Ingólfur Ómar sendi mér góðan póst á þriðjudag: Nú styttist í að þjóðin kjósi sér forseta. Af því tilefni langar mig að lauma að þér þessari vísu: Hæfni búin umfram allt af sér þokka býður. Kötu Jak þú kjósa skalt hvað sem öðru líður

Ingólfur Ómar sendi mér góðan póst á þriðjudag: Nú styttist í að þjóðin kjósi sér forseta. Af því tilefni langar mig að lauma að þér þessari vísu:

Hæfni búin umfram allt

af sér þokka býður.

Kötu Jak þú kjósa skalt

hvað sem öðru líður.

Kosningarnar nálgast, segir Helgi R. Einarsson, og kona er maður:

Við viljum öll mætan mann

sem merki vort bera kann,

en spurningin er

auðvitað, hver

og verður 'ann hún eða hann.

Þegar Hjörtur Pálsson hafði lesið Vísnahornið á þriðjudag og enn voru forsetakosningar yrkisefnið orti hann:

Ágústs mat er eitthvað valt,

hann er ei heilladísa fróður,

þótt hann viti annars allt

um ýmsan fagran jarðargróður.

Vörður Höllu veitir svar

vini Kötu, Páli.

Eg mun tala alls staðar

ákaft hennar máli.

Sigþór Hallfreðsson segir á Boðnarmiði að nöfnurnar sláist um fyrsta sætið í fyrstu skoðanakönnun vikunnar:

Halla tekur Höllu á,

Höllu leiða vekur,

Þegar Halla Höllu frá,

Höllu fylgi tekur.

Broddi B. Bjarnason yrkir við fallega ljósmynd:

Alla daga blómstra blóm,

brosir falleg grundin.

Nú er sumar nú er sól,

nú er gæða stundin.

Gunnar J. Straumland skrifar: Á sólríkum og hlýjum degi var farið á söguslóðir er tengjast síðustu opinberu aftöku Íslandssögunnar er Friðrik og Agnes voru hálshöggvin við Þrístapa. Afburða leiðsögumaður var Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum og er með hreinum ólíkindum hversu fróður og góður sögumaður hann er. Það sem hann ekki veit um atburði þessa og allt sem þeim tengist er þess ekki virði að vita. Ég gat þó ekki stillt mig um að lauma eftirfarandi vísu að honum við ferðarlok:

Nú lýkur ferð um sólarsveit,

sem mér þykir verst.

Það er margt sem Magnús veit

meira en hefur gerst.