Kristján Benóný Kristjánsson húsasmíðameistari fæddist 20. september 1939 í Bolungarvík. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold 19. maí 2024.

Foreldrar hans voru Kristján Friðgeir Kristjánsson, f. 9. júlí 1918, og Jónína Elíasdóttir, f. 24. október 1918, bæði látin.

Kristján var elstur fimm systkina en hin eru Elín Ingibjörg, f. 1941, d. 2015, Þórir Sturla, f. 1945, d. 2012, Dagbjartur Hlíðar, f. 1952, og Jón Pétur, f. 1959, d. 2024.

Hinn 28. mars 1964 kvæntist Kristján Benóný Þuríði Guðmundsdóttur frá Hafnarfirði, f. 28. janúar 1945. Foreldrar hennar voru Guðmundur Þórir Egilsson, f. 29. september 1905, og Sigurveig Jóhannsdóttir, f. 2. ágúst 1916, bæði látin. Kristján og Þuríður eignuðust þrjú börn. Þau eru Guðmundur Þórir, f. 1963, d. 2008, Jónína Þórunn, f. 1967, og Kristján Friðgeir, f. 1970.

Guðmundur Þórir eignaðist fjögur börn, Heimi Skúla, Karl Svanhólm, Svanhvíti Evu og Svölu Björk. Börn þeirra eru Soffía Svanhildur, Róbert Óli, Benedikt Bóas, Hildur María, Guðmundur Hrafn, Gunnar Andri, Baltasar Breki og Henrik Heikir.

Jónína Þórunn og eiginmaður hennar Leifur Kolbeinsson, f. 1966, eiga börnin Kristján Fannar og Hrefnu Þuríði. Börn þeirra eru Úlfar Brim, Ylfa Marín, Fanney Bríet og Hrafnkatla.

Kristján Friðgeir og eiginkona hans Íris Rut Erlingsdóttir, f. 1972, eiga börnin Helgu Maríu, Kristján Benóný og Brynhildi Lilju.

Kristján ólst upp í Bolungarvík þar sem hann átti góð uppvaxtarár. Gekk þar í barnaskóla og síðar í Reykjanesskóla við Ísafjarðardjúp. Hann fór ungur að árum í sveit hjá Jóni Fjalldal á Melgarðseyri við Ísafjarðardjúp. Hann var til sjós við síldveiðar á Siglufirði þrjú sumur. Hann hóf nám hjá Jóni Friðgeiri Einarssyni í húsasmíði í Bolungarvík. Lauk sveinsprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1961 og meistaraprófi í húsasmíði 1972.

Kristján lauk námi við handavinnudeild Kennaraskólans árið 1963 sem smíðakennari. Hann starfaði við kennslu í Laugalækjarskóla þar til hann lauk kennsluskyldu árið 2002.

Árið 1970 stofnuðu bræðurnir Kristján Benóný og Þórir Sturla byggingafélagið Kristjánssyni. Bræðurnir einbeittu sér alla tíð að nýsmíði íbúðarhúsnæðis. Flest húsin byggðu þeir sjálfir frá grunni, en síðari ár nutu þeir aðstoðar við uppslátt.

Hann var félagi í Kiwanisklúbbi Hraunborgar í Hafnarfirði.

Útför Kristjáns Benónýs fer fram í Garðakirkju í Garðabæ í dag, 30. maí 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku tengdapabbi, brotthvarf þitt er okkur ákaflega þungt. Við gleðjumst vissulega yfir öllum góðu minningunum sem við höfum skapað okkur í gegnum árin. Öll mín fullorðinsár hefurðu verið hluti af lífi mínu. Ég var aðeins 17 ára gömul þegar Kristján, litli drengurinn ykkar Þuru, stal hjarta mínu. Ég veit að hvorugt ykkar óraði fyrir að ég væri komin til að vera.

Þér var annt um fjölskylduna og þú varst sannarlega vinur vinna þinna. Fjölskyldustundirnar voru þér dýrmætari en nokkuð annað. Sjaldan leið þér betur en þegar stórfjölskyldan kom saman í Skorradal í fallega sumarbústaðnum sem þú smíðaðir fyrir 30 árum. Handbragð þitt setur mikinn svip á bústaðinn. Þar var sannarlega nostrað við allt og öllu vel við haldið. Fjölskylduperlan þar sem næstum alltaf er gott veður.

Fjölskyldan hefur svo sannarlega notið þess að vera saman þar. Þótt hún stækkaði var alltaf pláss fyrir alla sem þess óskuðu. Gist var í hverju rúmi, flatsæng í stofunni, tjald úti á flöt og fellihýsi á stæðinu. Einu gilti hversu fyrirferðarmikil barnabörnin voru, enginn var óþekkur samkvæmt ykkur Þuru. Samheldni ykkar hjóna, væntumþykja og virðing gagnvart öllum hefur kennt okkur í stórfjölskyldunni að bera virðingu hvert fyrir öðru.

Því er okkur auðvelt að ferðast saman jafnt innanlands sem utan. Að dvelja saman í húsi í tvær vikur án ágreinings. Nú njótum við þess að rifja upp allar ferðirnar. Þvílík forréttindi að hafa verið svona mikið saman. Þú elskaðir að vera í sól og hita. Það var svo gaman að sjá hvað þú slappaðir vel af í sólbaði. Margir áttu erfitt með að trúa að þú gætir slappað af. Enda með eindæmum duglegur til vinnu og verka.

Margir fara í vatnsrennibrautagarða í útlöndum fyrir börnin. Það gerðum við líka og þú lést ekki þitt eftir liggja og naust þess að bruna niður brautirnar með afabörnunum þínum. Þú elskaðir að fara í sund og barnabörnin fengu sannarlega að njóta þess með þér.

Það eru ekki bara ferðalögin sem við getum glaðst yfir. Núna getum við líka notið þess að skoða dýrmætar myndir frá veislum, matarboðum, hrekkjavöku og óvissuferðum. Þú varst alltaf til í að taka þátt í hvort sem í því fólst að fara í grímubúning eða þyrluflug.

Vináttan óx með hverju misserinu og þið Þura kunnuð sannarlega þá list að láta fólk upplifa sig velkomið í ykkar ranni. Þakklæti mitt fyrir þá tilfinningu er nokkuð sem mölur og ryð fá ei grandað.

Þú tókst veikindum þínum með miklu æruleysi. Hugur þinn vildi gera svo miklu meira en þrekið bauð upp á, en stundum er það svo að kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða. Það var auðvelt að hjúkra þér. Þótt þú værir orðinn mjög veikur þakkaðirðu mér ávallt fyrir aðstoðina.

Því miður komu veikindi þín í veg fyrir að þú gætir komið í sólarparadísina okkar á Spáni. Þú samgladdist okkur innilega með kaupin og varst sannarlega búinn að skoða vistarverurnar, þökk sé tækninni. Ég er þess sannfærð að þú munt njóta með okkur og vaka yfir okkur.

Heila þökk fyrir mig.

Íris Rut.

Það á svo vel við að rifja upp orð úr ritgerð sem ég skrifaði árið 2013, 15 ára gömul: „Einhvern veginn á ég mér tvær hetjur sem ég virkilega dýrka og dái. Afi minn minnir mig svolítið á hann Herkúles vin minn. Svo er það amma sem er alveg einstök hetja. Það er svo skemmtilegt þegar fólkið sem manni þykir hvað vænst um breytist í eins konar hetjur sem maður dýrkar og vill aldrei missa. Hetjur í mínum augum eru t.d. fólk sem vill öllum vel, hjálpar fólki í erfiðleikum, styður við bak allra, gengur í gegnum erfiðleika og sigrast á þeim o.fl. Alla þessa hluti gera þau. Yngri árin mín voru æðisleg vegna nærveru minnar við afa og ömmu. Ein af mínum bestu minningum var að fá að búa hjá þeim á Sunnuflöt 1. Það er fáránlegt hvað manni getur þótt vænt um fólk bara af því að það sýður hafragraut fyrir mann á morgnana, skutlar manni í skólann, býr til ristabrauð og kakó í kaffitímanum, fer með faðirvorið á kvöldin og kyssir mann góða nótt.“

Þessi dýrmætu orð sem ég skrifaði sem barn eiga enn þá við í dag og gott betur en það. Afi skilur eftir sig risaskarð í hjarta mínu og fyrir mér var hann miklu meira en bara þessi týpíski afi. Við vorum einstaklega náin, hann var minn besti vinur og algjör lykilmaður í öllum mínum ákvörðunum, hann hefur verið minn helsti stuðningsmaður, haft óbilandi trú á mér, híft mig upp þegar ég hef þurft á því að halda og dregið mig niður á jörðina sömuleiðis. Ég á svo fallegar og góðar minningar um elsku afa, stundirnar okkar í Skorradal, Sunnuflöt, framkvæmdir heima, kvöld- og morgunkaffi, ferðalög, göngutúra og svo lengi mætti telja.

Mínar allra dýrmætustu minningar, sem ég mun ávallt varðveita, eru hvað honum þótti vænt um og elskaði litlu stelpurnar okkar Snæþórs mikið. Það var nefnilega þannig að síðasta starf afa var ekki að byggja eins og hann er þekktastur fyrir heldur tóku þau afi og amma stelpurnar okkar að sér og gerðust eins konar „dagforeldrar“. Þetta starf tók afi alvarlega, enda vildi hann helst eyða öllum stundum með þeim. Fanney Bríet og Hrafnkatla voru svo heppnar að geta verið hjá langafa og langömmu flesta daga, þar fengu þær skilyrðislausa ást, umhyggju og betri orðaforða en mamma þeirra hefur. Mér er svo minnisstætt þegar við mæðgur kvöddum afa á föstudögum og afi sagði nánast alltaf: „Kemur Fanney ekki á morgun?“ Ég svaraði hálfglottandi: „Nei, hún kemur ekki í pössun, það er laugardagur, en við kíkjum í kaffi.“ Þá svarar afi: „Hrefna mín, þú ættir bara nýta tímann í að gera það sem þú þarft að gera og hún verður bara hér (með smá frekjutón).“ Við amma horfðum bara hvor á aðra og brostum í hvert skipti.

Ritgerðin sem 15 ára gamla afastelpan skrifaði endaði með orðunum: „Þau eiga allt það besta skilið og ég, Hrefna Þuríður, er stoltasta barnabarn í heimi.“

Elsku afi, takk fyrir að hafa heimilið þitt alltaf opið fyrir mig og stelpurnar okkar. Takk fyrir að leiðbeina mér í gegnum lífið. Takk fyrir ástina og umhyggjuna. Minningu þína mun ég ætíð geyma í hjarta mínu.

Afastelpan þín og stoltasta barnabarn í heimi,

Hrefna Þuríður Leifsdóttir.

Elsku besti afi minn. Hve þakklát ég er fyrir þig og mun ávallt hugsa hlýtt til þín. Það er alls ekki sjálfsagt að kalla afa sinn besta vin sinn og geta alltaf fengið ráð hjá þér. Það er svo ótalmargt sem þú hefur kennt mér og alltaf verið til staðar.

Að koma í heimsókn á hverjum degi var besti hluti dagsins. Ekkert jafnast á við afaknús og að fá koss á kinnina. Afi var heimsins bestur, væntumþykja hans skein af honum og var nærvera hans engu lík. Að geta farið til hans að spjalla um allt milli himins og jarðar voru mikil forréttindi. Það voru mikil forréttindi að eiga afa að í einu og öllu.

Afi var tilbúinn að aðstoða alla og vildi að allir hefðu það eins og best verður á kosið. Ég er svo þakklát fyrir allar utanlandsferðirnar okkar saman. Að fara með stórfjölskyldunni til útlanda er alls ekki sjálfsagt. Ferðirnar voru margar í gegnum árin og þar nutu allir sín vel saman og skemmtu sér saman.

Amma og afi voru einstaklega heppin hvort með annað. Minning mín um 60 ára brúðkaupsafmæli þeirra mun hlýja mér um ókomna tíð. Það var ánægjulegt að skipuleggja óvænta veislu fyrir þau þar sem allir voru samankomnir til þess að fagna þessum merka áfanga í lífi þeirra.

Afi bað mig að velja veglegan og flottan blómvönd handa ömmu áður en óvissan hæfist. Þegar boðinu lauk var brunað beinustu leið upp í Skorradal til þess að njóta páskanna. Að hugsa um þig, elsku afi, veitir mér hlýju en á sama tíma fylgir mikill söknuður.

Minn uppáhaldsstaður er klárlega staðurinn okkar, Skorradalur. Ég mun lifa í gegnum þig þegar ég verð þar. Sumarbústaðurinn sem þú byggðir fyrir þrjátíu árum er klárlega fallegasti og notalegasti bústaður landsins. Það var alltaf gaman að fara með ömmu og afa upp í bústað þegar ég var yngri. Afi lagði mikið upp úr því að vera með góðan mat á boðstólum og að öllum liði vel.

Það var ekkert skemmtilegra en að sigla um á bátnum þegar vatnið var spegilslétt og pæla í sumarbústöðum sem verið var að byggja. Auk þess að fara hratt og fá vel af vatni inn á bátinn. Það var líka alltaf gaman að pæla í því hvar við værum staðsett miðað við bústaðinn okkar, við leituðum alltaf að honum og veifuðum gjarnan þeim sem voru uppi í bústað. Afi bað mig þess lengstra orða að passa ávallt upp á bústaðinn okkar því hann vissi hvað mér þykir vænt um bústaðinn og hve ég nýt þess að vera þar. Þessu fékk hann mig til að lofa sér.

Söknuðurinn er mikill en allar góðu stundirnar veita hlýju í hjartað um ókomna tíð. Takk afi fyrir að hafa veitt mér væntumþykju, mikinn hlátur en fyrst og fremst fyrir að hafa mótað mig í þann einstakling sem ég er í dag.

Þín afastelpa,

Brynhildur Lilja Kristjánsdóttir.

Hamingja okkar í lífinu er að kynnast góðu fólki. Í dag kveðjum við hjartans vin okkar hjóna, Kristján Kristjánsson, en hann var tengdafaðir dóttur okkar, Írisar.

Ekki vissum við þegar við hittum hjónin Þuríði og Kristján árið 1990 að þarna væru komnir einir okkar bestu vinir á lífsleiðinni. Börnin okkar að bindast kærleiksböndum og lífið ljómandi bjart. Og við tengdaforeldrarnir smullum saman, áttum góðar stundir, þó ekki alltaf með unga fólkinu, heldur jafnvel bara við fjögur. Ferðalögin okkar urðu æði mörg og ánægjuleg út um allan heim.

Við eigum líka góðar minningar innanlands, sérstaklega frá Bolungarvík, fæðingar- og uppvaxtarstað Kristjáns. Þar sló hjarta hans sterkt. Hann ólst upp hjá elskulegri, glaðværri fjölskyldu en flutti til höfuðborgarinnar þar sem hann kynntist ástinni sinni, Þuríði Guðmundsdóttur. Þau gengu æviveginn hönd í hönd og náðu að fagna demantsbrúðkaupi í stórveislu með afkomendum sínum. Þau stóðu sterk saman í lífinu og sáu ekki sólina hvort fyrir öðru alla tíð.

Kristján var byggingarmeistari og byggði hvert húsið af öðru ásamt góðum bróður og samstarfsmönnum. Alltaf glaðbeittur og dugmikill þó að oft hafi vinnudagarnir verið langir.

Kristján unni lífinu fram á síðasta dag. Umvefjandi afi og langafi, sem elskaði að hitta börnin og þau einstaklega dugleg að heimsækja hann.

Hann hlakkaði til að smakka bjargegg frá Grímsey eins og hann hafði gert með góðum vinum um árabil. Hann langaði líka til að sjá kvikmyndina Snertingu og lagði til við tengdadóttur sína Írisi að kaupa bíómiða en hún hafði einmitt nýlega lesið bókina fyrir tengdaföður sinn. Hann elskaði fólkið sitt innilega.

A kveðjustundinni þökkum við Kristjáni dýrmæta vináttu og sterk vinabönd. Það var hamingja okkar hjóna að kynnast góðu hjónunum Kristjáni og Þuríði.

Guð blessi minningu Kristjáns Kristjánssonar.

Helga og Erlingur.

Kær félagi okkar í Kiwanisklúbbnum Hraunborg er fallinn frá, Kristján Benóný Kristjánsson.

Kristján var einn af þessum hljóðu og traustu félögum sem eru öflugir en vilja ekki fara í frontinn en taka að sér ákveðin störf og sinna þeim því betur. Naut hann sín vel í hússtjórn og þar munaði um hann með sína miklu þekkingu. Það var gott að eiga Kristján að sem félaga og vin. Það er sárt að kveðja en ljúft að minnast og við eigum margar góðar minningar úr leik og starfi.

Við Hraunborgarfélagar og makar vottum Þuríði Guðmundsdóttur, hans góðu eiginkonu, og fjölskyldu okkar dýpstu samúð og kveðjum okkar góða vin og félaga með virðingu, þökk og söknuði. Í samráði við fjölskyldu Kristjáns mun Hraunborg styrkja Ljósið í minningu hans. Kristján, hafðu þökk fyrir allt og allt. Guð geymi minningu þína.

F.h. Hraunborgarfélaga og maka,

Gylfi Ingvarsson.