Til staðar Haraldur vill bæta fjölskyldunni upp þann tíma sem hann var ekki á staðnum.
Til staðar Haraldur vill bæta fjölskyldunni upp þann tíma sem hann var ekki á staðnum.
Haraldur Ingi Þorleifsson tónlistarmaður og athafnamaður segir tónlist sína mjög persónulega. Tónlistina gefur hann út undir listamannsnafninu Önnu Jónu Son. Nýja platan hans, The Radio Won't Let Me Sleep, kom út fyrr á árinu en fyrri hluti hennar varð til fyrir um þrjátíu árum

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Haraldur Ingi Þorleifsson tónlistarmaður og athafnamaður segir tónlist sína mjög persónulega. Tónlistina gefur hann út undir listamannsnafninu Önnu Jónu Son. Nýja platan hans, The Radio Won't Let Me Sleep, kom út fyrr á árinu en fyrri hluti hennar varð til fyrir um þrjátíu árum.

Fyrstu kynni Haralds af tónlist voru erfið að hans sögn en það er eitt atvik úr æsku sem situr enn í honum. „Ég hef verið að hugsa mikið um þetta undanfarið. Ég var í Melaskólakórnum sem barn en kórstjórinn var lítið hvetjandi við mig í söng sem varð til þess að ég eiginlega hætti að syngja. Ég hafði engan áhuga á tónlist í langan tíma vegna þessa og það var ekki fyrr en ég varð tvítugur að ég byrjaði að spila, fyrst æfði ég mig á gítar og í framhaldi af því fór ég loks að syngja aftur. Þetta er því smá uppreisn gagnvart þessum kórstjóra. Það eru nú fjörutíu ár síðan og ég gleymi þessu ekki.“

Í fríi frá tónlistinni

„Seinni hluti plötunnar var svo saminn þegar við tókum upp plötuna svo þetta nær yfir langt tímabil. En ég gerði eiginlega ekkert á milli,“ segir Haraldur. „Ég tók mér frí frá tónlist í tuttugu og fimm ár. Það var alltaf á dagskránni að taka eitthvað upp en ég var alltaf í smá vandræðum með þetta. Mér leið eins og þetta væri ekki nógu gott og vissi ekki alveg hvernig ég ætti að gera þetta. Það var ekki fyrr en ég flutti aftur heim fyrir nokkrum árum að ég byrjaði að vinna aftur í þessari plötu og fór að gera tónlist aftur. Það hefur verið ótrúlega gefandi.“

Upphaflega langaði hann að taka tónlistina sína upp fyrir sjálfan sig og börnin. Þegar hann fann að það fór að ganga vel ákvað hann að slá til og gefa út lögin.

„Ég var búin að strengja áramótaheit á hverju einasta ári, allavega í svona fimmtán ár, um að þetta væri það sem ég ætlaði mér að gera. Á endanum gerði ég það, ég veit ekki alveg hvað það var. Það var bara einhver tími og einhver ró sem ég hafði,“ segir Haraldur. Einnig hafði það mikið að segja að vinur hans og tónlistarmaðurinn Sigurður Guðmundsson var laus til að vinna þetta með honum. „Mig vantaði einhvern sem ég treysti vel svo það gekk allt upp.“

Innri röddin gagnrýnin

Hvernig hafa viðtökurnar verið?

„Ég hef verið að vinna með rosalega góðu fólki og þetta hefur verið mjög gefandi. Platan sjálf var tilbúin fyrir tveimur árum en ég þorði ekki að gefa hana út, það var eitthvert innra samtal, ég að gagnrýna sjálfan mig. Sem er oft erfiðasti gagnrýnandinn. Ég veit ekki hvaðan þetta innra samtal kemur, að manni finnist eins og maður sé ekki að gera nógu vel og það sé fólk sem kunni þetta miklu betur. Að maður ætti að vera að gera eitthvað annað. En það hefur enginn sagt neitt í líkingu við það við mig. Ég er að reyna að láta það vera nóg að mér finnist þetta skemmtilegt,“ segir Haraldur.

Hann hefur verið í mörgum verkefnum í gegnum tíðina og er greinilega margt til lista lagt. Hann er stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, rak veitingastaðinn Önnu Jónu, var yfirmaður hjá Twitter (nú X) auk þess sem hann hefur sett upp yfir þúsund rampa hér á landi með átakinu Römpum upp Reykjavík. Hann segir tónlistina þó alltaf taka meiri og meiri tíma.

„Ég er að reyna að losa mig út úr eins mörgum verkefnum og ég get. Það er eiginlega bara tónlistin og fjölskyldan mín sem ég reyni að hafa tíma fyrir. Ég var að vinna mjög mikið, mjög lengi, og mig langar að fara að slappa af og bæta upp fyrir þann tíma sem ég var ekki á staðnum.“

Átak að fara frá fjölskyldunni

Nýja lagið hans, Lay Down Love, er komið út og er í rauninni vögguvísa.

„Þetta er lítið sætt lag og er lagið sem ég syng alltaf fyrir strákinn minn áður en hann er að sofa. Tónlistin mín er öll persónuleg og eru lögin mín um eitthvað ákveðið fyrir mér.“ Myndbandið við lagið verður frumsýnt í dag á vef K100.is. og mbl.is en það er tekið upp í Sómalíu. Haraldur segir að sig hafi langað að gera myndbönd við öll lög plötunnar og vinnur hann með mismunandi leikstjórum um allan heim. „Ég er orðinn frekar gamall og ég veit ekki hvort ég nenni að fara að spila mikið. Það er svolítið átak að fara frá fjölskyldunni og í rútu. Þá varð þessi hugmynd til að fá mismunandi leikstjóra til að búa til myndbönd við lögin, mér fannst það skemmtileg hugmynd og sagði bara já.“

Hægt er að hlusta á lagið og horfa á myndbandið á K100.is.

Höf.: Edda Gunnlaugsdóttir