skýr.“

Pæli auðvitað í því

Jónatan Ingi er uppalinn FH-ingur og var hjá liðinu þar til hann fór út til Sogndal sumarið 2022. Hann segist hafa rætt það fram og til baka.

„Já, ég pældi í því. Það er nokkuð sem ég ræddi við mitt fólk og hugsaði út í. Ég spilaði með FH áður en ég fór út. Ég tók þá ákvörðun að velja Val því á þessum tímapunkti fannst mér líklegra að Valur myndi henta mér betur. Ég er sáttur við þá ákvörðun í dag. FH er uppeldisfélagið mitt og mér þykir mjög vænt um það. Það er aldrei að vita hvað gerist í framtíðinni,“ bætti Jónatan Ingi við í samtali við Morgunblaðið.